Auglýsingablaðið

637. TBL 18. júlí 2012 kl. 16:07 - 16:07 Eldri-fundur

Efnistaka er framkvæmdaleyfisskyld
Vakin er athygli á því að frá og með seinustu mánaðamótum er öll efnistaka framkvæmda-leyfisskyld, en eiganda eða umráðamanni eignarlands er þó heimil minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða jarðmyndanir og vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999.
þetta þýðir að sækja þarf um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar fyrir allri efnistöku annarri en til einkanota á viðkomandi eignarlandi. þar með eru taldar eldri námur, sem ekki eru með gilt framkvæmdaleyfi. Jafnframt er bent á það að efnistökusvæði skal ekki standa ónotað og ófrágengið lengur en þrjú ár.
þrátt fyrir ákvæðið um efnistöku til einkanota þá má enginn framkvæma neitt í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, án leyfis Fiskistofu.
Nýtt aðalskipulag um efnistökusvæði í Eyjafjarðarsveit tók gildi 25. ágúst 2011 og eru íbúar hvattir til að kynna sér það með því að smella hér.
Sveitarstjóri


Gangnadagar
ákveðið hefur verið að 1. göngur verði 1. og 2. sept. frá Fiskilæk að Möðruvallafjalli, en 8. og 9. sept. annars staðar í sveitarfélaginu. Norðan Fiskilækjar verður þó smalað um leið og heimalönd í Fnjóskadal. Aðrar göngur verði hálfum mánuði síðar. Hrossasmölun verði 12. október og hrossaréttir 13. október.
Fjallskilanefnd


Timbur- og járngámar
Timbur- og járngámar eru staðsettir við Rifkelsstaði og Litla-Garð til mánudagsins 24. júlí n.k. og verða þá fluttir að Vatnsenda og þverá.
Skrifstofa Eyjafjarðarsveitar.


Kálfateyming á Handverkshátíð
Nú er komið að því að skrá keppendur til leiks í kálfasýningu FUBN á Handverkshátíð sem verður sunnudaginn 12. ágúst næstkomandi klukkan 13:00. Keppt verður í flokknum 14 ára og yngri um fallegasta kálfinn, best tamda kálfinn og svo að lokum fær sá kálfur sem flottastur er fyrir alla eiginleika titilinn Gullkálfurinn 2012.
Hægt er að skrá keppendur í tölvupósti á netfanginu nem.saramaria@lbhi.is eða í síma 846-9024. Eftirfarandi upplýsingar þurfa að fylgja við skráningu:
Fullt nafn keppanda og heimilisfang, nafn, númer og ætterni kálfs (nöfn á föður og móður).
Við hvetjum alla til að skrá sig og minnum á að það er ekki of seint að byrja að temja núna.
Stjórn FUBN


óska eftir íbúð!
óska eftir þriggja herbergja íbúð í haust, helst í Hrafnagilshverfi eða í næsta nágrenni. Vinsamlega hafið samband í síma 864-3887, Inga Lóa.


Liðléttingur til sölu
Til sölu er vel með farinn liðléttingur af gerðinni Weidermann 1230 árgerð  2006, lítið notaður (200 klst.). Tilboð óskast.
Páll Ingvarsson Reykhúsum Sími: 463-1127 og 661-7627 Netfang: pall_reyk@nett.is


Sumardagur á sveitamarkaði
-alla sunnudaga í sumar frá 15. júlí til 19. ágúst
Markaðurinn er opinn öllum sem vilja taka þátt í að skapa skemmtilegan markaðsdag og koma varningi sínum á framfæri. Varningurinn sem boðinn er skal vera heimaunninn og/eða falla vel að umhverfinu þ.e. gróðrinum og sveitalífinu.
Markaðurinn er á torgi Gömlu Garðyrkjustöðvarinnar v/Jólagarðinn og opnar kl. 11. áhugasamir söluaðilar hafi samband við markaðsstjórn í síma 857-3700 (Margrét) eða sendi tölvupóst á sveitamarkadur@live.com
Fimmgangur


Veitingasala á Handverkshátíð.
Nú er Handverkshátíðin á næsta leiti með tilheyrandi veitingasölu á vegum Umf. Samherja og Hjálparsveitarinnar Dalbjargar. Veitingasalan er okkar allra stærsta fjáröflun og því afar mikilvægt að vel takist til. Eins og áður verður fjármagninu varið til að halda úti fjölbreyttu og öflugu íþróttastarfi.
 í mörg horn er að líta og verkefnin æði misjöfn bæði fyrir hátíðina og yfir hátíðina. Nú þegar er búið að steikja stóra stafla af soðnu brauði og kleinum. Gekk það afar hratt og vel fyrir sig og sannaðist þar að margar hendur vinna létt verk. Auk vinnuframlags, eða í stað þess, er hægt að styrkja starf þessara félaga með því að baka skúffukökur eða gulrótarkökur fyrir veitingasöluna eða leggja til hráefni.
Manna þarf fyrri- og seinniparts vaktir í eldhúsi, veitingasölu og ýmis önnur verkefni. Einnig í grill og veitingasölu á kvöldvökunni á laugardagskvöldinu.
þörf er á allri aðstoð sem mögulegt er að fá og eru allir, ungir sem aldnir, hvattir til að leggja sitt af mörkum. þið sem viljið vera með og taka þátt í skemmtilegu starfi í kringum Handverkshátíðina vinsamlegast hafið samband við Indu 897-6098 eða Sigga 862-2181, umf.samherjar@gmail.com.
Með sumarkveðjum, stjórn Samherja.


Bakkareið
Allar lindir eyðast nú
ekki rignir dropa
vona samt hin káta kú
kaldan gefi sopa
svo áin streymi endalaust
eins og dæmin sanna
vetur sumar vor og haust
vot af syndum manna.
Föstudagskvöld 27. júlí, nánar auglýst síðar.


æskulýðsdagar á Melgerðismelum 20.–22. júlí
Fjörið hefst á föstudeginum 20. júlí kl. 20 með ratleik. Dagskrá laugardagsins 21. júlí er fjölbreytt. þrautabraut kl. 11, reiðtúr kl. 14, grillveisla kl. 19 og varðeldur kl. 21.
Við ljúkum æskulýðsdögum á sunnudeginum 22. júlí með öðruvísi keppni kl. 11.
# Heitt á könnunni fyrir aðstandendur.
# ókeypis hagagjald fyrir hesta…
Hestamannafélagið Funi


Handverkshátíð og Landbúnaðarsýning 10. - 13. ágúst 2012
Stjórn Handverkshátíðar  og Landbúnaðarsýningar þakkar enn og aftur þeim fjölmörgu sem lagt hafa vinnu í að skreyta póstkassa sína. Skreytingarnar hafa vakið mikla athygli og beint augum fólks  að sveitinni okkar  og  hátíðinni sem við nú vinnum að í góðri samvinnu við félagasamtök  í sveitinni.   
þá vill stjórn sýningarinnar  hvetja alla til að mæta á sýninguna og njóta þess sem þar verður í boði.  óhætt er að fullyrða að aldrei hefur verið lagt eins mikið í sýninguna.   Sýningarsvæðið verður mun stærra en verið hefur og  þar ættu allir að finna eitthvað áhugavert.  

á landbúnaðarhluta sýningarinnar verða vélaumboð, afurðarsalar og fjölmargir aðrir sem þjónusta landbúnað.
Landskeppnin „Ungbóndi ársins“ verður haldin á laugardeginum.
Sýndur verður rúningur.
Hestasýningar verða á föstudaginn  og mánudaginn.
Kálfasýning og keppni verður á föstudeginum.
Einnig verður hægt að skoða  kýr, kálfa, kindur, hesta, geitur, svín og fl.

á handverkshátíðinni  verður  fjölbreytt  handverk og glæsileg hönnun fólks alls staðar að af landinu. Tískusýningar verða í tengslum við sýninguna.
Lagt er upp úr glæsilegri sýningu og að allir  njóti góðra veitinga,  fjölbreyttra tónlistaratriða og þeirrar stemmingar sem ávallt ríkir á handverkshátið.

á laugardagskvöldinu verður kvöldvaka sem hefst kl. 19:30 með grillhlaðborði. það kostar kr. 2.900.- krónur fyrir manninn í grillið og fólk er hvatt til að mæta tímalega. Veitingasalan er rekin af UMF Samherjum og Hjálparsveitinni Dalbjörgu og með því að kaupa veitingar styrkjum við áður nefnd félög.
Meðan á grillhlaðborðinu stendur verður flutt notaleg dinnertónlist í tjaldinu. Skemmtidagskráin byrjar kl. 20:30, og er aðgangur ókeypis.
Mikið verður lagt í skemmtidagskrána á kvöldvökunni. Tjaldið verður helmingi stærra en áður hefur verið og dagskráin verður mjög fjölbreytt.
Veislustjórar verða Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir.
Meðal þess sem verður á dagskránni er: Galgopar, Hannes og Sara Blandon, þjóðlagatríó, auk þess sem unga fólkið í sveitinni leggur hátíðinni lið með tónlistarflutningi bæði á kvöldvökunni svo og alla sýningardagana.

Dagskráin  verður auglýst nánar síðar.

Getum við bætt efni síðunnar?