Við elskum þig FRANZ!

Tónleikar 6. maí í Laugarborg,
tónleikar hefjast kl. 15.00
Miðaverð kr. 2.000,-
Flytjendur: Sigurður Flosason, saxofónn & Kjartan Valdimarsson, píanó
Efnisskrá: Sönglög eftir Franz Schubert á saxofón og píanó
Sönglög Schuberts og tveir jazztónlsitarmenn er kannski ekki samsetning sem mörgum finnst augljós. Þegar betur er að gáð kemur hinsvegar í ljós á hin rómantísku lög Schuberts innihalda allt sem spunamaður getur óskað sé í efnivið; þau eru hlaðin tilfinningum, hádramatísk og stútfull af áhugaverðum hljómrænum ferlum. Hér er þó síst af öllu meiningin að "jazza" Schubert með swingi og gangandi bassa. Nei, hugmyndin er að láta lögin njóta síns, oft í nær upprunalegu formi og spinna út frá þeim á sem fjölbreytilegastan máta; stundum byggt á stemmningu lagsins, stundum á titli og texta og stundum á hljómagrind. Þetta er hvorki klassík né jazz heldur tveir tónlistarmenn með fjölbreyttan bakgrunn að takast á við klassískan efnivið á nýjan hátt. Lögin eru valin úr hópi þekktustu stakra laga meistaranas. Langur aðdragandi er að þessu verkefni Kjartans og Sigurðar, en þeir hafa unnið saman með hléum í mörgum og mjög ólíkum verkefnum undanfarin 20 ár. Dagskráin verður frumflutt í Laugarborg sunnudaginn 6. maí kl. 15.

Sigurður Flosason (1964) hefur um árabil verið í hópi atkvæðamestu jazztónlistarmanna Íslands. Hann hefur leikið inn á fjölda geisladiska bæði með eigin tónsmíðum og annarra, hér á landi og erlendis. Sigurður lauk einleikarprófi frá Tónlistarskólanum í Rvk. árið 1983. Hann stundaði framhaldsnám í Bandaríkjunum. Lauk Bachelorsprófi frá Indiana University í klassískum saxófónleik og jazzfræðum 1986 og Mastersprófi í sömu greinum 1988. Einkanám hjá George Coleman í New York veturinn 1988-89.
Sigurður hefur sent frá sér fimm geisladiska í eigin nafni. Auk þess hefur hann gert fimm dúódiska, þrjá með Gunnar Gunnarsson organista, einn með Jóel Pálssyni saxófónleikara, einn með Pétri Grétarssyni slagverksleikara. Sigurður hefur þrisvar hlotið íslensku tónlistarverðlaunin og tvívegis verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Hann hlaut 1. verðlaun í bandarísku Hoagy Carmichael tónsmíðasamkeppninni 1987. Hann hefur verið yfirkennari jazzdeildar Tónlistarskóla F.Í.H. frá 1989.

Kjartan Valdemarsson (1967) nam píanóleik við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar, Tónlistarskóla FIH áður en hann hélt til Bandaríkjanna, en hann stundaði nám við Berklee College of Music 1986-1989. Auk þess að leika jazztónlist með öllum sem nöfnum tjáir að nefna í íslensku jazzlífi hefur Kjartan spilað mikið af popptónlist, m.a. með hljómsveitinni Todmobile. Hann hefur starfað í leikhúsum og unnið mikið í hljóðverum, bæði sem hljómborðsleikari og upptökustjóri. Kjartan er einnig eftirsóttur útsetjari, en hann hefur gert mikið af útsetningum, m.a. fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og Stórsveit Reykjavíkur. Hann hefur einnig gert tónlist fyrir sjónvarp, m.a. yrir Spaugstofuna og Áramótaskaupið. Þá lék Kjartan um tíma með einni af fremstu stórsveitum Svíþjóðar; Norbotten Big Band.
Kjartan hefur kennt og annast undirleik við Tónlistarskóla FIH, auk þess að starfa sem undirleikari við Listdansskóla Íslands. Kjartan er afkastamikið tónskáld og nýverið frumflutti Stórsveit Reykjavíkur heila dagskrá verka Kjartans undir yfirskriftinni Riff-rildi.