Auglýsingablaðið

801. TBL 29. september 2015 kl. 08:32 - 08:32 Eldri-fundur


Fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar
Fundur sveitarstjórnar verður haldinn miðvikudaginn 30. september kl. 15:00 í
fundarstofu sveitarstjórnar, Skólatröð 9.


Dansskóli Elínar
Síðustu innritunardagar
Kennsla í samkvæmisdönsum hefst fimmtudaginn 24. september. Kenni alla helstu og vinsælustu dansana eins og tjútt, cha cha, samba, jive, vals, tangó, gömlu dansana og ýmislegt annað skemmtilegt. Byrjenda og framhaldsnámskeið fyrir þá sem voru síðastliðinn vetur eða þá sem hafa verið áður og langar að taka fram dansskóna á ný. Alltaf gaman að rifja upp sporin og stunda heilsusamlega hreifingu sem dansinn klárlega er.
Nánari upplýsingar og innritun er í s. 891-6276 (eftir kl. 16:00)
Danskveðjur - Elín Halldórsdóttir


Hundahald
Vegna athugasemda sem borist hafa skrifstofu Eyjafjarðarsveitar um lausa hunda er vert að minna á að lausaganga hunda er óheimil í Eyjafjarðarsveit skv. samþykkt nr. 391/2004. Þar segir m.a.:
Eigandi eða umráðamaður skulu gæta þess vel að hundurinn valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði né raski ró manna. Hundur skal aldrei ganga laus á almannafæri, nema í fylgd með manni sem hefur fulla stjórn á honum. Eigandi er ábyrgur fyrir því tjóni sem hundur hans sannanlega veldur. Ef hundur veldur nágrönnum eða öðrum ónæði, óþrifum eða tjóni, þá er skylt að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.
Skrifstofustjóri


Lagning ljósleiðara
Þessar vikurnar er verið að leggja ljósleiðara frá Lauglandi til suðurs að Stekkjarflötum. Í framhaldi af því að stofnstrengur fer í jörðu munu starfsmenn Tengis setja sig í samband við ábúendur vegna lagninga heimtauga. Eigendur frístundahúsa eru beðnir um að hafa samband við Tengi hafi þeir hug á að fá tengingu.
Tengir hf.


Hrossasmölun og hrossaréttir 2015
Hrossasmölun verður föstudaginn 2. október og hrossaréttir laugardaginn 3. október sem hér segir:
Þverárrétt kl. 10:00
Melgerðismelarétt kl. 13:00
Gangnaseðlar verða sendir þeim sem lagt er á og einnig birtir á netinu.
Fjallskilanefnd

Bókasafn Eyjafjarðarsveitar
Hannyrðastundir verða á bókasafninu á fimmtudögum í vetur frá kl. 16:00.
Allir eru hjartanlega velkomnir, bæði með handavinnu og án, það getur verið ágætt að koma bara og spjalla og líta í nýjustu tímaritin eða fá bækur að láni.

Opnunartími safnsins er: Alla virka daga kl. 10:30-12:30 og þar að auki:
Mánudaga kl. 13:00-16:00
Þriðjudaga kl. 16:00-19:00
Miðvikudaga kl. 16:00-19:00
Fimmtudaga kl. 16:00-19:00


Gæsaveiðar í Eyjafjarðarsveit
Nú þegar gæsaveiðitímabilið er hafið er ástæða til að vekja máls á mikilvægi þess að ganga um náttúruna af virðingu og hafa skynsemi að leiðarljósi við skotveiðarnar. Sérstaklega ber að nefna mikilvægi þess að gera allt til þess að fanga særða fugla sem oft hrekjast langar leiðir áður en þeir gefast upp.
Dýravernd er mál alls samfélagsins og full ástæða til að brýna annars vegar landeigendur sem heimila skotveiði í sínum löndum sem og veiðimennina sjálfa til að umgangast þessa auðlind svo sómi sé að þar sem saman fer skynsamleg nýting veiðistofna og ábyrg umgengni við náttúruna. Meðferð skotvopna á þéttbýlum svæðum krefst þess að fyllsta öryggis sé gætt sem og tillitssemi vegna hávaða sem veiðunum óhjákvæmilega fylgir.
Sveitarstjóri


Frá Félagi aldraðra í Eyjafirði
Vetrarstarfið hefst þriðjudaginn 29. september kl. 13:00 í Félagsborg. Þá ákveðum við hvað við ætlum að gera í vetur.
Þuríður Schiöth sér um kaffiveitingar að venju, Anna Rappich annast hreyfingu (leikfimi) og Anna Þórsdóttir hjálpar okkur í handverkinu.
Mætum svo öll hress og endurnærð eftir sumarið.
Allir 60 ára og eldri eru velkomnir.
Stjórnin

Getum við bætt efni síðunnar?