Auglýsingablað 1284. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 8. apríl 2025.

Sveitarstjórnarfundur
653. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 10. apríl og hefst hann kl. 8:00. Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.

Lausar stöður í Hrafnagilsskóla Eyjafjarðarsveit
Hrafnagilsskóli er grunnskóli í dreifbýli um 12 km fyrir innan Akureyri og eru um 180 nemendur í skólanum. Hrafnagilsskóli hefur sýn sem byggir á skilningi, fagmennsku og dyggðum. Agastefna skólans er Jákvæður agi og meðal einkenna skólans er umhverfismennt, öflug list- og verkgreinakennsla ásamt nýtingu tækni til náms. Heimasíða Hrafnagilsskóla er www.krummi.is.
Óskað er í eftirfarandi stöður frá og með 1. ágúst 2025:
Kennari í heimilisfræði í 80% starf.
Afleysingastaða - íþróttakennari í 60% hlutastarf.
Starfsfólk í frístund - vinnutími milli kl. 14:00-16:00 og einhverja daga frá kl. 12:00.
Skólaliði í 75% starf.
Sjá nánari upplýsingar um störfin á heimasíðum Hrafnagilsskóla og Eyjafjarðarsveitar.

Bókasafnið fer í páskafrí
Síðasti opnunardagur safnsins fyrir páska er föstudagurinn 11. apríl. Þá er opið frá kl. 14:00-16:00.
Opnum aftur eftir páska þriðjudaginn 22. apríl.
Minnum annars á opnunartíma safnsins:
Þriðjudagar frá 14:00-17:00.
Miðvikudagar frá 14:00-17:00.
Fimmtudagar frá 14:00-18:00.
Föstudagar frá 14:00-16:00
Best er að ganga um dyr að austan (kjallari íþróttahúss) eða um sundlaugarinngang.
Aðalfundur Búnaðarfélags Saurbæjarhrepps
Aðalfundur Búnaðarfélags Saurbæjarhrepps verður haldinn mánudaginn 14. apríl í Steinhólum kl 13:00. Hefðbundin aðalfundarstörf.
Stjórnin.

Helgiganga á vegum Dalbjargar á föstudaginn langa
Lagt verður af stað gangandi frá Dalborg kl. 10:00 og gengið á bökkunum inn að Munkaþverárkirkju (4,5 km. önnur leið ). Fyrir þau sem kjósa heldur að ganga hálfa leið verður farið keyrandi frá Dalborg kl. 11:00 að kirkjunni og gengið til baka.
Í Munkaþverárkirkju er helgistund kl. 11:30–12:00. Organisti er Þorvaldur Örn Davíðsson og Kirkjukór Grundarsóknar syngur. Prestur Jóhanna Gísladóttir.
Er stundinni í kirkjunni lýkur er gengið til baka í Dalborg þar sem boðið verður upp á vöfflukaffi og kassaklifur fyrir börn kl. 13:00–14:00.
Frjáls framlög í styrktarsjóð Dalbjargar.

Liðka - styrkja - slaka: Það er hægt að mæta í mjúka og rólega jógatíma í Hjartað í Hrafnagilsskóla kl. 17:00-18:15 á eftirtöldum dögum: 10., 15. og 24. apríl og 1. og 8. maí. Það þarf ekki að skrá sig á heilt námskeið, hægt að mæta í staka tíma. Skráning á netfanginu ingileif@bjarkir.net. Ingileif Ástvaldsdóttir, jógakennari í Litlu jógastofunni https://www.facebook.com/litlayogastofan

Hátíðarmessa á páskadag í Grundarkirkju kl. 11:00
Kirkjukór Grundarsóknar syngur undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar organista og kórstjóra. Meðhjálpari Hjörtur Haraldsson og prestur Jóhanna Gísladóttir.
Verið öll hjartanlega velkomin til kirkju á páskum.
Aðalsafnaðarfundur Grundarsóknar
Verið velkomin á aðalsafnaðarfund Grundarsóknar sem haldinn verður í Sólgarði þriðjudagskvöldið 22. apríl kl. 20:00.
Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Tilvalið tækifæri til hafa áhrif á kirkjustarfið í sveitinni okkar.

Jæja Eyjafjörður - við erum að koma
Við Hreimsmenn ætlum að koma til ykkar í fjörðinn fagra föstudaginn 11. apríl, nánar tiltekið í Laugarborg, Hrafnagili. Við ætlum að flytja fyrir ykkur tónleika í tilefni af 50 ára afmæli kórsins. Á efnisskránni verða hefðbundin karlakórslög, dægurlög og klassík.
Húsið opnar kl. 19:30 og tónleikarnir hefjast kl. 20:00.
Hlökkum til að sjá ykkur.

Land míns föður í Freyvangsleikhúsinu – síðustu lausu sætin 11. apríl 2025
Land míns föður er söngleikur um stríðsárin í Reykjavík, hernámið og það sem því fylgdi. Hvaða áhrif hafði hernámið á íslendinga, einstaklinga og þjóðlífið í heild? Athyglin beinist að unga parinu Báru og Sæla og fólkinu í kringum þau. Þau eru að hefja búskap þegar stríðið skellur á. Sæli kýs að fara frekar á sjóinn en í Bretavinnuna, en Bára og móðir hennar opna þvottahús sem þjónar hernum. Bára kynnist breskum liðsforingja og í fjarveru Sæla fella þau hugi saman. Ýmislegt gengur á áður en yfir lýkur og hlökkum við til að ferðast með ykkur aftur í tímann.
Miðasala á tix.is og í síma 857-5598.