Auglýsingablaðið

916. TBL 07. desember 2017 kl. 14:53 - 14:53 Eldri-fundur

Skrifstofa Eyjafjarðarsveitar verður lokuð föstudaginn 8. desember frá kl. 12:00.
Starfsfólk skrifstofu

 

Menningararfur Eyjafjarðarsveitar
Fundur verður haldinn í Félagsborg laugardaginn 9. desember kl. 10:00.
Meðal fundarefna er sundstaðir og sundkennsla framan Akureyrar.
Allir eru alltaf velkomnir á fundi um menningararfinn.
Fundarstjóri


Aðventukvöld í Grundarkirkju
Sunnudagskvöldið 10. desember kl. 20:30 verður aðventukvöld í Grundarkirkju.
Kirkjukór Laugalandsprestakalls syngur jólalög, m.a. af nýjum hljómdiski kórsins. Gestasöngvari með kórnum verður Helgi Þórsson. Snæfríð Egilson segir í máli og myndum frá lífinu á Grænlandi þar sem hún hefur búið síðustu tvö ár.
Aðgangur ókeypis – allir hjartanlega velkomnir.
Kirkjukór Lauglandsprestakalls

 

Senn kemur Eyvindur út.
Að venju hefur hann birt upplýsingar um skírnir, fermingar, giftingar og jarðarfarir sem farið hafa fram á árinu og framkvæmdar af sóknarpresti.
Ef einhverjir vilja koma á framfæri upplýsingum um athafnir sem sóknarprestur hefur ekki séð um vinsamlegast komið tilkynningum til Benjamíns Baldurssonar á póstfangið tjarnir@simnet.is

Brúnir gallerý
Myndlistarsýning á verkum Samúels Jóhannssonar verður opnuð nk. laugardag kl.14:00.
Kaffihúsið opið frá 14:00 til 18:00 laugardag og sunnudag.
Allir hjartanlega velkomnir.

 

Við getum bara ekki hætt…
Næsta leikrit sem sett verður á svið í Freyvangi er Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson, gaman/drama með söngvum í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar. Verkið segir sögu kaupmannsfjölskyldu í Reykjavík í byrjun sjöunda áratugarins. Tónlistarhæfileikar fjölskyldunnar brjótast út á mismunandi hátt hjá meðlimum hennar og krydda verkið, tónlistin er dægurflugur þess tíma. En undir niðri krauma óuppgerð átakamál, breyskleiki, og útskúfun sem takast á við umburðarlyndi og mannúð. Síðustu helgi fengum við hóp af góðu fólki í vinnustofu með leikstjóra og er nú unnið að því að skipa í hlutverk og hefjast æfingar eftir áramót. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt á bak við tjöldin þá vantar okkur alltaf fleiri hendur og endilega hafðu samband við einhvern í stjórninni eða mættu í kaffi í Freyvang, við tökum vel á móti þér.
Freyvangsleikhúsið

Volare útsala – fyrstir koma, fyrstir fá 😉
Miðvikudaginn 13. desember milli kl. 16:00-18:00 verður Volare útsala í Sunnutröð 5, Hrafnagilshverfinu. Hægt er að hafa samband fyrir nánari upplýsingar í síma 866-2796 milli kl. 16:00-18:00 alla virka daga, eða með skilaboðum í gegnum facebook: Hrönn Volare.

Gjafabréf í jólapakkann
Gefðu elskunni þinni dekur í jólagjöf. Ýmsar meðferðir í boði í notalegu umhverfi á snyrtistofunni Sveitasælu, Öngulsstöðum.
T.d. 60 mínútna andlitsmeðferð þar sem húðin er yfirborðshreinsuð, 20 mínútna nudd á axlir og höfði og í lokin dásamlegur, endurnýjandi og nærandi maski. Er einnig með 90 mínútna lúxus andlitsmeðferð þar sem við þetta bætist val um litun og plokkun, ávaxtasýrumeðferð eða djúphreinsun. Vinsælar meðferðir eru einnig fótsnyrtingar, handsnyrtingar og litun og plokkun.

Er með hágæðavörur frá Comfort Zone. Þær vörur eru án parabena, mineral olíu, silikons, litarefna, dýraafurða og MIT (rótvarnarefnis).
Verð með nokkrar vörur til sölu í sérstökum jólapakkningum.
Nánari upplýsingar og tímapantanir eru á virkum dögum milli 9:00-17:00 í síma 833-7888. Endilega skiljið eftir skilaboð á símsvaranum ef ég ansa ekki þar sem ég er oft upptekin við að snyrta. Ég hef svo samband um leið og ég get.
Er komin með síðu á Facebook þar sem þið getið séð lýsingu á þeim meðferðum sem eru í boði. Tímum fyrir jólin fer fækkandi, verið tímanlega að panta.
Jólakveðjur, Elín Halldórsdóttir, snyrtifræðingur.

 

Árlegur jólamarkaður í Holtseli
Opnunartími verður 12-19 laugardag og 12-16 sunnudag.
Jólaísarnir okkar vinsælu verða á sínum stað, karamelluís með makkarónum, Amaretto og karamellu-húðuðum möndlum, piparkökuís og Ferrero Rocher ís, og auk þess verðum við með gott úrval af bæði klassískari og óhefðbundnari tegundum. Við eigum einnig nóg til af nautakjöti, hakki, steikum og hamborgurum, egg fyrir jólabaksturinn, ristaðar möndlur, Sælusápur og ilmkerti, hangikjöt og reyktan silung frá Reykkofanum Hellu og svínakjöt frá Miðskeri.

RÚNALIST GALLERÍ - Stórhól verður með handverk, geita- og lambakjöt úr Skagafirði. HULDUBÚÐ með ýmiskonar matvöru. K.ING GLER, vinnustofa, Hólshúsum, 601 Eyjafjarðarsveit verður með glerverk til sýnis og sölu. SILVA HRÁFÆÐI verður með úrval af vörunum sínum, t.d. hnetusteik, hörfrækökur, orkustykki, alls kyns sælgæti og allt framleitt úr gæða hráefni. Nýjar paprikur frá BRÚNULAUG. Geitaafurðir frá HÁAFELL, verslun / afþreying, t.d. ostar og snakkpylsur. Heimagerð kæfa frá BREIÐDALSBITA. LITLA BRAUÐSTOFAN verður með súrdeigsbrauð úr íslenskum hráefnum og án sykurs. Ostar og skyrkonfekt frá RJÓMABÚINU ERPSSTÖÐUM. ÁLFAGALLERÍIÐ Í SVEITINNI verður með Handverk. Rabarbarakaramellur frá LÖNGUMÝRI.

Erum með viðburð á facebook sem við munum uppfæra reglulega, fylgist vel með: Jólamarkaður í Holtseli.

Athugið að DYNGJAN-LISTHÚS verður einnig með opið þessa sömu helgi. Einungis í örfárra mínútna fjarlægð frá okkur og mælum við eindregið með viðkomu þar, þar sem má finna frábært úrval af glæsilegu handverki!

Getum við bætt efni síðunnar?