Auglýsingablaðið

836. TBL 26. maí 2016 kl. 10:55 - 10:55 Eldri-fundur

Vinnuskólinn - umsóknarfrestur til 30. maí
Eyjafjarðarsveit býður unglingum fæddum 2000, 2001 og 2002 vinnu við umhverfisverkefni á komandi sumri. Starfið hefst 7. júní. Umsækjendur þurfa að skila inn umsóknum fyrir 30. maí á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar eða á netfangið esveit@esveit.is. Í umsókninni þarf að koma fram nafn og kennitala umsækjanda, nafn forráðamanns og sími. Sveitarstjórn ákvað á fundi sínum 18. maí s.l. að hækka laun i vinnuskólanum um 50%. Markmiðið er að efla starf og fræðslu fyrir unglinga sem eru að stíga sín fyrstu spor á vinnumarkaði. Reglur um vinnuskólann ásamt upplýsingum um laun er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins.

Frá ferðanefnd Félags aldraðra í Eyjafirði
Sumarferð félagsins verður farin dagana 6.-8. júní 2016. Gist verður á Gauksmýri í V.- Hún. í tvær nætur en dagarnir þrír notaðir til að skoða markverða staði í Húnavatnssýslum. Áætlaður kostnaður á mann er 47.000 kr. og er innifalin gisting, matur og kaffi alla dagana.
Þátttaka tilkynnist til Reynis í s. 862-2164, Jófríðar í s. 846-5128 eða Ólafs í
s. 894-3230 í síðasta lagi 30. maí og veita þau nánari upplýsingar um ferðina. Þátttökugjald leggist inn á reikning í Arion banka nr. 0302-26-1038,
kt. 251041-4079.
Ferðanefndin

Leiguhúsnæði óskast
Óskum eftir 4-5 herbergja íbúð/húsi til leigu sem fyrst, verður að leyfa dýrahald þar sem við erum með smáhunda. Við erum tvær fullorðnar mæðgur ásamt fullorðnum syni annarrar okkar. Öruggar greiðslur, góð umgengni og reglusemi. Upplýsingar í síma: 8653849 Linda.

Tún til leigu
Til leigu, tæpir 6 hektara tún í Samkomugerði I. Upplýsingar hjá Þorsteini í síma 859-9509 - 463130

Leiguhúsnæði óskast
Einstæð móðir með 10 ára barn í Hrafnagilsskóla og rólegan hund óskar efti húsnæði í sveitinni.
sími: 867-4351 Inga

Jól í 20 ár - Pönnukökugarðveisla
Um leið og við þökkum nágrönnum okkar og íbúum Eyjafjarðarsveitar öllum fyrir
að umbera þessa eilífu jólahátíð, sem um þessar mundir hefur staðið í 7300 daga,
langar okkur að bjóða ykkur í pönnukökuveislu í Jólagarðinumá sjálfan
afmælisdaginn þriðjudaginn 31. maí frá kl. 14-18
Hlökkum til að sjá ykkur!

Sláttuvél óskast
Óska eftir handsláttuvél, ekki vélknúinni, má hafa reynslu. Sími 4627034.

Land Rover til sölu
Til sölu er Land Rover Defender árgerð 2005, aldeilis gott eintak, ekinn 249.000 km. Sumardekk 32", negld vetrardekk á upprunalegum felgum 31" geta fylgt. Webasto miðstöð og toppgrind. Tilvalinn í allt almennt sveitasnatt, fjallaferðir eða bíltúr með stórfjölskylduna. Verð 3.300.000.
Upplýsingar í síma 4627034 og 8462864.


Vorferð - sigling með Húna II
Kæru konur í kvenfélaginu Öldunni/Voröld. Sunnudaginn 5. júní verður boðið upp á siglingu með Húna II um Pollinn og eitthvert út með firði. Brottför verður frá Torfunesbryggjunni kl. 19.00. Nesti verður í boði auk sjóveikispillna sem og eitthvað til að væta kverkarnar með.
Vonumst til að sjá sem flestar konur koma með á siglingu um Eyjafjörð. Konur sem hafa áhuga á að ganga í félagið eru ávallt velkomnar.
Bestu kveðjur frá Nefndinni.
Halla, Guðrún og Þóra.

Hreyfivika UMFÍ
Nú er gengin í garð fjórða árið í röð Hreyfivika UMFÍ. Í tilefni af henni eru í boði um allt land alls kyns viðburðir tengdir hreyfingu.
Eftirfarandi viðburðir eru í boði í Eyjafjarðarsveit:
• Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar mun bjóða frítt í líkamsræktina dagana 24.-29. maí.
• Blakkonur í Ungmennafélaginu Samherjum bjóða öllum konum að koma í blaktíma þri. 24. maí kl. 18.00-19.30 og föstudaginn 27. maí kl. 19.00-20.30.
• Sveitaþrek skorar á sveitarstjórn og aðra sveitunga að mæta í sveitaþrek fimmtudaginn 26.maí kl. 06.05. Mæting sunnan við sundlaug og á eftir er gott að skella sér í pottinn.
• Hrafnagilsskóli heldur Unicefdaginn hátíðlegan 25. maí þar sem börnin taka þátt í alls kyns þrautum.
• Í sundlauginni er svo sundkeppni milli sundstaða á landinu og eru sundgestir hvattir til að skrá niður í afgreiðslu sundlaugar synta metra.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest á hreyfingu í Hreyfiviku UMFÍ

Kvennahlaupið 2016
Kvennahlaupið fer fram laugardaginn 4. júní kl. 11.00.Upphitun hefst stundvíslega kl. 10.30 fyrir framan Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar. Í boði verður að hlaupa 2,5 og 5 km. Hlaupið verður á yfir 100 stöðum hérlendis og erlendis. Hreyfing er lykillinn að góðri heilsu og nærir líkama og sál. Við hvetjum því allar konur til að mæta í Kvennahlaupið og njóta þess að hreyfa sig, hver á sínum hraða og forsendum. Skráning í hlaupið hefst í Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar mánudaginn 30. maí næst komandi.Verð á bolunum er 2.000 kr. fyrir 13 ára og eldri, en 1.000 kr. fyrir 12 ára og yngri.
Vonumst til að sem flestar konur taki daginn frá og hlaupi með okkur.

Sumarlokun bókasafn
Þá er sumarið vonandi á næsta leiti og því fylgir að bókasafnið lokar þar til í ágúst. Safnið er opið eins og venjulega þar til í næstu viku:
• Mánudag kl. 10:30-12:30 og 13:00-16:00
• Þriðjudag kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
• Miðvikudag kl.10:30-12:30 og 16:00-19:00
• Fimmtudag kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
• Föstudag kl. 10:30-12:30
Þriðjudagurinn 31. maí er jafnframt síðasti opnunardagur á þessu vori.
Gott væri að minna skólabörnin á að skila því sem þau eru með af safninu.
Ég vil þakka öllum þeim sem nýttu sér safnið í vetur. Vonandi verða enn fleiri næsta vetur sem koma í heimsókn og nota sér það sem hér er í boði.
Með sumarkveðju
Margrét bókavörður.


Framhaldsskólaakstur næsta skólaár
Nemendur MA og VMA sem hafa hug á að nýta sér akstur á vegum sveitarfélagsins næsta skólaár, ef í boði verður, eru beðnir um að hafa samband á skrifstofu sveitarfélagsins á netfangið esveit@esveit.is eða í s. 463-0600 fyrir 10.júní. Hér er aðeins um könnun að ræða vegna áætlanagerðar.
Starfsfólk skrifstofu

Fjósbitar til sölu
Hef til sölu nokkra fjósbita, stærð 110x325 cm. Upplýsingar í síma 894-6946 Ben

Brýning til kattaeigenda
Sveitarfélaginu hefur borist brýning frá íbúa um að minna á 11. gr. samþykktar um hunda- og kattahald: Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum takmarka útiveru katta.

Skólaslit Tónlistarskóla Eyjafjarðar
Skólaslit Tónlistarskóla Eyjafjarðar verða í Aldísarlundi ef veður leyfir annars í Laugaborg þriðjudaginn 31. maí kl. 17:00.
Kakó og kaffi.
Afhending prófskírteina og umsagna verður að loknum skólaslitum.
Innritun líkur föstudaginn. 27 maí.
Skólastjóri.

Veðurstofan leitar eftir upplýsingum um söguleg flóð í Eyjafjarðará
Veðurstofan er að vinna að hættumati á Eyjafjarðará. Hluti af því verkefni er að safna öllum tiltækum upplýsingum um söguleg flóð í Eyjafjarðará og þverám hennar. Veðurstofan telur afar mikilvægt að yfirstandandi gagnasöfnun byggist eins og kostur er á upplýsingum sem aflað var á vettvangi og af því fólki sem kunnugt er staðháttum. Hún vildi því leita eftir öllum tiltækum upplýsingum varðandi fyrri flóð á ofangreindum vatnasviðum þ.m.t. staðsetningu þeirra, umfang og það tjón sem þau ollu. Varðandi tjón er einnig átt við truflun á rekstri innviða svo sem: veitukerfa, samskiptakerfa og samgöngukerfa.
Allar upplýsingar eru vel þegnar sama á hvaða formi sem þær eru svo sem ljósmyndir, myndskeið, kort, samtímafrásagnir, gagnagrunnsfærslur, dagbókarfærslur o.s.frv.
Þeir sem hafa slíkar upplýsingar eru hvattir til þess að senda okkur þær eða benda á hvar þær er að finna. Netfangið er vatnsflodasaga@vedur.is Þá má hringja í Veðurstofuna og biðja um Davíð Egilson, sem veitir nánari upplýsingar. Það myndi koma verkefninu mjög vel að fá þessar upplýsingar sem fyrst og helst innan fjögurra vikna ef þess er nokkur kostur.

Malbikun í Hrafnagilshverfi
Ágætu íbúar, á næstu vikum verður malbikað í Hrafnagilshverfi þannig að tæki og tól verða á staðnum. Fyrir þá sem hafa hug á að láta malbika hjá sér er tilvalið að hafa samband við Kraftfag ehf í síma 896-5332.

Getum við bætt efni síðunnar?