Auglýsingablaðið

1042. TBL 14. maí 2020

Auglýsingablað 1042. tbl. 12. árg. 14. maí 2020.Sumarstörf grunn- og framhaldsskólanema


Sumarstörf framhaldsskólanema 18 ára og eldri
Velferðarráðuneytið, Vinnumálastofnun og sveitarfélögin munu í sumar standa fyrir átaksverkefni til að fjölga störfum á vegum stofnana ríkisins og sveitarfélaga fyrir námsmenn og atvinnuleitendur. Eyjafjarðarsveit tekur þátt í verkefninu og hefur fengið úthlutað 8 störfum. Sveitarfélagið býður námsmönnum, sem eru í námi nú á vorönn og munu halda áfram námi í haust, sumarstörf við ýmis verkefni.
Námsmenn verða að hafa lögheimili í Eyjafjarðarsveit til þess að geta sótt um starf.
Námsmenn verða að vera á milli missera eða skólastiga, þ.e.a.s. að vera að koma úr námi og á leiðinni í nám í haust. Skila þarf inn skriflegri staðfestingu þess efnis.
Umsóknarfrestur um öll störf er til og með 25. maí nk. og skal umsóknum skilað á rafrænu formi gegnum vef sveitarfélagsins www.esveit.is.

Vinnuskólinn
Eyjafjarðarsveit býður unglingum fæddum 2003, 2004, 2005 og 2006 vinnu við umhverfisverkefni á komandi sumri, frá og með mánudeginum 8. júní.
Umsækjendur þurfa að skila inn umsóknum fyrir 25. maí á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar eða á netfangið esveit@esveit.is.
Í umsókninni þarf að koma fram nafn, kennitala og launareikningur umsækjanda, nafn forráðamanns og sími.Tónlistarskóli Eyjafjarðar auglýsir 50% stöðu aðstoðarskólastjóra

Við skólann eru u.þ.b. 150 nemendur, auk forskólanemenda í leik- og
grunnskólum, í þremur útibúum á Hrafnagili, Þelamörk og Grenivík.
Í dag starfa 19 kennarar og stöðugildi við skólann u.þ.b. 9.

Skólinn starfar í nánum tengslum við grunnskólana á hverjum stað og flestum nemendum er kennt á skólatíma.
Starfsvið aðstoðarskólastjóra snýr fyrst og fremst að innra starfi skólans, stundaskrár nemenda og kennara, m.a. frágangur og aðstoð við námsmat. Utanumhald og teymisvinna varðandi skólanámskrár, fjölbreytta kennsluhætti, áætlanagerð og heimasíðu.
Náið samstarf við skólastjóra um starfsþróun og framtíðarsýn.

Skólinn er samlag þriggja sveitarfélaga og gott að viðkomandi hafi innsýn í verkferla og starfsemi sveitarfélaga.
Viðkomandi hafi góða og fjölbreytta hljóðfærakunnáttu, gæti kennt fræðigreinar og hafi reynslu af stjórnun tónlistarskóla.
Kjör samkv. kjarasamningum FT eða FÍH við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Frekari fyrirspurnir, upplýsingar og umsóknir berist skólastjóra á netfangið te@krummi.is.
Skólastjóri áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.
Umsóknarfrestur til og með 21. maí.Heimsendingar á matvörum úr matvöruverslun

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur ákveðið að útvíkka þjónustu sveitarfélagsins varðandi heimsendingu á matvörum úr matvöruverslun. Verður þjónustan nú í boði út árið 2020 og er ætluð öllum þeim sem náð hafa 67 ára aldri óháð utanaðkomandi áhrifa líkt og Covid. Þeir sem nýtt hafa þjónustuna og eru í áhættuhóp varðandi Covid aðstæðna stendur áfram í boði að nýta þjónustuna meðan áhrifa að völdum Covid gætir. Verður þjónustan einnig í boði fyrir þá sem hafa þjónustumat varðandi ferðir í matvöruverslanir óháð því hvort þeir hafa náð tilteknum aldri eða ekki. Sama verklag verður haft á þjónustunni sem verður í boði einu sinni í viku, á þriðjudögum. Er það í höndum þess sem pantar að sjá til þess að pöntunin verði tilbúin til afhendingar kl. 11:00 að morgni þriðjudags og senda pöntunarnúmerið á skrifstofu sveitarfélagsins.Frá Félagi eldri borgara

Næsta þriðjudag 19. maí, kl. 13:30 ætlum við að koma saman til að ljúka vetrarstarfinu.
Gönguferðir hefjast 2. júní – auglýstar síðar.
Stjórnin.Sundlaug Eyjafjarðarsveitar – Opnum aftur mánudaginn 18. maí

Minnum á opnunartímann:
Mánudaga – fimmtudaga kl. 6:30-22:00
Föstudaga kl. 6:30-20:00
Laugardaga og sunnudaga kl. 10:00-20:00
Hlökkum til að sjá ykkur.
Starfsfólk Íþróttamiðstöðvar.Ágætu sveitungar

Tökum höndum saman og ráðumst gegn skógarkerfli hér í Eyjafjarðarsveit.
Skógarkerfill er hávaxin breiðumyndandi planta sem er mjög fljót til á vorin, vex hratt svo undirgróður deyr. Verði ekkert að gert mun hann breiða úr sér hér um alla sveit svo óviðráðanlegt verður að útrýma honum.
Verjum þau svæði þar sem hann hefur enn ekki numið land, stingum upp stakstæðar plöntur hvar sem þær verða á vegi okkar.
Útrýming skógarkerfils er ekkert áhlaupaverk sem gert er einu sinni. Hér þarf þrautseigju, úthald og mikla þolinmæði.
• Rífum upp minni plöntur.
• Stingum upp stærri plöntur og setjum salt í holuna.
• Sláum með sláttuorfi minnst tvisvar á sumri þar sem hann er útbreiddari og komum þar með í veg fyrir fræmyndun sem er það allra mikilvægasta.
• Leyfum skógarkerfli ekki að vaxa upp við húsvegg, hann er ekki skrautplanta!

Mikilvægt er að fjarlægja plöntu þegar búið er að stinga hana upp, enda heldur fræþroski áfram þó að plantan sé dauð og fræin sá sér og ný planta vex árið eftir.
Sýnum samfélagslega ábyrgð, brettum upp ermar og ráðumst gegn skógarkerflinum!
Umhverfisnefnd.Kattahald

Nú er varptíminn í algleymingi og vert að minna á 11. gr. samþykktar um hunda og kattahald, en þar segir: „Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum takmarka útiveru katta.”

Í samþykktinni kemur einnig m.a. fram að eigendur eða umráðamenn katta skulu gæta þess að dýrin valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði né raski ró manna. Ef dýrin valda nágrönnum eða öðrum ónæði, óþrifum eða tjóni þá er skylt að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.

Nauðsynlegt er að halda fjölgun katta í hófi. Vanti kattagildru eða aðstoð við fækkun katta má hafa samband í vaktsíma 463-0615.
Sveitarstjóri.


Frá Skjólbeltsjóði Kristjáns Jónssonar

Þeir sem hyggjast rækta skjólbelti í Eyjafjarðasveit nú í sumar geta sótt um styrk úr sjóðnum. Umsóknir sendist til formanns sjóðsins Benjamíns Baldurssonar, Ytri-Tjörnum, þar sem fram kemur lengd og fjöldi raða í skjólbeltinu. Umsóknir mega einnig vera á rafrænu formi og sendist þá á netfangið tjarnir@simnet.is.
Stjórn skjólbeltasjóðs.Gull, silfur, rósagull og Omnom súkkulaði

Kvenfélagskonur á Íslandi, safna fyrir tækjum sem munu nýtast öllum konum hvort sem er við meðgöngu, fæðingu eða vegna kvensjúkdóma. Um er að ræða mónitora, ómtæki og rafrænar tengingar á milli landsbyggðar og Kvennadeildar Landspítalans.
Til sölu eru nokkrar týpur af armböndum og Omnom súkkulaði.
Allur hagnaður af sölu rennur beint í söfnunina.
Sjá nánar á heimasíðu Kvenfélagasambands Íslands
https://kvenfelag.is/sofnun-2020.
Nánari upplýsingar/pantanir óskast sendar fyrir sunnudaginn 24. maí á idunnhab@gmail.com eða í síma 866-2796/Hrönn.
Öllum er velkomið að panta og styrkja þannig söfnunina.
Kvenfélagið Iðunn.

 

Getum við bætt efni síðunnar?