Auglýsingablaðið

854. TBL 29. september 2016 kl. 09:39 - 09:39 Eldri-fundur

Sveitarstjórnarfundur
486. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í Félagsborg, Skólatröð 9, miðvikudaginn 5. október og hefst hann kl. 15:00. 
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Sveitarstjóri

Ágætu sveitungar
Messa verður í Hólakirkju sunnudaginn 2. október kl. 11:00.
Bestu kveðjur í sveitina. Sóknarprestur

Frá Félagi aldraðra í Eyjafirði
Nú hellum við okkur út í vetrarstarfið. Þriðjudaginn 4. október kemur Þóra Hjörleifsdóttir og kynnir okkur sitjandi joga.
Margrét bókavörður kemur með bækur, við förum í leikfimi hjá Önnu Rappich, njótum kaffiveitinga hjá Þuríði og Anna Þórsdóttir leiðbeinir í handverki.
Fimmtudaginn 6. október kemur Valdimar Gunnarsson og segir okkur frá för sinni til Kanada. þetta er sami tími eða frá kl. 13:00 -17:00 og sami staður; Félagsborg.
Hlökkum til að sjá sem flesta og kynnast starfinu hjá okkur.

Hrossasmölun og hrossaréttir 2016
Hrossasmölun verður föstudaginn 30. september og hrossaréttir laugardaginn 1. október sem hér segir:
Þverárrétt kl. 10:00
Melgerðismelarétt kl. 13:00
Gangnaseðlar verða sendir þeim sem lagt er á og einnig birtir á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.
Fjallskilanefnd

Stóðréttir á Melgerðismelum 1. okt.
Rekið inn kl. 13:00.
Funamenn sjá um veitingarnar svo enginn þarf að fara svangur heim.
Hestamannafélagið Funi

Stóðréttarball- Alvörusveitaball í Funaborg 1. okt.
Hljómsveit Geirmundar Valtýrssonar leikur fyrir dansi fram á nótt.
Húsið opnar kl. 22:00. Miðaverð kr. 2.500 - Sveitaböllin gerast ekki betri.
Hestamannafélagið Funi

Íþróttaskóli barnanna
Íþróttaskóli Umf. Samherja fyrir börn á aldrinum 2-5 ára byrjar laugardaginn 8. október. Um er að ræða sjö skipti kl. 9:15-10:00, þar sem sett verður upp þrautabraut og leikir en foreldrar taka virkan þátt og fylgja sínu barni eftir. Umsjón með íþróttaskólanum hefur Sonja Magnúsdóttir. Mikilvægt er að börnin komi í þægilegum fötum og gert er ráð fyrir að þau verði á tásunum.
Kostnaður er 3.000 kr. fyrir barn og er skráning á netfangið sonja@internet.is þar sem fram þarf að koma fullt nafn og kennitala barns og forráðamanns ásamt símanúmeri.
Frekari upplýsingar eru veittar í sama netfangi, sonja@internet.is
Sjáumst í íþróttahúsinu :)

Sundnámskeið
Umf. Samherjar bjóða upp á sundnámskeið fyrir 1. – 7. bekk á þriðjudögum og fimmtudögum í október, samtals 8 skipti. Kennari er Hafdís Sigurðardóttir
1.-3. bekkur: 14:15 – 15:00
4.-7. Bekkur: 15:10 – 15:55
Kostnaður er 3.000 kr. fyrir barn og skráningar eru á netfangið oskar@melgerdi.is þar sem fram þarf að koma fullt nafn og kennitala barns og forráðamanns ásamt símanúmeri.

Dansnámskeið :) Síðasti séns að skrá sig! Byrjar 29. sept.
Þá er að styttast í að dansnámskeið hefjist fyrir byrjendur. Kennt verður á fimmtudagskvöldum kl. 20:00 í Laugaborg. Þetta verða 8 skipti, við byrjum annað kvöld 29. september og klárum áður en aðventan byrjar. Nánari upplýsingar og innritun er í síma 891-6276 (á kvöldin). Munið að dansinn lengir lífið :)
Danskveðjur, Elín Halldórsdóttir danskennari

Snigill og flygill - Kímnilög í Laugarborg
Fimmtudagskvöldið 29. september kl. 20:00 flytja Michael Jón Clarke baritón og Daníel Þorsteinsson píanóleikari lög úr Bangsimon-lagaflokknum eftir H. Fraser-Simson og lagaflokkinn Snigill og flygill eftir Michael Jón Clarke.
Bangsimonlögin veita afar skemmtilega innsýn í heim drengsins Christophers Robin (Jakob á íslensku) og enskrar miðstéttarfjölskyldu um aldamótin 1900. Bangsinn hans, Winnie the Pooh, sem nefndur er Bangsimon á íslensku leikur þar stórt hlutverk.
Lagaflokkur Michaels J. Clarke við vel þekkt kímniljóð Þórarins Eldjárn draga á litríkan og oft spaugilegan hátt fram kímni og alvöru í ljóðum Þórarins.
Myndskreytingum Ernest Shepherds af Bangsimon og vinum hans og teikningum Sigrúnar Eldjárn verður varpað á tjald meðan á flutningi stendur en á milli laga mun Michael spjalla um eitt og annað sem tengist efnisskránni.
Tónleikarnir taka u.þ.b. klukkustund.
Aðgangseyrir er kr. 2.000, fyrir heldri borgara kr. 1.000 og frítt fyrir börn.

Gaia Gyðjuhof
Hjartanlega velkomnar í Gaia gyðjuhof á nýju tungli laugardaginn 1. október klukkan 20:00-22:00 í fallega salnum á Knarrarbergi.
Við munum anda okkur inn í andartakið og dansa og hreyfa okkur í takt við sál og líkama. Við finnum miðju okkar og jafnvægið í því að vera meðvituð og vakandi og í djúpri tengingu við sjálfar okkur og í tengingu við móður jörð og alheiminn. Við munum hugleiða, dansa, fara í góða slökun og njóta þess að vera saman í öruggu umhverfi og systralagi. Komið í þægilegum fatnaði. Kostnaður er 2.500 kr. fyrir kvöldið, te innifalið. Við komum saman á nýjum og fullum tunglum.
Skráning hjá Sollu í síma 857-6177 eða í gegnum facebook: Thora Solveig Bergsteinsdottir

Dagatal 2017 – kvenfélagið Iðunn
Hið margrómaða uppskriftadagatal kvenfélagsins Iðunnar er mikið þarfaþing og einnig tilvalin gjöf t.d. tækifæris-, afmælis- eða jólagjöf. Aðeins 2.200 kr./stk.
Umboðssala í Jólagarðinum, einnig er hægt að hafa samband við Hrönn í 866-2796 eða á facebooksíðunni Kvenfélagið Iðunn. Fyrri „ár“ fást á vægu verði.
Fjáröflunarnefnd Iðunnar

Haustfundur í héraði – kvenfélagið Iðunn
Fimmtudaginn 6. okt. kl. 20:00 verður haustfundur Iðunnar haldinn á Kaffi kú.
Nýjar félagskonur hjartanlega velkomnar.
Stjórnin

Getum við bætt efni síðunnar?