UNDIR KREPPUNNI KRAUMAR KRAFTUR

Á fjórða hundrað innsend verk í hönnunarsamkeppnina Þráður fortíðar til framtíðar, bera vitni um feikilegan sköpunarkraft og hugvit. Dómnefnd hefur tilnefnt 10 verk til úrslita. Vinningshafar verða tilkynntir á Handverkshátíðinni að Hrafnagili laugardaginn 8. ágúst.

Meðfylgjandi er mynd af vesti og húfu eftir Vilborgu Ástráðsdóttur sem er verk tilnefnt til verðlauna.

vestioghufa_400 

Ein umhverfisvænasta virkjun sögunnar hefur staðið yfir í vor og sumar og nú hefur mikill fjöldi afurða, unnar úr beisluðum sköpunarkrafti og íslenskri ull litið dagsins ljós. Þúfa, Fugl, Bauja, Heklukríli og Tröllaskór eru meðal þeirra verka sem bárust hönnunarsamkeppninni – Þráður fortíðar til framtíðar – en markmið samkeppninnar er að vekja athygli möguleikum íslensku ullarinnar þegar kemur að handverki og hönnun.

Þátttaka fór langt fram úr björtustu vonum aðstandenda, en á fjórða hundrað tillögur bárust samkeppninni sem er hugarfóstur Esterar Stefánsdóttur og haldin í samvinnu við Dórótheu Jónsdóttur framkvæmdastýru Handverkshátíðarinnar að Hrafnagili, Landsamtök sauðfjárbænda, Ístex hf. og Glófa ehf. Ber þessi gífurlega þátttaka vott um mikinn áhuga á íslensku ullinni sem efnivið í hönnun og þann sköpunarkraft sem virðist kraumar undir þeirri kreppu sem ríkir í samfélaginu.

Hópur hönnuða, arkitekta og fagurkera valdi, úr innsendum tillögum, 30 verk sem sett verða upp á sérstakri sýningu á Handverkshátíðinni að Hrafnagili sem stendur yfir dagana 7. til 10. ágúst. Þar á meðal eru þau tíu verk, fimm í flokki fatnaðar og fimm í opnum flokki, sem dómnefnd samkeppninnar hefur tilnefnt til úrslita. Dómnefndina skipa: Védís Jónsdóttir frá Ístex, Logi A. Guðjónsson frá Glófa ehf., Birgir Arason frá Félagi sauðfjárbænda í Eyjafirði, Sveina Björk Jóhannesdóttir textílhönnuður og Jenný Karlsdóttir útgefandi Munsturs og menningar.

Tilnefningar dómnefndar eru:

Opinn flokkur
Bauja – Elísabet Jónsdóttir og Olga Hrafnsdóttir, Holland
Tröllaskór - Jóhanna Sveinsdóttir, Selfoss
Verk án titils - Svala Norðdahl, Reykjavík
„Þúfur“ spiladósir - Margrét Guðnadóttir og Sigurbjörg Sigurðardóttir, Reykjavík
Hjólahnakkar - Sigurlína Jónsdóttir, Akureyri

Flíkur
Slá - Halla Einarsdóttir, Akureyri
„Fugl“ peysa - Ástþrúður Sif Sveinsdóttir, Reykjavík
Kragi - Álfheiður Björg Egilsdóttir, Hafnafjörður
Vesti og húfa - Vilborg María Ástráðsdóttir, Selfoss
Vattarsaumuð herðaslá - Sigríður Lilja Ragnarsdóttir, Egilsstaðir

Þær tillögur sem bárust keppninni voru alls staðar af landinu, bæði frá þekktum listamönnum og hönnuðum og einnig fólki sem ekki hefur leyft öðrum að njóta hæfileika sinna hingað til. Í því samhengi má nefna að á sýningu keppninnar mun gefa að líta Heklukríli Sigrúnar Eldjárn og spiladósir Margrétar Guðnadóttur og Sigurbjargar Sigurðardóttur ásamt vattarsaumaðri herðaslá, prjónuðum hlífum á reiðhjólahnakka, gólfpullunni Bauju og svo mætti lengi telja.