Auglýsingablaðið

847. TBL 16. ágúst 2016 kl. 08:45 - 08:45 Eldri-fundur

Frá skrifstofu Eyjafjarðarsveitar
Ágætu íbúar Eyjafjarðarsveitar.
Þá er að baki 24. Handverkshátíðin sem að þessu sinni var einnig Landbúnaðarsýning.
Handverkssýningin var eins og oft áður hin glæsilegasta og vel að henni staðið. Þá var Landbúnaðarsýningin afar glæsileg og skemmtilegt bæði fyrir lærða og leika að bera saman gamla og nýja tímann.
Einn af hápunktum sýningarinnar var heimsókn forsetahjónanna, hr. Guðna Th. Jóhannessonar og frú Elizu Reid en ekki síður heimsókn góðra gesta til okkar á kvöldvökunni.
Það er aðdáunarvert að sjá hvernig sveitungar snúa bökum saman til þess að hátíðin geti orðið að veruleika. Gríðarmargar hendur þarf til að viðburðurinn geti orðið eins glæsilegur og veglegur líkt og hann var nú, eins og oft áður. Upp úr stendur hvernig kynslóðirnar vinna saman að verkefninu. Er á engan hallað þó dreginn sé fram þáttur krakkanna, sem voru áberandi á sýningarsvæðinu með starfsframlagi sínu og samfélaginu til sóma.
Öllum, jafnt einstaklingum, fyrirtækjum og félögum sem að hátíðinni koma, bæði beint og óbeint, á sjálfri sýningarhelginni - en ekki síður í aðdraganda hennar við undirbúning af öllu tagi í stóru og smáu - er þakkað örlæti og þeirra góða framlag. Samstaða íbúanna og vilji til að starfa saman að hátíðinni hefur gert hana að veruleika í 24. sinn. Til hamingju öll.
Sveitarstjóri

Kæru sveitungar
Að lokinni Handverkshátíð og Landbúnaðarsýningu 2016 langar okkur frænkum að koma á framfæri kæru þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg og tóku þátt í að gera glæsilegan viðburð enn glæsilegri. Án aðkomu sveitunganna væru hátíðin ekki eins og hún er og gaman að sjá hversu margir voru til í að taka þátt í ævintýrinum með okkur. Fulltrúum félaganna sem komu að starfinu með okkur færum við einnig hjartans þakkir fyrir frábært samstarf.
Með kærri kveðju
Kata og Guðný

Álagning fjallskila 2016
Þeir sem halda allt sauðfé og öll hross heima eru beðnir að tilkynna það til skrifstofu Eyjafjarðarsveitar í seinasta lagi mánudaginn 15. ágúst með tölvupósti á póstfangið esveit@esveit.is eða í síma 463-0600. Lagt verður á eftir forðagæsluskýrslum þeirra sem sleppa á afrétt. Þá verður lagt á eftirgjald í fjallskilasjóð kr. 60 fyrir hverja kind og hvert hross sömu aðila.
Fjallskilanefnd

Stjórn veiðifélags Eyjafjarðarár – Ath. í dag 11. ágúst!
-hefur ákveðið að landeigendur og börn þeirra geti veitt fyrir sínu landi dagana 11. ágúst og 15. september.
Um veiðireglur vísast í eyjafjardara.is

Gámar fyrir brotajárn og timbur
-verða staðsettir í Djúpadal á gatnamótum efst í Árgerðisbrekkunni til föstudagsins 26.08.2016.
Skrifstofa Eyjafjarðarsveitar

Kæru sveitungar.
Á einhver í fórum sínum heilleg leikföng sem ekki eru í notkun og viðkomandi er til í að gefa?
Senn hefst skólastarfið í Hrafnagilsskóla. Þá mæta kraftmiklir og kátir krakkar sem eru duglegir að leika sér. Þess vegna erum við að kanna hvort einhvers staðar liggi vel með farin leikföng sem vantar nýja ,,leikfélaga“. Við þiggjum alls konar leikföng t.d. dúkkur (bæði Barbie og venjulegar), dúkkurúm, dúkkuföt og fylgihluti, bíla, kubba, Playmo, Lego, bolta, útidót og margt, margt fleira.
Þeir sem eru í þessum sporum geta haft samband í Hrafnagilsskóla um netfangið nanna@krummi.is eða í síma 464-8100.
Bestu kveðjur úr Hrafnagilsskóla

Lúsafælan frá Volare Ekki er ráð nema í tíma sé tekið!
Memi krakkasjampóið inniheldur m.a. rósmarínkjarna sem fælir lúsina frá. Pantanir í síma 866-2796 eða á facebook; Hrönn Volare

Getum við bætt efni síðunnar?