Auglýsingablaðið

862. TBL 23. nóvember 2016 kl. 14:16 - 14:16 Eldri-fundur

Aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar 2018-2030
Skipulags- og matslýsing
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti þann 26. október 2016 að auglýsa skipulags- og matslýsingu fyrir Aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Lýsingin mun liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins að Skólatröð 9 ásamt því að vera aðgengileg á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar á www.esveit.is.

Hverjum þeim sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er þannig gefinn kostur á að kynna sér lýsinguna og gera athugasemd við hana. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar að Skólatröð 9, 601 Akureyri, eða á netfangið esveit@esveit.is í síðasta lagi þann 21. desember 2016.

Sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar


Jólaföndur fyrir allan skólann!
Þriðja árið í röð verður sameiginlegt jólaföndur og jólakortagerð fyrir alla nemendur skólans, laugardaginn 26. nóvember kl. 11:00-14:00.
Nokkrar föndurstöðvar verða í kennslustofum yngsta og miðstigs. Fjölbreytt föndurefni verður selt á staðnum gegn vægu gjaldi (muna eftir klinkinu), karton í jólakortagerð verður líka selt á staðnum gegn vægu gjaldi, en gott er að grípa með sér skraut, skæri og lím.
Kaffi og heitt súkkulaði verður í boði foreldrafélagsins en smákökur og annað góðgæti er vel þegið að heiman.
Mætum sem flest og eigum notalega stund með börnunum og hverju öðru.
Jólakveðja frá bekkjarfulltrúum og stjórn foreldrafélagsins


Örmarkaður
Laugardaginn 26. nóvember, verð ég með vörurnar mínar til sölu frá kl. 12:00-17:00 í anddyri íþróttahússins á Hrafnagili.
Ýmislegt verður til sölu sem gæti passað vel í jólapakkann, afmælispakkann eða sem vöggugjöf. Er með ýmsan barnafatnað og dömukjóla sem ég sauma og skemmtileg tauleikföng og jólaskraut saumað af Göggu systur minni.
Einnig verð ég með kerti með ljósmyndum sem Geiri hefur tekið bæði af kirkjunum í Eyjafjarðarsveit og fleiru.
Posi á staðnum og kaffi á könnunni.
Hlakka til að sjá sem flesta, Kveðja Ásta í Brekkutröð


Jólamarkaður í Holtseli
Jólamarkaðurinn okkar í fyrra gekk framar öllum vonum og ætlum við því að endurtaka leikinn í ár.
Opnunartími verður kl. 12:00-20:00, laugardag og sunnudag 17. og 18. des.
Vilt þú taka þátt?
Ert þú að framleiða, selja, búa til, eða bara gera eitthvað sniðugt sem þig langar að deila með öðrum? Ef svo er langar okkur að heyra frá þér! Okkur langar einnig að heyra frá tónlistarfólki sem myndi vilja koma til okkar og halda uppi skemmtilegri jólastemmingu!
Upplýsingar í s: 861-2859; Guðmundur, eða á holtsel@holtsel.is

Hátíð í Laugarborg þann 1. des. klukkan 20:00
Nú er komið að hinum árlega viðburði í Laugarborg þegar við komum saman og fögnum 1. desember. Í ár ætla hin bráðskemmtilegu Vandræðaskáld að skemmta okkur en það eru þau Sesselía Ólafsdóttir, leikkona og leikstjóri, og Vilhjálmur B. Bragason, leikskáld og rithöfundur.
Kvenfélagið Iðunn sér um veitingar og verður hægt að fá kaffi eða djús ásamt einhverju góðgæti á 500 krónur. Ath. enginn posi er á staðnum.
Aðgangseyrir er 2000 kr.
Sjáumst hress,
Menningarmálanefnd

Getum við bætt efni síðunnar?