Auglýsingablaðið

931. TBL 22. mars 2018 kl. 12:51 - 12:51 Eldri-fundur

Störf hjá Eyjafjarðarsveit

Forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Eyjafjarðarsveitar
Eyjafjarðarsveit óskar eftir starfsmanni í 100% starf forstöðumanns Íþrótta¬mið¬stöðvar Eyjafjarðarsveitar. Forstöðumaður hefur meðal annars umsjón með reksti íþróttahúss, sundlaugar, íþróttavalla og tjaldsvæðis ásamt því að hafa umsjón með íþrótta- og tómstundastarfi í sveitarfélaginu. 

Starfið veitist frá 1. maí 2018 eða eftir samkomulagi.
Helstu kostir sem horft verður til við ráðningu:
• Hæfni í mannlegum samskiptum og rík þjónustulund
• Skipulagshæfni og nákvæmni í vinnubrögðum
• Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
• Starfsreynsla sem nýtist í starfi
• Hugmyndaauðgi
Umsóknarfrestur er til og með 4. apríl 2018.

Sumarstarf – heimaþjónusta og fleira
Eyjafjarðarsveit óskar eftir starfsmanni í sumarafleysingar í heimaþjónustu. Starf í heima-þjónustu er um 60% en til greina kemur að ráða í allt að 100% starf og viðkomandi sinni þá öðrum verkefnum, t.a.m. á tjaldsvæði.
Í starfinu felst að sjá um almenn þrif í heimahúsum, fara sendiferðir (t.d. innkaup) og veita persónulega aðstoð. Leitað er eftir einstaklingi sem hefur góða þjónustulund og færni í mannlegum samskiptum, hefur almenna kunnátta við þrif og er stundvís og heiðarlegur. Bílpróf er skilyrði og viðkomandi þarf að hafa bíl til umráða.
Umsóknarfrestur er til og með 9. apríl 2018.

Sumarstarf - Flokkstjóri vinnuskóla
Eyjafjarðarsveit óskar eftir starfsmanni í stöðu flokkstjóra vinnuskóla í sumar.
Starf flokkstjóra felst í að stjórna starfi nemenda vinnuskólans, leiðbeina nemendum og fræða þá um rétt vinnubrögð og verkþætti í starfinu, halda skýrslu um mætingar og ástundun nemenda og vinna markvisst að því að efla liðsheild og góða líðan nemenda í vinnuskólanum.
Starfstími vinnuskólans er 9 vikur, frá byrjun júní fram í ágúst.
Leitað er að einstaklingi sem er góð fyrirmynd, stundvís og vinnusamur, sjálfstæður, skipulagður og sýni frumkvæði í starfi. Reynsla af starfi með unglingum er kostur. Bílpróf er skilyrði.
Umsóknarfrestur er til og með 9. apríl 2018.

Sumarstarf - Smámunasafn Sverris Hermannssonar
Í sumar vantar stúlkurnar á Smámunasafninu starfskraft til að vinna alla virka daga frá kl. 11:00-17:00 og um helgar eftir samkomulagi.
Viðkomandi þarf að hafa gott vald á íslensku og ensku og ekki spillir fyrir ef eitt norðurlandamál er brúklegt. Frumkvæði og falleg, fagleg og skemmtileg framkoma er skilyrði og ekki síst að geta bakað góðar vöfflur.
Umsóknarfrestur er til og með 30. mars 2018.

Umsóknum skal skilað, ásamt ferilskrá og upplýsingum um meðmælendur, á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar, Skólatröð 9, 601 Akureyri eða í tölvupósti á netfangið esveit@esveit.is.

 

Bókasafn Eyjafjarðarsveitar Hrafnagilsskóla
Bókasafnið er lokað yfir páskana sem hér segir:
Frá og með 26. mars til og með 2. apríl er safnið lokað.
Safnið opnar aftur þriðjudaginn 3. apríl og þá er opið eins og venjulega.

Gott úrval bóka og tímarita til að lesa og skoða á staðnum eða fá lánað með sér heim. Einnig er hægt að fá lánuð pússluspil, stór og lítil.
Óformlegar hannyrðastundir og kaffispjall eru á fimmtudögum frá kl. 16:00.

Venjulegur opnunartími safnsins:
Mánudaga kl. 10:30-12:30 og 13:00-16:00
Þriðjudaga kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Miðvikudaga kl.10:30-12:30 og 16:00-19:00
Fimmtudaga kl. 10:30-12:30 og 16:00-19:00
Föstudaga kl. 10:30-12:30

Best er að ganga um dyr að austan (kjallari íþróttahúss) eða um sundlaugarinnganga
og niður á neðri hæð.

Burtfarartónleikar
Mánudaginn 26. mars nk. mun Þorkell Már Pálsson tenorsöngvari halda burtfarartónleika sína frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar í tónlistarhúsinu Laugarborg Eyjafjarðarsveit. Þorkell hefur verið nemandi Þuríðar Baldursdóttur en síðustu tvö árin hefur Guðlaugur Viktorsson verið söngkennari hans. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og eru allir velkomnir. Meðleikari á píanó er Helga Kvam. Gestaflytjendur eru félagar Þorkels úr Karlakór Akureyrar Geysir.
Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir. Tónlistarskóli Eyjafjarðar

Karlakór Eyjafjarðar heldur sitt árlega hagyrðingakvöld miðvikudaginn 28. mars kl. 20:30. Kórinn syngur nokkur lög úr verkefni vorsins sem flutt verður 21.apríl í Hofi og fleira verður til gamans gert. Miðasala við innganginn miðaverð 3000 kr. Getum ekki tekið við kortum. Karlakór Eyjafjarðar.


Sveitarstjórnarmál

F-listinn boðar til opins fundar um framboðs- og sveitarstjórnarmál föstudagskvöldið 23. mars kl. 20:00 í Félagsborg. Allt áhugafólk um velferð og stjórnun Eyjafjarðarsveitar er boðið velkomið. F-listinn


 Aðalsafnaðarfundur Grundarsóknar

verður haldinn í Félagsborg fimmtudaginn 22. mars kl. 20:30. Fundarefni: venjuleg aðalfundarstörf, sameining sókna, fulltrúar í kjörnefnd og fl.
Sóknarnefndin.


 Aðalsafnaðarfundur Möðruvallasóknar
verður haldinn sunnudaginn 25. mars 2018 klukkan 20:30 á Hríshóli 2 (hjá Guðmundi og Helgu). Venjuleg aðalfundarstörf, auk þess verður kosinn fulltrúi í kjörnefnd og ákvörðun tekin um framhald viðræðna um sameiningu sókna. Sóknarnefndin.


 Aðalsafnaðarfundur Hólasóknar
verður haldinn að Villingadal (hjá Ingu) miðvikudagskvöldið 28. mars kl. 20:30. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verður rætt og kosið um áframhald á viðræðum um sameiningu sókna Laugalandsprestakalls. Kjósa þarf fulltrúa í kjörnefnd. Sóknarnefndin.


 Aðalfundur Funa

Aðalfundur hestamannafélagsins Funa verður haldinn í Funaborg á Melgerðismelum þriðjudagskvöldið 27. mars nk. kl. 20:30. Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf. Nýir félagar velkomnir. Kaffiveitingar. Stjórnin.


 Svitahof hjá Sólarljósinu
Föstudaginn 30. mars kl. 16:00. Verð 10.000,- og tími ca. 4 klst. Takmarkaður fjöldi sem kemst að svo skrá sig sem fyrst. Skráning: solarmusterid@gmail.com eða í 863-6912.


 Kakó og Yoga
Heilsudögginni Furuvöllum 13 Akureyri. Mánudag 2. apríl kl. 11:00 verður Guatimala kakó og yogastund hjá þeim systrum Sigríði Sólarljós og Helenu. Takmarkaður fjöldi. Verð 4.000,- Skráning: solarmusterid@gmail.com og 863-6912.


Starfsmaður óskast

Á Svertingsstöðum 2 er rekinn blandaður búskapur, við erum að leita af duglegum og vinnusömum einstaklingi. Vinnuvélaréttindi væri kostur en við skoðum allt.
Upplýsingar hjá Hákoni S. 896-9466.


 Þrek og tár hjá Freyvangsleikhúsinu!

Freyvangsleikhúsið sýnir nú leikritið Þrek og tár, eitt af ástsælustu verkum Ólafs Hauks Símonarsonar. Í verkinu göngum við inn í minningar ungs manns í Reykjavík við upphaf sjöunda áratugarins og gleðjumst og syrgjum með fjölskyldu hans í lífi og starfi, vinum þeirra og nágrönnum sem hver og einn á sína sögu.
Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson og tónlistarstjóri Ingólfur Jóhannsson, en tónlistin er í hávegum höfð í verkinu og hér hljóma lög eins og Þrek og tár, Heimþrá og Í rökkurró sem voru vinsæl lög á sjöunda áratugnum. 9. sýning 23. mars, 10. sýning 24. mars, 11. sýning 29. mars Skírdagur, 12. sýning 6. apríl, 13. sýning 7. apríl.
Miðasala á tix.is og í síma 857-5598 kl. 16:00-20:00 alla daga.

Getum við bætt efni síðunnar?