Framkvæmdaleyfi

Samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þó þarf ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.

Öll efnistaka á landi, úr ám, vötnum og af eða úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skal gefið út til tiltekins tíma þar sem gerð er grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.

Sá sem óskar framkvæmdaleyfis skal senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skal kveða á um í reglugerð.

Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir. Sveitarstjórn er heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins.

Þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Að auki skal sveitarstjórn leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila áður en tekin er afstaða til útgáfu framkvæmdaleyfis.

Umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn er heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála leiki vafi á því hvort framkvæmdir eru háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi. Ráðherra kveður nánar á um útgáfu framkvæmdaleyfa í reglugerð.

Sé sótt um framkvæmdaleyfi á svæði sem er innan einnar sjómílu frá netlögum skal leyfisveitandi leita umsagnar viðeigandi sveitarfélaga áður en leyfið er veitt.

Þrátt fyrir ákvæði um framkvæmdaleyfisskyldu, er eiganda eða umráðamanni eignarlands þó heimil minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða jarðmyndanir og vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999.

Þetta þýðir að sækja þarf um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar fyrir allri efnistöku annarri en til einkanota á viðkomandi eignarlandi. Þar með eru taldar eldri námur, sem ekki eru með gilt framkvæmdaleyfi. Jafnframt er bent á það að efnistökusvæði skal ekki standa ónotað og ófrágengið lengur en þrjú ár.

Þrátt fyrir ákvæðið um efnistöku til einkanota þá má enginn framkvæma neitt í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, án leyfis Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Nýtt aðalskipulag um efnistökusvæði í Eyjafjarðarsveit tók gildi í janúar 2019 og eru íbúar hvattir til að kynna sér það með því að smella hér.

Þá tók ný gjaldskrá um framkvæmdaleyfisgjald og gjald fyrir skipulagsvinnu gildi 7. maí 2012 og má sjá hana með því að smella hér.

Eyðublöð til að sækja um framkvæmdaleyfi má fylla út með því að smella hér.

Rafræna umsókn má fylla út á netinu hér. 

Síðast uppfært 13. september 2021
Getum við bætt efni síðunnar?