Umhverfisráðherra í heimsókn

Fréttir
Umhverfisráðherra heimsækir Eyjafjarðarsveit
Umhverfisráðherra heimsækir Eyjafjarðarsveit

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sótti Eyjafjarðarsveit í morgunsárið þar sem rætt var um hálendisþjóðgarð sem er í undirbúningi þessi misseri.

Í nokkurn tíma hefur verið unnið að því að skapa umgjörð um hálendisþjóðgarð sem meðal annars byggir á reynslu frá Vatnajökulsþjóðgarði þar sem mikil áhersla er lögð á svæðisráð og að skipulag á svæði sveitarfélaga sé enn þá á höndum sveitarfélaga. Svæðisráð eru þannig samsett af tilheyrandi sveitarstjórnarmönnum og vinna náið að skipulagningu svæðisins og tillögum um hvað skuli byggja upp innan þeirra svæðis.

Ráðherra fékk margar spurningar á sig og meðal annars er tengdist virkjunarkostum innan þjóðgarðs og nefndi hann þar að þeir skiptust í tvo flokkar. Annarsvegar að nýta betur þau svæði sem þegar væri búið að raska og nýta mætti enn betur sem hann væri mjög hlynntur og síðan hinsvegar að virkja ný svæði sem hann væri ekki jafn hrifinn af.

Tilgangur þjóðgarðs er í grunninn að vernda svæðið og því þarf að huga vel að þeirri uppbyggingu sem henni fylgir. Hvar vilja menn fá umferð, hvernig umferð og hve mikla. Viljum við brúa ár eða viljum við ekki búra þær, viljum við halda sumum vegum torfærum eða viljum við hleypa umferð smábíla á þá með tilheyrandi uppbyggingu og álagi á svæðið? Þetta eru spurningar sem settar eru í hendur svæðisráða sem gert er að setja fram drög um hvað sveitarfélögin vilja sjá byggjast upp á sínu svæði.