Sveitarstjórn tók þann 4. desember til síðari umræðu fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2026 og 2027 til 2029. Áfram er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu bæði í A-hluta og samstæðu, með 342 m.kr. afgangi í A-hluta og 423 m.kr. afgangi á samstæðu. Rekstrartekjur samstæðu eru áætlaðar 2.205 m.kr., eða 20,8% hækkun frá útkomuspá 2025. En áfram er gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu til ársins 2029.
Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að útsvarsprósenta haldist óbreytt í 14,97% og fasteignaskattur í A-flokki lækki í 0,35% en haldist óbreyttur í B og C flokki. Tekjuviðmið vegna afsláttar af fasteignagjöldum til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega hækkar um 4%.
Útsvarshlutfall óbreytt 14,97%.
Fasteignaskattur, A stofn 0,35% lækkar úr 0,39%
Fasteignaskattur, B stofn 1,32% samkv. lögum (óbreytt)
Fasteignaskattur, C stofn 1,40% (óbreytt)
Holræsagjald 0,1 % (óbreytt)
Lóðarleiga 0,75% (óbreytt)
Vatnsskattur er samkvæmt gjaldskrá Norðurorku.
Sorphirðugjöld, rotþróargjald og gjald fyrir dýraleifar hækka um 4% til að mæta hækkandi kostnaði við úrgangsmál, en önnur gjaldskrá hækki að jafnaði um 2,5%. Leikskólagjöld munu hins vegar hækka í byrjun september í samræmi við þróun vísitölu, líkt og verið hefur. Þá verði íþrótta- og tómstundastyrkur barna hækkaður í 60.000 kr. og lýðheilsustyrkur eldri borgara hækkaður í 18.000 kr.
Áætlað er að framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði 792 m.kr. og að aðrar rekstrartekjur verði 326 m.kr. Hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) er áætlaður 493 m.kr. árið 2026 sem samsvarar 21% af rekstrartekjum. Í sjóðstreymi er veltufé frá rekstri áætlað 389 m.kr. sem samsvarar 17% framlegð.
Fjárfestingaráætlun ársins 2026 gerir ráð fyrir heildarfjárfestingu að fjárhæð 617 m.kr. Stærsta verkefnið er áframhaldandi uppbygging á Hrafnagilsskóla og íþróttamiðstöð ásamt vinnu við gatnakerfi Hrafnagilsshverfis. Fjárfestingum verður mætt með lántöku, allt að 400 m.kr., sölu eigna og rekstrarafgangi samstæðunnar. En áætlað er að heildareignir samstæðu Eyjafjarðarsveitar standi í 3,5 ma.kr. undir lok næsta árs.
Áætlunin gerir ráð fyrir því að skuldaviðmið Eyjafjarðarsveitar skv. reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga nr. 502/2012 standa í um 20,3% í árslok 2026 og verða vel innan lögbundinna marka sem er 150%. Auk þess stefnir sveitarfélagið á að skuldahlutfallið verði 0% í lok árs 2029.
Rétt er að vekja athygli á óvissuþætti í fjárhagsáætluninni sem tengist fyrirhugaðri sölu eigna sveitarfélagsins. Til stendur að selja Skólatröð 13 ásamt tveimur sumarhúsum sem nýttir voru við gamla leikskólann og er enn stefnt að sölu Laugalandsskóla. Tekjur af þessum sölum eru ekki tryggar fyrr en kaupsamningar hafa gengið eftir og gæti frávik í söluverði eða tímasetningu haft áhrif á fjárhagsstöðu ársins.
Sveitarstjórn þakkar nefndum og starfsmönnum fyrir gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunar og sendir þeim öllum, fjölskyldum þeirra svo og öðrum íbúum sveitarfélagsins bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.