Auglýsingablað 1285. tbl. 16. árg. þriðjudaginn 15. apríl 2025.

Lausar stöður í Hrafnagilsskóla Eyjafjarðarsveit
Hrafnagilsskóli er grunnskóli í dreifbýli um 12 km fyrir innan Akureyri og eru um 180 nemendur í skólanum. Hrafnagilsskóli hefur sýn sem byggir á skilningi, fagmennsku og dyggðum. Agastefna skólans er Jákvæður agi og meðal einkenna skólans er umhverfismennt, öflug list- og verkgreinakennsla ásamt nýtingu tækni til náms. Heimasíða Hrafnagilsskóla er www.krummi.is.
Óskað er í eftirfarandi stöður frá og með 1. ágúst 2025:
Kennari í heimilisfræði í 80% starf.
Afleysingastaða - íþróttakennari í 60% hlutastarf.
Starfsfólk í frístund - vinnutími milli kl. 14:00-16:00 og einhverja daga frá kl. 12:00.
Skólaliði í 75% starf.
Umsóknarfrestur er til og með 25. apríl 2025.
Sjá nánari upplýsingar um störfin á heimasíðum Hrafnagilsskóla og Eyjafjarðarsveitar.

Helgiganga á vegum Dalbjargar á föstudaginn langa
Lagt verður af stað gangandi frá Dalborg kl. 10:00 og gengið á bökkunum inn að Munkaþverárkirkju (4,5 km. önnur leið ). Fyrir þau sem kjósa heldur að ganga hálfa leið verður farið keyrandi frá Dalborg kl. 11:00 að kirkjunni og gengið til baka.
Í Munkaþverárkirkju er helgistund kl. 11:30–12:00. Organisti er Þorvaldur Örn Davíðsson og Kirkjukór Grundarsóknar syngur. Prestur Jóhanna Gísladóttir.
Er stundinni í kirkjunni lýkur er gengið til baka í Dalborg þar sem boðið verður upp á vöfflukaffi og kassaklifur fyrir börn kl. 13:00–14:00.
Frjáls framlög í styrktarsjóð Dalbjargar.

Hátíðarmessur á páskadag í Grundarkirkju og Kaupangskirkju
Tvær hátíðarmessur fara fram í sveitinni á páskadag.
Hátíðarmessa í Grundarkirkju kl. 11:00
Kirkjukór Grundarsóknar syngur undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar organista. Meðhjálpari Hjörtur Haraldsson og prestur Jóhanna Gísladóttir.
Hátíðarmessa í Kaupangskirkju kl. 13:30
Söngfélagar við Kaupangskirkju syngja undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur organista. Meðhjálpari er Hansína María Haraldsdóttir og prestur Jóhanna Gísladóttir.
Verið öll hjartanlega velkomin!
Aðalsafnaðarfundur Grundarsóknar
Verið velkomin á aðalsafnaðarfund Grundarsóknar sem haldinn verður í Sólgarði þriðjudagskvöldið 22. apríl kl. 20:00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Tilvalið tækifæri til hafa áhrif á kirkjustarfið í sveitinni okkar.

Liðka - styrkja - slaka: Það er hægt að mæta í mjúka og rólega jógatíma í Hjartað í Hrafnagilsskóla kl. 17:00-18:15 á eftirtöldum dögum: 10., 15. og 24. apríl og 1. og 8. maí. Það þarf ekki að skrá sig á heilt námskeið, hægt að mæta í staka tíma. Skráning á netfanginu ingileif@bjarkir.net. Ingileif Ástvaldsdóttir, jógakennari í Litlu jógastofunni https://www.facebook.com/litlayogastofan

Velkomin á aðalfund Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar 29. apríl kl. 20:00 á Brúnum.
Hefðbundin aðalfundarstörf en að auki fjögur spennandi örerindi frá:
- Sigurði Steingrímssyni um Búvélasafn Eyjafjarðar.
- Níelsi Ómarssyni um torfbæinn á Hólum - sem þarf að bjarga!
- Kjartani Sigurðssyni um stækkun Skógarbaðanna.
- Fulltrúa Markaðsstofu Norðurlands um ávinning þess að vera félagi í samtökunum.
Léttar veitingar! Nýir félagar velkomnir - alltaf gaman að hittast og láta sig dreyma.
Stjórnin.

Aðalfundarboð Veiðifélags Eyjafjarðarár.
Stjórn Veiðifélags Eyjafjarðarár starfar í samræmi við lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og á grundvelli samþykkta félagsins. Í 9. gr. samþykkta félagsins er kveðið á um hvaða mál skal taka fyrir á aðalfundi:
- Skýrsla stjórnar fyrir reikningsárið 1/10 2023–30/9 2024.
- Reikningar félagsins fyrir reikningsárið 1/10 2023–30/9 2024.
- Rekstraáætlun fyrir næsta rekstrarár.
- Kosning stjórnar og skoðunarmanna.
- Pollurinn veiðistjórnun og fyrirhugað veiðibann.
- Önnur mál.
Í samræmi við hlutverk okkar sem stjórnar Veiðifélags Eyjafjarðarár, samanber ofanritað, þá boðum við til aðalfundar í Veiðifélagi Eyjafjarðarár að Ytra-Gili Eyjafjarðarsveit 30. apríl 2025 klukkan 20:00.
