Umhverfisverðlaun Eyjafjarðarsveitar fyrir tímabilið 2015-2017

Umhverfisverðlaun Eyjafjarðarsveitar fyrir tímabilið 2015 til 2017 voru afhent í liðinni viku. Markmið með umhverfisverðlaunum er að sýna þakklæti fyrir lofsvert framtak til fegrunar umhverfisins og auka umhverfisvitund íbúa sveitarfélagsins. Umhverfisverðlaun Eyjafjarðarsveitar eru afhent annað hvert ár.

Að þessu sinni afhenti Hákon Bjarki Harðarson, formaður umhverfisnefndar, annars vegar Önnu Guðmundsdóttur og Páli Ingvarssyni á Reykhúsum ytri og hins vegar Laugarborg viðurkenningar umhverfisnefndar vegna framlags þeirra til umhverfismála og fegrunar umhverfis.

Anna og Páll hafa í áranna rás látið skógrækt mjög til sín taka og hafa gengið vasklega fram á þeim vettvangi. Þau hafa aflað sér mikillar þekkingar á skógrækt meðal annars með því að sækja fjölmörg námskeið. Þau hafa með margvíslegum hætti tekið þátt í starfi skógræktarfélaga auk þess að hafa kappkostað að gera skógarsvæðið í landi sínu aðgengilegt með grisjun og stígalagningu.  Meðal áhugaverðustu verkefna þeirra þessi misserin er jólatrjárækt og má jafnvel gera ráð fyrir að skógrækt Reykhúsahjóna nái inn í stofur Eyfirðinga þegar á næstu jólum.

Eggert Eggertsson staðarhaldari að Laugarborg hefur undanfarin ár sýnt einstaka natni og metnað við fegrun og viðhald Laugarborgar svo tekið er eftir. Laugarborg er áberandi hús í sveitarfélaginu þar sem það stendur og mikilsvert fyrir umhverfið að sómi sé að byggingunni. Tónleikahald hefur löngum verið helsta hlutverk Laugarborgar, en nú hefur húsið í vaxandi mæli orðið eftirsóttara fyrir hverskyns samkomur og veisluhöld, svo sem brúðkaup og fermingar og mikið um að vera í sumar hjá Eggert. Ekki er um að efast að framlag hans er snar þáttur í betri nýtingu hússins. Því er umhverfisverðlaunum vel fyrir komið hjá Laugarborg.

Eyjafjarðarsveit þakkar heimilisfólki á Reykhúsum ytri og Laugarborg fyrir framlag sitt til fegrunar umhverfisins í sveitarfélaginu.