Auglýsingablaðið

986. TBL 16. apríl 2019 kl. 11:32 - 11:32 Eldri-fundur


Sveitarstjórnarfundur

531. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherberginu í Skólatröð 9, miðvikudaginn 24. apríl, kl. 15:00. Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.


Eyjafjarðarsveit - auglýsing á afgreiðslu sveitarstjórnar

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti þann 28. mars 2019 afgreiðslu skipulagsnefndar þann 14. mars 2019 á deiliskipulagi fyrir svínabú í landi Torfa skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagið tekur til uppbyggingar svínabús á landspildu sunnan Finnastaðaár og vestan Eyjafjarðarbrautar vestri.
Skipulagstillaga var auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga. Athugasemdir bárust á auglýsingartímabili skipulagstillögu og afgreiðslu sveitarstjórnar má sjá í fundargerðum á heimasíðu sveitarfélagsins, esveit.is.
Hægt er að kæra samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.
F.h. Eyjafjarðarsveitar, skipulags- og byggingarfulltrúi.


Hugum að girðingunum

Sveitarstjóri vill minna bændur og aðra landeigendur á að nýta þá góðu tíð sem fram undan er og sumarið allt til að huga að girðingum sínum og landareignum.
Nokkuð hefur borið á því í haust og vetur að fé og hross hafi komist milli svæða vegna illa hirtra girðinga og hvet ég því eigendur þeirra girðinga til að huga vel að þeim í sumar og endurnýja þar sem þörf er á. Virðum nágrannana. Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri.


Helgihald um páska í Lauglandsprestakalli


Föstudaginn langa 19. apríl kl. 11:00 í Munkaþverárkirkju. Íhugunarstund við krossinn. Sjö orð Krists á krossinum og passíusálmar. Söngdagskrá og upplestur á föstudaginn langa.
Kór Laugalandsprestakalla syngur undir stjórn Daníels Þorsteinssonar m.a. þýðingu sr. Guðmundar á Stabat mater, sem leiðir stundina.

Hátíðarmessa á páskadag 21. apríl kl. 11 í Grundarkirkju og kl. 13:30 í Kaupangskirkju.
Góðu upprisusálmarnir sungnir. Prestur sr. Guðmundur flytur ræðu um BJARTSÝNI.
Eftir páska tekur sr. Jóhanna Gísladóttir við prestaþjónustunni í Laugalandsprestakalli.

Ágætu sveitungar, foreldrar og forráðamenn 
Á sameiginlegri samverustund í íþróttasal Hrafnagilsskóla miðvikudaginn 24. apríl kl. 8:15 verður Tónlistarskóli Eyjafjarðar með kynningu á starfi skólans. Þar verður kynnt allt það sem skólinn hefur upp á að bjóða og allir kennarar, gjarnan í samstarfi við sína nemendur, segja stuttu máli frá hljóðfærum, hljóðfæraflokkum og leika tóndæmi. Eftir kynninguna doka kennarar Tónlistarskólans við og gefst þá færi á að taka þá tali. Þar á eftir fara nemendur yngri deilda yfir í Tónlistarskólann í skipulögðum hópum og kynnast einstaka hljóðfærum betur hjá viðkomandi kennurum. Þeir foreldrar sem hafa hug á því að innrita börn sín í Tónlistarskólann fyrir næsta skólaár eru sérstaklega hvattir til að mæta. Opnað verður fyrir innritun í skólann á sama tíma. Auk kynningar Tónlistarskólans verður atriði í boði nemenda í 6. og 9. bekk. Eftir samverustundina verður boðið upp á molakaffi og skólastjórnendur á staðnum til skrafs og ráðagerða. Með bestu óskum um gleðilega páska, skólastjórnendur Tónlistarskóla Eyjafjarðar og Hrafnagilsskóla.


Aðalsafnaðarfundur Hólasóknar

verður haldinn í Villingadal (hjá Ingu) föstudaginn 26. apríl 2019 kl: 20:30.
Venjuleg aðalfundarstörf. Kosningar, rætt um fyrirhugaðar breytingar á málefnum kirkjunnar. Að öllu forfallalausu mætir nýi presturinn okkar Jóhanna Gísladóttir á fundinn.
Sóknarnefndin

Ávaxtaðu aurinn!
Hef til sölu fyrsta flokks kartöfluútsæði. Fyrir hverja kartöflu sem þú setur niður gætir þú fengið allt að tólf upp í haust. Það er svo góð ávöxtun að enginn banki tæki þátt í því. Taktu þátt í góðærinu á þinn hátt og settu niður kartöflur frá Gröf 2. Upplýsingar í síma 8618800, Pálmi Reyr. Es. Hægt er að finna okkur á Facebook undir Jarðeplasalan.


Plokkum og flokkum - Stóri plokkdagurinn

Við hvetjum íbúa Eyjafjarðarsveitar til að hreinsa til í sínu umhverfi þann 28. apríl næstkomandi á stóra plokkdeginum og taka til hendinni í okkar fögru sveit.
Verum vakandi fyrir umhverfinu og njótum þess að hafa snyrtilegt í kringum okkur.
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri.


Bókasafn Eyjafjarðarsveitar

Lokað verður sumardaginn fyrsta 25. apríl og verkalýðsdaginn 1. maí.
Vorið er á næstu grösum og um að gera að skoða hvað bókasafnið hefur upp á að bjóða í sambandi við garða og gróður. Mikið úrval bóka og tímarita til útlána og einnig til að skoða á staðnum. Venjulegur opnunatími safnsins er:
mánudaga frá 10:30-12:30 og 13:00-16:00.
þriðjudaga frá 10:30-12:30 og 16:00-19:00.
miðvikudaga frá 10:30-12:30 og 16:00-19:00.
fimmtudaga frá 10:30-12:30 og 16:00-19:00.
föstudaga frá 10:30-12:30.
Best er að ganga um dyr að austan (kjallari íþróttahúss) eða um sundlaugarinnganga.

Vinnustofan mín að Teigi verður opin um páskana fimmtud., laugard. og mánud. annan í páskum frá kl. 13:00-17:00. Páskaungar til sýnis fyrir börnin. Heitt á könnunni.
Allir hjartanlega velkomnir. Ath. Ekki posi. Gerða.


Páskabingó

Páskabingó verður haldið í Funaborg á Melgerðismelum laugardaginn 20. apríl kl. 13.30.
Glæsilegir vinningar. Spjaldið kostar 500 krónur. Posi á staðnum. Hestamannafélagið Funi.


Sumardagurinn fyrsti

Fögnum sumarkomu á Melgerðismelum fimmtudaginn 25. apríl frá kl. 13:30 til 16:00.
Stórglæsilegt kaffihlaðborð að hætti Funamanna. Myndir eftir Hallrúnu Ásgrímsdóttur. Handverk og húsdýrasýning. Gamlar og nýjar búvélar. Teymt verður undir börnunum. Dalbjörg verður á staðnum. Láttu þig ekki vanta á melana á sumardaginn fyrsta.
Posi á staðnum. Hestamannafélagið Funi.


Páskaganga

Föstudaginn langa, þann 19. apríl 2019 ætlar Hjálparsveitin Dalbjörg að bjóða gestum að koma í heimsókn. Eins og undanfarin ár efnum við til göngu frá húsi okkar Dalborg. Gengið verður gömlu bakkana að Munkaþverá. Ýmsar vegalengdir eru í boði, frá 2,5 km til 12 km., svo að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Að göngu lokinni bjóðum við uppá stórglæsilegt vöfflukaffi. Það verður opið hús, þar sem gestir geta skoðað og fræðst um starf sveitarinnar. Gangan hefst stundvíslega kl. 10:00. Þátttökugjald í gönguna eru 1.500 kr. fyrir 13 ára og eldri og 500 kr. fyrir 6-12 ára og innifalið í því er vöfflur og drykkir að lokinni göngu. Einnig er hægt að leggja frjáls framlög inn á reikning okkar, 0302-26-012482 og kt. 530585-0349.
Við hvetjum auðvitað sem flesta til að mæta, ganga, skokka eða hjóla og styðja við bakið á Dalbjargarfélögum. Eins og síðustu ár er það unglingadeildin og umsjónarmenn hennar sem sjá um gönguna. Þetta er því kjörið tækifæri til að hitta efnilegu krakkana í unglingadeildinni og styrkja þau í sínu starfi. Gleðilega páska! Hjálparsveitin Dalbjörg, www.dalbjorg.is


Íþróttaskóli 2-5 ára

Íþróttaskóli Umf. Samherja verður í fjögur skipti núna á vormánuðum að því gefnu að næg þátttaka fáist. Íþróttaskólinn er fyrir börn á aldrinum 2-5 ára og er settur upp í leikja- og þrautabrautarformi þar sem foreldrar taka virkan þátt og fylgja sínu barni eftir. Íþróttaskólinn verður laugardagana 27.04., 04.05., 11.05. og 18.05, frá kl. 10:15-11:00. Eins og áður er mikilvægt að börnin komi í þægilegum fötum og gert er ráð fyrir að þau verði berfætt. Kostnaður er 3.000 kr. fyrir barn og er skráning á netfangið samherjar@samherjar.is, þar sem fram þarf að koma kennitala og fullt nafn barns og forráðamanns ásamt símanúmeri. Umsjón með Íþróttaskólanum hefur Sonja Magnúsdóttir.
Sjáumst í íþróttahúsinu :)


Sveita-Zumba

Þórunn Kristín Sigurðardóttir zumbakennari kemur í sveitina til okkar. Við dönsum í Hjartanu á mánudagskvöldum kl. 20:00-21:00. Hittumst í anddyri sundlaugarinnar. Nýtt námskeið byrjar mánudaginn 6. maí með fyrirvara um næga þátttöku. Verðið er 6.000,- kr. fyrir 4 skipti og innheimt í gegnum Ungmennafélagið Samherja. Nánari upplýsingar og skráning er hjá Rósu, sími 692-8355 eða á netfangið samherjar@samherjar.is

Getum við bætt efni síðunnar?