Tryggvi Jóhann Heimisson hlýtur viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsmat í skólaíþróttum

Fréttir

Tryggvi íþróttakennari við Hrafnagilsskóla hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi beitingu námsmats í skólaíþróttum þann 28. maí síðastliðinn. Viðurkenningin er veitt af Íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík sem vill með henni varpa ljósi á áhrifaríkar og hvetjandi aðferðir við kennslu í skólaíþróttum. Í ár var óskað eftir umsóknum og tilnefningum sem lýsa framúrskarandi notkun námsmats og voru íþróttakennarar heiðraðir sem hafa nýtt námsmat á árangursríkan og hvetjandi hátt fyrir nemendur í skólaíþróttum og þannig skapað jákvætt námsumhverfi í faginu.

Áherslan á námsmat fellur vel að nýuppfærðum hæfniviðmiðum í skólaíþróttum í aðalnámsskránni. Námsmat er einn af hornsteinum vandaðrar kennslu og útfærsla þess tengir saman markmið fagsins við þær aðferðir sem notaðar eru til kennslunnar. Mikilvægt er að umsækjendur sýni fram á tengingu hæfniviðmiða, lykilhæfni og matsviðmiða Aðalnámskrár grunnskóla við námsmatið sjálft.

Við óskum Tryggva Jóhanni innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og þökkum honum fyrir áralangt faglegt starf og metnað.

Frétt og mynd tekin af heimasíðu Hrafnagilsskóla.