Túbuleikari í Laugarborg


Tónleikar í Laugarborg sunnudag, 24. maí kl. 15:00

Einn áhugaverðasti túbuleikari Evrópu, Finninn Harri Lidsle, mun leika þar ásamt japanska píanóleikaranum, Kyoko Matsukawa.

Auk þess að frumflytja nýtt tónverk eftir Mist Þorkelsdóttur, Njörður, munu Harri og Kyoko flytja blandaða efnisskrá með verkum eftir finnsk og íslensk tónskáld sem ýmist eru skrifuð fyrir einleikstúbu, píanóeinleik eða bæði hljóðfærin. Meðal annarra verka á efnisskránni má nefna sónötur eftir Rautavaara og Wessman, og Boreas eftir Áskel Másson.

Harri Lidsle hefur getið sér orðstír á alþjóðlegum vettvangi fyrir að vinna náið með tónskáldum og vinna þannig markvisst að uppbygginu nýrra tónbókmennta fyrir túbuna. Hann er þekktur fyrir óvenjulegan og spennandi flutning og hefur leikið einleik með hljómsveitum víða um heim. Harri starfar í Sinfóníuhljómsveitinni í Lahti og er vinsæll kennari og leiðbeinandi.

Kyoko nam píanóleik í Tokyo, Budapest og Basel. Hún hefur unnið til verðlauna í Evrópu og  komið fram sem einleikari og í samleik vítt og breitt. Hún starfar í Lahti síðan 2003.

Tónleikarnir eru í samstarfi við Félag íslenskra tónlistarmanna, Finnska einleikarafélagið - Suomen Solistiyhdistys - og styrktir af Norræna menningarsjóðnum.