Auglýsingablaðið

859. TBL 03. nóvember 2016 kl. 13:39 - 13:39 Eldri-fundur

Auglýsingablaðið
Skila þarf inn auglýsingum fyrir kl. 10:00 á þriðjudögum á esveit@esveit.is eða í síma 463-0600. Næsta blað kemur út miðvikudaginn 9.11.16

Kæru sveitungar
Sunnudaginn 6. nóvember á messu allra heilagra er messa í Munkaþverárkirkju
kl. 20:30. Við biðjum fyrir sveitungum. Allir velkomnir.
Sóknarprestur

Reykskynjarayfirferð og Neyðarkallinn 2016
Hin árlega reykskynjarayfirferð Hjálparsveitarinnar Dalbjargar verður farin um helgina 3.-6. nóvember. Þetta verður með svipuðu sniði og undanfarin ár, en félagar Dalbjargar munu fara í öll hús í sveitinni og selja rafhlöður fyrir reykskynjara á kostnaðarverði. Auk þess verðum við með reykskynjara til sölu og veitum ráðgjöf um eldvarnir.
Við viljum minna á að ráðlagt er að skipta árlega um rafhlöður í reykskynjurum, sem og að skipta út gömlum búnaði, en reykskynjarar og önnur eldvarnatæki hafa einungis ákveðinn líftíma. Nú þegar jólin nálgast með jólaljósum og kertum er góður tími til að taka til hendinni í þessum málum.
Samhliða yfirferðinni munum við hafa Neyðarkallinn til sölu. Sala á honum er góð fjáröflun fyrir hjálparsveitina og því vonumst við eftir góðum móttökum eins og undanfarin ár.
Þeim sem ekki verða heima um helgina, en vilja samt nýta sér þessa þjónustu og kaupa rafhlöður, reykskynjara eða Neyðarkallinn, bendum við á að hafa samband við Sunnu í síma 669-7965.
Með von um góðar móttökur - eins og alltaf,
Hjálparsveitin Dalbjörg

Leiðalýsing 2016
Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi annast lýsingu leiða í kirkjugörðum í Eyjafjarðarsveit eins og undanfarin ár. Krossarnir verða settir upp fyrsta sunnudag í aðventu. Þeir sem hafa leigt krossa undanfarin ár þurfa aðeins að tilkynna ef þeir hyggjast hætta lýsingu, annars eru krossar settir á sömu leiði og í fyrra.
Gjald fyrir hvern kross er kr. 3.200. Panta skal leigu á nýjum krossum hjá Hirti í síma 894-0283 eða Stefáni í síma 864-6444.
Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi

Átt þú dót í norðurenda Kristnesspítala?
Slökkviliðið hefur gert athugasemdir við að engar brunavarnir eru í norðurenda byggingar Kristnesspítala. Þar sem engin starfsemi er í þessum hluta hússins er ekki ráðgert að fara út í uppsetningu brunakerfis og þess í stað þarf að tæma húsnæðið til að útiloka brunahættu.
Ef þú átt eitthvað dót þarna viltu þá vinsamlegast fjarlægja það fyrir 1. desember nk.. Eftir þann dag verður öllu dóti sem eftir er þarna inni hent og húsinu læst.
Sjúkrahúsið á Akureyri

Ungfolahólf Náttfara
Eigendur ungfola í ungfolahólfum Náttfara eru beðnir að ná í hesta sína nk. laugardag 5. nóv. kl. 13:00.
Stjórn Náttfara

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?