Auglýsingablaðið

1045. TBL 03. júní 2020

Auglýsingablað 1045. tbl. 12. árg. 3. júní 2020.

Hugum að girðingunum
Sveitarstjóri vill minna bændur og aðra landeigendur á að nýta þá góðu tíð sem fram undan er og sumarið allt til að huga að girðingum sínum og landareignum.
Nokkuð hefur borið á því í haust og vetur að fé og hross hafi komist milli svæða vegna illa hirtra girðinga og hvet ég því eigendur þeirra girðinga til að huga vel að þeim í sumar og endurnýja þar sem þörf er á. Virðum nágrannana.
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri.


Járna- og timburgámar
Nú hefur járna- og timburgámum verið komið fyrir í sveitarfélaginu til að hvetja til góðrar umhirðu og umgengni um náttúru okkar.
Hvetjum við íbúa til að nýta sér þessa þjónustu og brýnum jafnframt fyrir notendum þeirra að flokka rétt í þá.
• Ef við flokkum rétt þá fara gámar á Akureyri þar sem efnið fer í rétt ferli og endurvinnslu eftir því sem við á.
• Ef við flokkum ekki rétt og mismunandi flokkar blandast í gámum þá eru gámarnir fluttir um þrjú hundruð kílómetra leið og efnið fer í urðun með tilheyrandi umhverfisspori og miklum kostnaði. Á þetta einnig við um þegar hent er í gámana á gámasvæðinu.
Gott er að hafa þetta í huga núna við endurnýjun girðinga en þar þarf að aðskilja timbur frá girðingu áður en efnið fer hvort í sinn gám.

Fegrum umhverfið og flokkum rétt.
Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri.


Matjurtagarðar í Hrafnagilshverfi

Sveitarfélagið mun bjóða íbúum aðgang að matjurtargörðum í gömlu kálgörðunum í Hrafnagilshverfi, norðan Bakkatraðar, sumarið 2020. Hver reitur verður 15 fermetrar að stærð og kostar leiga á honum 4.000 kr. fyrir tímabilið.
Undirbúningur garðanna hefst fljótlega og er áhugasömum bent á að sækja um reit með því að senda tölvupóst á esveit@esveit.is með yfirskriftinni Matjurtagarðar 2020 eða með því að hringja í síma 463-0600.



Sumaropnun í sundlauginni hefur tekið gildi

Mánudag-Föstudag kl. 6:30-22:00.
Laugardag og sunnudag kl. 10:00-20:00.
Hlökkum til að sjá ykkur.
Starfsfólk Íþróttamiðstöðvar.


Helgistund í Aldísarlundi sunnudaginn 7. júní kl. 13:00

Við ljúkum kirkjustarfinu þetta vorið með léttri helgistund í Aldísarlundi næstkomandi sunnudag. Kórinn syngur fyrir okkur sumarsöngva undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur og Sigríður Hulda Arnardóttir frá Reykhúsum annast undirleik. Jóhanna prestur leiðir stundina.
Eftir samveruna verður boðið upp á grillaðar pylsur.
Skemmtileg stund fyrir alla fjölskylduna og allir hjartanlega velkomnir!


Kvennahlaupið í Eyjafjarðarsveit laugardaginn 13. júní kl. 11:00

Eftir að hafa fagnað 30 ára afmæli hlaupsins með pompi og prakt á síðasta ári fór ÍSÍ í ítarlega endurskoðun á stöðu hlaupsins, tilgangi og markmiði. Breytingarnar sem hafa verið gerðar eru hugsaðar fyrst og fremst út frá umhverfissjónarmiðum og samhliða því var reynt að höfða betur til yngri kynslóða. Til að hafa hlaupið sem umhverfisvænast ákvað ÍSÍ að bjóða ekki uppá boli og verðlaunapeninga í ár.

Þess í stað verður til sölu bolur sem er 100% endurunninn úr blöndu af endurunninni lífrænni bómull ásamt endurunnu plasti. Hönnuðurinn Linda Árnadóttir hannaði grafíkina sem prýðir bolinn í ár. Bolurinn er hvítur og grafíkin er í dökkfjólubláum lit (eggplant). Linda kallar grafíkina „Ég, þú, við“ og táknar hún í grunninn kvennasamstöðu. Bolurinn er hugsaður sem fjölnota flík, hvort sem er í ræktinni eða undir blazer eða við gallabuxurnar.

Bolasalan verður einnig með öðru sniði í ár. Bolirnir verða eingöngu seldir í gegnum Tix.is. Bolurinn mun kosta 4.000 kr. fyrir fullorðna og 1.500 kr. fyrir börn. Upplagið af bolum er talsvert minna en undanfarin ár þannig að fyrstur kemur fyrstur fær.

Fólk sem hefur áhuga á að hlaupa mun geta mætt í eldri Kvennahlaupsbol og einungis greitt þátttökugjald (hægt að ganga frá á Tix.is). Þátttökugjald er 1.500 kr. fyrir fullorðinn og 500 kr. fyrir barn. Fólk framvísar þá útprentuðum miðum frá Tix.is eða kvittun í síma. Þeir sem vilja greiða á staðnum geta að sjálfsögðu gert það.

Yfirskrift hlaupsins í ár er „Hlaupum saman“.
• Hlaupið er frá Íþróttamiðstöðinni
• Elín danskennari mun sjá um upphitun sem byrjar kl. 10:40
• Hlaupið byrjar kl. 11:00
• Vegalengdir í boði eru 2,5km og 5km



Hjálparsveitin Dalbjörg

Aðalfundur 2020 verður haldinn laugardagskvöldið 13. júní, kl. 19:30 og verður að þessu sinni haldin á Kaffi Kú. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Veitingar verða í boði og vonumst við til að sjá sem flesta. Nýjir félagar eru boðnir velkomnir.


Frá Skjólbeltsjóði Kristjáns Jónssonar

Þeir sem hyggjast rækta skjólbelti í Eyjafjarðasveit nú í sumar geta sótt um styrk úr sjóðnum. Umsóknir sendist til formanns sjóðsins Benjamíns Baldurssonar, Ytri-Tjörnum, þar sem fram kemur lengd og fjöldi raða í skjólbeltinu. Umsóknir mega einnig vera á rafrænu formi og sendist þá á netfangið tjarnir@simnet.is.
Stjórn skjólbeltasjóðs.



Ágætu Hjálparkonur

Vorfundur kvenfélagsins Hjálpin verður haldinn sunnudagskvöldið 7. júní í Sólgarði (uppi) kl. 20:00.
Dagskrá: *Kaffihlaðborð í sumar. *Gönguferðir/hittingar í sumar. *Þátttaka félagsins í Matarstíg Helga magra. *Nýliðun í félaginu. *Önnur mál.
Nýir félagar velkomnir.
Stjórnin.


Aukaaðalfundur Vatnsveitufélag Kaupangssveitar

Áður boðaður aukaaðalfundur Vatnsveitufélags Kaupangssveitar sem frestað var vegna Covið 19 verður haldinn í Laugarborg 10. júní kl. 20:00.
Á aðalfundi á Lambinn þann 13.05.2019 var samþykkt sú tillaga að stjórn VK færi í viðræður við Norðurorku um samstarf eða kaup á félaginu, af því tilefni boðum við nú til aukaaðalfundar til skrafs og ráðagerðar.
Dagskrá fundarins:
1. Kynning á tilboði Norðurorku í eignir félagsins.
2. Beiðni stjórnar um umboð félagsmanna til handa stjórn til að ráðstafa eignum félagsins, með fyrirvara um samþykki félagsmanna á aðalfundi.
3. Önnur mál.
Stjórn Vatnsveitufélags Kaupangssveitar.

 

Getum við bætt efni síðunnar?