Ársreikningur Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2024 var tekinn til síðari umræðu í dag 22. maí og samþykktur samhljóða. Fyrri umræða fór fram 8. maí 2025. Rekstur sveitarfélagsins á árinu 2024 gekk áfram vel og fjárhagsleg staða þess er sterk. Sveitarstjórn leggur áherslu á að halda áfram að tryggja stöðugleika í rekstri og ábyrga fjármálastjórn til að skapa traustan grundvöll undir áframhaldandi uppbyggingu í sveitarfélaginu.
Á árinu 2024 námu rekstrartekjur sveitarfélagsins, A- og B-hluta, 1.798,5 milljónum króna, sem er umtalsverð aukning frá fyrra ári. Rekstrargjöld voru 1.547 milljónir og rekstrarniðurstaða var jákvæð um 231,6 milljónir króna. Launakostnaður var 882,7 milljónir króna og var hlutfall launa og launatengdra gjalda af tekjum 52,0%. Annar rekstrarkostnaður var 664,2 milljónir króna sem er hækkun um 174,1 milljón króna frá fyrra ára. Þrátt fyrir aukinn kostnað hefur tekjuaukning verið næg til að tryggja áframhaldandi jákvæða afkomu og góða lausafjárstöðu. Veltufé frá rekstri var 276 milljónir eða 15,3% af tekjum og handbært fé í árslok nam 199 milljónum króna.
Stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins var til fræðslumála, en útgjöld vegna þessa málaflokks námu 894,6 milljónum króna eða 55,1% af skatttekjum ársins. Það endurspeglar áframhaldandi áherslu á öflugt skólastarf og þjónustu við börn og fjölskyldur í sveitarfélaginu.
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam samtals 1.966 milljónum króna og langtímaskuldir A-hluta eru engar. Langtímaskuldir B-hluta námu 65,1 milljón króna og eru eingöngu tilkomnar vegna leiguíbúða. Skuldaviðmið sveitarfélagsins er því samkvæmt reglugerð Sambands íslenskra sveitarfélaga 0% en lögbundið hámark er 150%.
Sveitarfélagið er í sterkri fjárhagslegri stöðu og vel í stakk búið til að takast á við þau stóru verkefni sem eru nú þegar hafin. Þau fela meðal annars í sér byggingu nýs leikskóla, viðbyggingu við Hrafnagilsskóla og stækkun íþróttamiðstöðvarinnar. Þetta eru mikilvæg framtíðarverkefni sem miða að því að mæta þörfum íbúa sveitarfélagsins og styðja áfram við fjölgun og vöxt í samfélaginu.
Sveitarstjórn lýsir ánægju sinni með góða niðurstöðu ársreikningsins og þakkar starfsfólki sveitarfélagsins og stjórnendum fyrir gott starf á árinu sem leið.