Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Fréttir

"Minningardagurinn 2025

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa.

Í ár verður m.a. haldin minningarathöfn kl. 14:00 við þyrlupallinn við Landspítalann í Fossvogi en auk þess munu einingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og fleiri viðbragðsaðilar standa fyrir táknrænum athöfnum víða um land. Öll eru velkomin.

Minningardagurinn í ár er sunnudaginn 16. nóvember.

Auk þess að vera minningardagur hefur hér á landi skapst sú venja að tileinka daginn umfjöllun og forvörnum tiltekins áhættuþáttar sem valdið hefur banaslysum. Nú í ár er það notkun eins mikilvægasta öryggisbúnaðar bifreiða - öryggisbelta. Öryggisbelti minnka líkur á dauðsfalli í fólksbílum um allt að 45%. Koma hefði mátt í veg fyrir fjölda banaslysa og alvarlegra slysa ef öryggisbelti hefðu verið notuð.

Að baki minningardeginum standa Samgöngustofa, innviðaráðuneytið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan, Vegagerðin og ÖBÍ réttindasamtök."

Fréttin er tekin héðan https://island.is/s/samgongustofa/minningardagur og lesa má nánar um viðburði sem verða þennan dag víða um land.