Auglýsingablaðið

883. TBL 24. apríl 2017 kl. 11:22 - 11:22 Eldri-fundur

Vinnuskólinn
Eyjafjarðarsveit býður unglingum fæddum 2001, 2002 og 2003 vinnu við umhverfisverkefni á komandi sumri. Starfið hefst 6. júní.
Umsækjendur þurfa að skila inn umsóknum fyrir 30. maí á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar eða á netfangið esveit@esveit.is. Í umsókninni þarf að koma fram nafn, kennitala og launareikningur umsækjanda, nafn forráðamanns og sími. 
Skrifstofan


Sumarferð félags eldri borgara verður 6.-9. júní n.k.
Fyrsta daginn ökum við um Laxárdalsheiði að Bifröst í Borgarfirði og þar verður gist í þrjár nætur. Þá skoðum við sveitirnar, til dæmis Húsafell, Reykholt, Hvanneyri og fleiri. Síðan Borgarnes og Akranes. Fararstjóri í Borgarfirði er Sveinn Hallgrímsson, þaulkunnugur heimamaður. Kostnaður áætlaður um 70.000 kr. á mann.
Nefndin


Gefjun og Ingibjörg – kvæðalög og ljóðalestur
Öngulsstöðum, Gamla bænum 27. apríl kl. 20.30
Kvæðamannafélagið Gefjun heiðrar Ingibjörgu Bjarnadóttur frá Gnúpufelli og kynnir ljóðabók hennar ,,Það sem Imba sagði" sem út kom 2016. Gefjunarfólk kveður margvíslega mergjaða texta, syngur ,,ófriðarsöngva" auk þess að lesa ljóð Ingibjargar. Kaffi og meðlæti fæst keypt.
Aðgangur er frír og allir hjartanlega velkomnir.


Kæru sveitungar og nágrannar
Fjallgirðingarmál eru nú á döfinni þetta vorið eins og stundum áður.
Mig langar að heita á mína granna nær og fjær að að taka höndum saman og leggja í nýja og samfellda fjallgirðingu a.m.k. norður á háls. Væri í því sambandi vel athugandi að fá til þess verktaka að taka verkefnið að sér. Hugsað til kynningar Friðriks og Sigurðar á fundi með fjallskilanefnd á dögunum, tel ég að ávinningur af verkinu sé í góðu samræmi við kostnað sem hljótast myndi af þeirri framkvæmd.
Því sendi ég þessa ósk mína og bæn til ykkar ágætu grannar með von um góðar undirtektir og vonast til að heyra frá ykkur.
Látum oss vinsamlegast fjallgirða.
Með sumar- og gleðikveðjum,
Hannes Blandon, sími 899 7737, hannes.blandon@kirkjan.is


Ullarsöfnun
Tekið verður á móti ull í Eyjafjarðarsveit þriðjudaginn 25. apríl frá kl. 10:00-12:00 á Melgerðismelum og á Svertingsstöðum frá kl. 13:00-14:30.
Ullin þarf að vera merkt, vigtuð og skráð áður en komið er með hana á staðinn. Athugið að þetta er síðasta ferð í ullarsöfnun.
Upplýsingar veita Rúnar Jóhannsson s. 847-6616 / Birgir í Gullbrekku s. 845-0029
 

Aðalfundur Fjarðarkorns ehf.
Aðalfundur Fjarðarkorns ehf. verður haldinn samhliða aðalfundi Kornræktarfélagsins Akurs á Lamb- inn þann 26. apríl nk. kl 20:00. Venjuleg aðalfundarstörf. Boðið verður upp á veitingar og fróðlegt erindi.
Stjórn Fjarðarkorns ehf.
 

Land til leigu úr jörðinni Melgerði
Eyjafjarðarsveit auglýsir land til leigu á Melgerðismelum. Landið er um 7,5 ha að stærð og verður leigt til 5 ára með skilmálum sem nánar verður kveðið á um í leigusamningi. Stykkið er flag og tekur leigutaki við því í núverandi ástandi. Áhugasamir skulu skila umsóknum fyrir 28.apríl nk. á netfangið esveit@esveit.is
 

Girðingarmál – fyrirtaks vorverk
Að eiga land er skemmtilegt. Því fylgja mörg verkefni, þar með talið girðingarvinna sem er kærkominn vorboði. Allir hafa gaman af því að ræða um hvort klaki sé í jörðu og hvort hann sé meiri eða minni en í fyrra. Minna gaman hefur fólk af því að ræða sumarbeit í görðum og stunda fjárrag bjartar nætur.
Landeigendur og vörslufólk búfjár er minnt á skyldur sínar til að hafa girðingar í lagi. Ef misbrestur er á, beinir sveitarstjóri því til fólks að ræða hvert við annað, sem hlut á að máli. Gleðilegt sumar.
Sveitarstjóri
 

Aðalfundur Búnaðarfélags Eyjafjarðarsveitar
Búnaðarfélag Eyjafjarðarsveitar heldur aðalfund þriðjudaginn 25 apríl klukkan 11. Dagskrá venjuleg aðalfundastörf. Auk þess kemur Elin Nolsøe Grethardsdóttir frá RML með fróðleik um nautgriparækt.
Súpa og brauð í hádeginu.
Stjórnin
 

Aðalfundur hrossaræktarfélagsins Náttfara
Aðalfundur hrossaræktarfélagsins Náttfara verður haldinn í Funaborg þriðjudagskvöldið 25.apríl n.k. 20:30. Hefðbundin aðalfundarstörf ásamt tillögu að lagabreytingum.
Allir félagar hvattir til að mæta !
Stjórnin

Freyvangur 60 ára
Félagsheimilið Freyvangur var vígt að kvöldi sumardagsins fyrsta, 25. apríl árið 1957 og er því 60 ára um þessar mundir. 
Á forsíðu Dags þann 27. apríl er sagt frá vígslunni í máli og myndum og má m.a. lesa eftirfarandi:

„Íbúar Öngulsstaðahrepps hafa nú náð glæsilegum áfanga í félagsmálum. Þeir hafa tekið í notkun mjög vandað og rúmgott félagsheimili og fór vígsla og afhending fram á sumardaginn fyrsta, með mikilli og hátíðlegri viðhöfn. Þetta félagsheimili, sem hlaut hið fagra nafn, Freyvangur, er rúmmikið, vistlegt og mjög vandað að innviðum öllum og búnaði, er fullbúið til notkunar, en eftir er að múrhúða að utan. Það stendur í landi Ytra-Laugalands, örskammt austan þjóðvegarins. Er það miðsvæðis í hreppnum og volgar uppsprettur nærri."

Húsið þótti eitt hið glæsilegasta félagsheimili á Norðurlandi öllu og hefur verið mikið stórvirki í ekki stærra sveitarfélagi og þess má geta að þegar húsið var vígt var kostnaður kominn í eina og hálfa milljón króna. Það var Öngulstaðahreppur sem greiddi 52% þess kostnaðar sem ekki kom úr félagsheimilasjóði en 8 önnur félög sameinuðust um 48% kostnaðar, kvenfélagið, ungmennafélögin, slysavarnafélagið og framfarafélag hreppsins. Samkeppni var haldin um nafn á hið nýja hús og var það Sigurpáll Helgason frá Þórustöðum sem sigraði með nafninu Freyvangur.

Það er víst að fjölmargir, bæði innan sveitar og utan eiga góðar minningar úr Freyvangi. Samkomur af öllum toga hafa verið haldnar í þessu góða húsi og kynslóðirnar komið hér saman og styrkt vina og ættarbönd. Dansleikir áttu hér fastan sess í áratugi og var þá gjarna boðið upp á sætaferðir frá Akureyri.

Upp úr aldamótunum 2000 réðst sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar í stefnumörkunarvinnu um framtíðarhlutverk félagsheimilanna í sveitarfélaginu. Freyvangi var þá markað hlutverk leikhúss enda hafði Freyvangsleikhúsið þá lengi haft aðsetur fyrir sína starfsemi í húsinu og verið einn stærsti notandi þess. Þess utan þjónar Freyvangur jafnframt áfram hlutverki félagsheimilis og er húsið leigt út fyrir veislur og aðra þá viðburði sem húsið getur þjónað.

Ekki verður haldið sérstaklega upp á þessi tímamót núna en að hausti mun Freyvangsleikhúsið bjóða upp á dagskrá þar sem fagnað verður 60 ára afmæli leiklistar í Freyvangi og verður þá blásið til veislu, söngs og gleði. Þangað til er upplagt að koma í leikhús og njóta skemmtilegrar kvöldstundar með persónum á Gjaldeyri og öðru góðu fólki.

 

Getum við bætt efni síðunnar?