Upphaf framkvæmda við Hólavatn


holavatn_120 Föstudaginn 17. apríl var undirritaður verksamningur á milli sumarbúðanna á Hólavatni og Loftorku um framleiðslu á forsteyptum einingum fyrir nýjan skála sem rísa mun á Hólavatni.

Heildarverðmæti samningsins er um 10 milljónir króna og því ljóst að stórt skref er stigið í áttina að nýrri byggingu. Verkáætlun gerir ráð fyrir því að grunnur verði tekinn nú um næstu  mánaðarmót og áður en sumarstarf hefst verður neðri hæð hússins reist. Eftir að sumarstarfi lýkur verður svo haldið áfram og stefnt er að því að loka húsinu fyrir veturinn.

KFUM og KFUK á Akureyri hefur starfrækt sumarbúðir að Hólavatni frá árinu 1965 og um nokkurt skeið hafa forsvarsmenn starfsins látið sig dreyma um stærri og betri aðstöðu. Aukin aðsókn síðustu ára og velvilji einstaklinga og fyrirtækja hefur aukið mönnum kjark og á síðastliðnu hausti var fyrsta skóflustungan tekin og í vetur hefur hönnunarvinna og leyfisveitingaferli staðið yfir. Skráning fyrir sumarið hefur farið vel af stað og þegar hafa tæplega 100 börn skráð sig til þátttöku í dvalarflokkum sumarsins en allar frekari upplýsingar um sumarið má finna á vef félagsins á www.kfum.is .

Þeir sem vilja styrkja við nýbyggingaframkvæmdir er bent á söfnunarreikning 0565-26-30525, kt. 510178-1659, skýring: nýbygging.