Finnastaðir var líka tilnefnt sem ræktunarbú ársins 2025

Fréttir

Eins og áður hefur komið fram valdi fagráð í hrossarækt alls 12 hrossaræktarbú til árlegrar heiðursviðurkenningar Bændasamtaka Íslands, sem ræktunarbú ársins og var hrossarækt á Finnastöðum eitt af þessum 12 og annað þeirra úr Eyjafjarðarsveit, sem tilnefnd voru. Upphaflega stóð valið á milli 56 búa sem náðu athyglisverðum árangri á árinu.

Á Finnastöðum eru hjónin Björgvin Daði Sverrisson og Helena Ketilsdóttir með sína flottu og mögnuðu hrossarækt. 

Í ár var til að mynda 6 vetra stóðhesturinn Fenrir frá Finnastöðum efstur á vorsýningu á Hellu með 8,86 í aðaleinkunn og hlaut hæstu hæfileikaeinkunn ársins á Íslandi í ár eða 9,04, einnig má geta þess að hann fékk m.a. 9,5 fyrir tölt, samstarfsvilja og fegurð í reið og 9,0 fyrir brokk, stökk, fet og hægt tölt. 

Áttu heiðursverðlaunahryssur 2022 og 2025
Af mörgu öðru er að taka og er vert að minnast á glæsilegan árangur hryssunnar Hrannar frá Búlandi, sem var í fjórða sæti heiðursverðlaunahryssa á Íslandi, eftir að hið alþjóðlega kynbótamat fyrir íslenska hestinn var reiknað eftir alla dóma ársins í lok október 2022 og birt í WorldFeng. Alls hlutu 20 hryssur á Íslandi heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. 

"Hryssan í fjórða sæti er Hrönn frá Búlandi. Hún er undan Smára frá Skagaströnd og Heklu frá Efri-Rauðalæk. Ræktandi hennar er Björgvin Daði Sverrisson og eigendur eru Björgvin Daði Sverrisson og Helena Ketilsdóttir. Hrönn er með 121 stig í kynbótamati fyrir aðal- einkunn en hún á 13 afkvæmi og hafa 5 þeirra hlotið kynbótadóm."

Dóttir Hrannar, Aþena frá Akureyri, var svo fjórða hæsta hryssan núna árið 2025, úr hópi 12 hryssna:

"Fjórða hryssan er Aþena frá Akureyri með 120 stig og fimm dæmd afkvæmi. Aþena er jörp, undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum og Smáradótturinni Hrönn frá Búlandi. Ræktendur og eigendur hennar eru þau Björgvin Daði Sverrisson og Helena Ketilsdóttir. Aþena er fríð og framfalleg hryssa, jafnvíg á gangi, mýktar hross. Hæst dæmda afkvæmi hennar er stórgæðingurinn Fenrir frá Finnastöðum, undan Þráni frá Flagbjarnarholti. Hann hlaut í vor 9.04 fyrir hæfileika sem er jafnframt hæsta hæfileikaeinkunn ársins. Þá er Fjöður frá Finnastöðum undan Stekk frá Skák með 8,72 fyrir hæfileika; þar af 9,0 fyrir tölt og 8,5 fyrir skeið og 9,5 fyrir samstarfsvilja."


Að lokum má geta frábærs árangurs Björgvins Daða þar sem hann sigraði í 1. flokki í einstaklingskeppni á lokamóti í G-Hjálmarsso deildinni þar sem hann tók þátt í öllum greinum á einungis tveimur heimaræktuðum hestum.

Óskum við Björgvini Daða og Helenu, með Finnastaðir Hrossarækt, innilega til hamingju með árangurinn og óskum þeim alls hins besta með áframhaldandi hrossarækt.


Myndin er úr grein Eiðfaxa 20. júní 2025.

 


Myndin er af facebooksíðu Finnastaðir Hrossarækt.

 

Nokkrar athyglisverðar greinar um frábæran árangur Finnastaðir Hrossarækt, sem vitnað var beint og óbeint í, í þessari umfjöllun:

Facebooksíða Finnastaðir Hrossarækt / horse breeding

 "Tólf bú tilnefnd sem ræktunarbú ársins 2025." Eiðfaxi, 15. október 2025.
"Fenrir efstur sex vetra stóðhesta." Eiðfaxi. 24. október 2025.
"Fenrir frá Finnastöðum efstur á Hellu." Eiðfaxi, 21. júní 2025.
"Björgvin Daði og Svanur sigurvegarar í G-Hjálmarsson deildinni." Eiðfaxi, 16. maí 2021.
"Fenrir frá Finnastöum hlaut yfir 9,00 fyrir hæfileika." 20. júní 2025.
"Hryssur sem hlutu heiðursverðlaun haustið 2022." Bændablaðið, 15. febrúar 2023.
"Heiðursverðlaunahryssur á Íslandi 2025." Bændablaðið 4. nóvember 2025.