Íþróttavika Evrópu 23. – 30. september 2025 í Eyjafjarðarsveit

Fréttir

Íþróttavika Evrópu er haldin núna í 10 skiptið og er Eyjafjarðarsveit virkur þátttakandi í verkefninu í ár eins og undanfarin ár.

Íþróttavikan er haldin víðsvegar um álfuna í september ár hvert. Markmið hennar er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir almenningi í Evrópu og er hún ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi.

Einstaklingum og félagasamtökum sem bjóða upp á hreyfi- og vellíðunarúrræði er boðið að skipuleggja viðburð í íþróttavikunni og hafa íbúar Eyjafjarðarsveitar brugðist vel við eins og áður.

Ungmennafélagið Samherjar er með fyrirferðarmikla dagskrá í íþróttavikunni og býður upp á fjölda opinna æfinga í ýmsum íþróttagreinum fyrir alla aldurshópa. Sérstök athygli er vakin á íþróttatímum 60+ en þar er boðið upp á kynningar í Boccia, styrktaræfingum, vatnsleikfimi og Ringo.

Eyjafjarðarsveit er þekkt fyrir öfluga og vandaða jógastarfsemi og mun ýmislegt verða í boði fyrir almenning á því sviðinu hjá þremur jógakennurum. M.a. verður boðið upp á Gong-slökun í sundlauginni og verður aðeins bætt í hitann af því tilefni.

Skógræktarfélag Eyjafjarðar hefur nýverið tekið í notkun nýtt bílastæði við Garðsárreit og munu þau taka á móti fólki og opna reitinn sem er afar fallegur og með stórfenglegt útsýni yfir glúfur Garðsárinnar.

Erla Guðmundsdóttir heilsumarkþjálfi, ráðgjafi, kennari og íþróttafræðingur mun halda fyrirlestra fyrir unglinga í félagsmiðstöðinni og eldri borgara og almenning í Félagsborg. Erla heldur úti vefsíðunni heilsuerla.is og vinsælu hlaðvarpi sem heitir Með lífið í lúkunum.

Stærsta nýjungin þetta árið er svo kallað „virkniþing“ þar sem þeir sem bjóða upp á hreyfi- og vellíðunarúrræði í sveitarfélaginu kynna sína dagskrá í íþróttahúsinu laugardaginn 27. september kl. 11 – 14. Í anda verkefnisins Bjartur lífsstíll, verður kynning á Pokakasti og Boccia og verður gestum boðið að taka þátt. Þá ætla kvenfélögin að sameinast um kaffi- og vöfflusölu til fjáröflunar, Lionsklúbburinn Sif verður með kynningarbás og þetta verður því sannarlega kynning bæði á andlegri og líkamlegri næringu.

Virkniþingið verður nánar auglýst strax eftir helgina.

Það er fullt í boði í sveitinni okkar og ástæða til að lyfta því upp og vekja athygli á. Við vonumst til að íbúar taki íþróttavikunni fagnandi og kynni sér það sem er í boði í hreyfi- og vellíðunarúrræðum án allra skuldbindinga eða kröfu um líkamlegt- eða andlegt atgervi.