Fréttatilkynning frá söfnunum við Eyjafjörð

Fréttatilkynning frá söfnunum við Eyjafjörð

Safnadagurinn 2009  er afrakstur öflugs samstarfs safnafólks við Eyjafjörð styrkt af Akureyrarstofu, Sérleyfisbílum Akureyrar, Saga Capital og Norðurorku.

Auglýsing safnanna við Eyjafjörð

Eyfirskur safnadagur – fjölbreyttur, forvitnilegur og fróðlegur

Hvorki meira né minna en 19 söfn og sýningar við Eyjafjörð opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi laugardaginn 2. maí frá kl 11-17. Tilefnið er Eyfirski safnadagurinn sem nú er haldinn í þriðja sinn. Markmiðið með þessum degi er að vekja athygli á þeirri fjölbreyttu og áhugaverðu safnaflóru sem Eyjafjörður hefur upp á að bjóða. Söfnin munu þennan dag kynna starfsemi sína með einum eða öðrum hætti. Flugmódel, flíkur, sögumenn, söngvar, síldarsmakk, skór, skemmtanir, siglingar, skrínur, skoðunarferðir, söngvar, verkalýður, viðundur, veitingar, vaðmál, gjörningar, glerplötur, gull, krásir, kveðlingar, kenjar, kaffi, myndir, múnderingar og rósaleppar eru aðeins sýnishorn af því sem hægt verður að sjá, heyra upplifa og njóta á eyfirska safnadeginum. Sögulegar rútuferðir þar sem sagnahefðinni er gert hátt undir höfði fara með þá sem vilja á söfnin við Eyjafjörð. Það er því tilvalið að hoppa uppí rútu og njóta þess að láta fólk segja sér sögur og kynnast bæði landslaginu og söfnunum við Eyjafjörð með öðrum hætti en áður. Safnastrætó keyrir á milli safnanna á Akureyri og í för verður fólk sem ausa mun úr viskubrunni sínum um það sem fyrir augu ber á leiðinni. Það er frítt í rúturnar,  safnastrætóinn og í ferjuna til Hríseyjar. Það er því tilvalið að skilja bílinn eftir heima, njóta þess að heyra sögur og upplifa með öllum skilningarvitum söfnin við Eyjafjörð þennan skemmtilega dag. Áhugasömum er bent á vefsíðuna www.sofn.is þar sem finna má nánari upplýsingar um það sem um er að vera þennan dag og brottfarartíma rútna og strætó.

Söfnin og sýningar í Eyjafirði eru fjölbreyttar, fróðlegar og forvitnilegar – kíktu í heimsókn!

Eftirfarandi söfn verða opin frá 11-17 og aðgangur er ókeypis: Amtsbókasafnið, Davíðshús, Flugsafn Íslands, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Listasafnið á Akureyri, Leikmunasafn Íslands – Laxdalshúsi, Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Sigurhæðir, Byggðasafnið Hvoll á Dalvík, Gamli bærinn Laufás, Holt – hús Öldu Halldórsdóttur í Hrísey, Húni II,  Hús Hákarla-Jörundar í Hrísey, Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar, Safnasafnið á Svalbarðsströnd, Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði, Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit og Þjóðlagasetrið  á Siglufirði.