Fagráð í hrossarækt valdi alls 12 hrossaræktarbú til árlegrar heiðursviðurkenningar Bændasamtaka Íslands, sem ræktunarbú ársins og var Hrafnagilsbúið eitt af þessum 12 sem tilnefnd voru. Upphaflega stóð valið á milli 56 búa sem náðu athyglisverðum árangri á árinu.
Á Hrafnagili búa hjónin Jón Elvar Hjörleifsson og Berglind Kristinsdóttir. Í um 20 ár hefur Jón Elvar ræktað hross kennd við Hrafnagil. Hvað varðar ræktunarmarkið hefur Jóni Elvari ekki vafist tunga um tönn (frekar en oft áður) þegar hann tíundaði þau í viðtali við Eiðfaxa 21. mars 2021:
„Ég legg mesta áherslu á fótaburð og fas, háar herðar og gott geðslag. Ég þoli yfirleitt ekki 4wd skriðdrekahross. Þau eiga að setjast á rassinn. Annars er þetta allt gott í bland. Flestar mínar hryssur eru alhliða þó ég noti oftast klárhesta. Annars er ég að reyna að halda í gamla stofninn hér á Hrafnagili sem Hjalti Jósefsson og Pálína áttu."
Skemmst er frá því að segja að um síðastliðna helgi, á hinni árlegu hrossaræktarráðstefnu fagráðs hrossabænda, Bændasamtaka Íslands, tók Jón Elvar á móti viðurkenningu fyrir tilnefninguna og auk þess við verðlaunum, f.h. Árna Björns Pálssonar, afreksknapa, fyrir hæstu aðaleinkunn klárhrossa 2025, en þau verðlaun hlaut hann fyrir glæsilegan árangur með stóðhestinn Miðil frá Hrafnagili sem náði 9,12 í aðaleinkunn, án skeiðs. Stóðhesturinn Miðill frá Hrafnagili er aðeins 5 vetra og er þetta afburðaárangur hjá ekki eldri gæðingi. Miðill er kominn í eigu Önju Egger-Meier en verður áfram í höndum Árna Björns. Jón Elvar er þó ekki af baki dottinn og hefur þegar dreymt fyrir framhaldinu:
“Mig dreymdi nú nýlega fyrir jörpum faxmiklum gæðingi sem ég reikna með að fá næsta sumar undan Miðli og sá verður arftaki hans, ég hef nú þegar ákveðið að hann muni heita Draumur. Það er svo undarlegt með mig að mig dreymir fyrir hinu og þessu og tek oft ákvarðanir mínar byggðar á hindurvitnum og sýnum. Meðan ég geri það áfram mun ég rækta fleiri og betri gæðinga.”
Óskum við Jóni Elvari og og Berglindi, á Hrafnagili, innilega til hamingju með árangurinn og óskum þeim alls hins besta með áframhaldandi hrossarækt.

Myndin er úr grein Eiðfaxa 7. mars 2025.
Nokkur skemmtileg og áhugaverð viðtöl hafa verið tekin við bóndann á Hrafnagili um ræktun, í gegnum árin og eru hér nokkur þeirra sem vitnað var beint og óbeint í, í þessari umfjöllun:
"Tólf bú tilnefnd sem ræktunarbú ársins 2025." Eiðfaxi, 15. október 2025.
"Varasamt að rækta einungis eftir tölum á blaði." Eiðfaxi, 26. desember 2022.
"Jón á Hrafnagili fækkar hrossum." rosberg.is, 19. apríl 2018.
"Reyni að halda í gamla stofninn." Eiðfaxi, 21. mars 2021.
"Mig er nú þegar búið að dreyma fyrir næsta gæðingi." Eiðfaxi, 7. mars 2025.
Myndin af Jóni Elvari er fengin af facebookfærslu Berglindar Kristinsdóttur, 9. nóvember 2025.