Auglýsingablaðið

901. TBL 22. ágúst 2017 kl. 14:23 - 14:23 Eldri-fundur

Gangnadagar
1. göngur verða laugardag og sunnudag 2.-3. september og 9.-10. september.
2. göngur verða 16.-17. september og 23.-24. september.
Hrossasmölun verður föstudaginn 6. október.
Stóðréttir verða 7. október.
Ef efni eru til eftirleitar skal miðað við að þær verði farnar eigi síðar en 20. október. 

Gangnaseðlar verða sendir út á næstunni og um leið birtir á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.

Réttardagar
Þverárrétt sunnudagur 3. sept. kl. 10:00.
Möðruvallarétt sunnudagur 3. sept. þegar komið er að.
Hraungerðisrétt laugardagur 2. sept. þegar komið er að.
Vatnsendarétt sunnudagur 3. sept.
Vallarétt sunnudagur 10. sept. kl. 10:30.
Í aukaréttum þegar komið er að. 

Fjallskilanefnd

 

Matráður óskast í leikskólann Krummakot
Laust er til umsóknar starf matráðs við leikskólann Krummakot í Eyjafjarðarsveit, um er að ræða 100% stöðu.
Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

 Í starfinu felst umsjón með mötuneyti leikskólans; að framreiða í matar- og kaffitímum, frágangur og þrif auk annarra tilfallandi verkefna. Hádegismatur er aðkeyptur úr mötuneyti Eyjafjarðarsveitar sem er til húsa við Hrafnagilsskóla.

Hæfniskröfur:
• Hreinlæti og snyrtimennska skilyrði.
• Frumkvæði, sveigjanleiki og samstarfsvilji.
• Lipurð og færni í samskiptum.
• Reynsla af sambærilegu starfi kostur.

Leikskólinn Krummakot er í Hrafnagilshverfi, aðeins 10 kílómetra sunnan Akureyrar. Um 60 börn frá 12 mánaða aldri eru í leikskólanum á þremur deildum. 

Umsóknir um starfið sendist á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9, 601 Akureyri, eða á netfang skrifstofustjóra, stefan@esveit.is merkt „Matráður 1708015“ í efnislínu (e. subject). Með umsókn skal fylgja ferilskrá ásamt tilvísun til tveggja meðmælenda. Umsóknir skulu hafa borist á skrifstofu eða í tölvupósti eigi síðar en 30. ágúst 2017.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélags.
Nánari upplýsingar um starfið eru veittar á skrifstofu í síma 463-0600.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

 

Kæru sveitungar
Sunnudaginn 27. ágúst er messa í Kaupangskirkju kl. 13:30. Altarisdúkur sem kirkjunni hefur borist verður helgaður. Jenný Karlsdóttir, sem hannaði og saumaði dúkinn og hefur rannsakað sögu slíkra gripa, mun fylgja gjöfinni úr hlaði.
Sóknarnefndin

 

Frá Félagi aldraðra
Síðasta ganga aldraðra verður þriðjudagskvöldið 29. ágúst. Mæting við hliðið á Tjarnargerði kl. 20:00.
Göngunefndin

 

„Fimmtudagsdeild“ á frisbígolfvelli UMF. Samherja
Næstu 3 fimmtudaga verður fimmtudagsdeild á frisbígolfvellinum.
Það kostar ekki neitt að taka þátt og er deildin ætluð byrjendum. Þetta er frábær vettvangur fyrir þá sem langar að læra reglurnar og eiga skemmtilega stund með fjölskyldu og/eða vinum. Fjölmennum á völlinn, börn, fullorðnir og ennþá fullorðnari. Hvort sem er til að spila eða fylgjast með.
Byrjað verður að spila kl. 18:00.
Hægt er að fá diska lánaða á staðnum endurgjaldslaust.

 

Húsnæði óskast
Liggur þú á lausu húsnæði hér í Eyjafjarðasveit og bráðvantar góða leigjendur til lengri tíma? Okkur fer nefnilega að vanta húsnæði, helst fyrr en seinna, undir stórfjölskylduna og hundinn sem er vel húsvön og ljúf. Þurfum helst 4 svefnherbergi en þau mega gjarnan vera fleiri. Gott væri líka ef smá garður fylgdi með en það er ekki nauðsyn. Við heitum skilvísum greiðslum og ef eitthvað þarf að dytta að, þá er heimilisfaðirinn einkar laghentur og húsmóðirin með gott auga.
Ef þú álítur okkur rétta fólkið í þitt húsnæði, endilega hafðu samband við Stefán í síma 778-1762 eða Jenný í síma 869-5721.

Getum við bætt efni síðunnar?