Auglýsingablaðið

1074. TBL 07. janúar 2021

Auglýsingablað 1074. tbl. 13. árg. 7. jan. 2021.Sveitarstjórnarfundur

559. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarherbergi sveitarstjórnar, Skólatröð 9, fimmtudaginn 14. janúar og hefst hann kl. 15:00.
Dagskrá fundarins verður kynnt á upplýsingatöflu í anddyri skrifstofunnar og á heimasíðu sveitarfélagsins.Íþrótta- og tómstundastyrkur

Ákveðið hefur verið að framlengja frest vegna ársins 2020 til 15.01.2021. Umsóknir sem berast eftir það vegna ársins 2020 verða ekki afgreiddar.

Eyjafjarðarsveit veitir foreldrum/forráðamönnum barna og ungmenna á aldrinum
6-17 ára styrki vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar. Meginmarkmið íþrótta- og tómstundastyrkja er að stuðla að aukinni hreyfingu og félagsþátttöku barna í sveitarfélaginu. Styrkur er veittur vegna æfinga- og þátttökugjalda fyrir börn á aldrinum 6-17 ára með lögheimili í Eyjafjarðarsveit. Styrkhæft er hvers konar reglulegt íþrótta- og tómstundastarf.

Styrkur árið 2021 er fjárhæð 20.000 kr.
Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi 15. desember.
Sótt er um rafrænt á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar – Umsóknir – Íþrótta- og tómstundastyrkur.

Til að fá styrkinn greiddan þarf að senda:
1. Afrit af reikningi þar sem fram kemur fyrir hvaða íþrótt eða tómstund er verið að greiða og fyrir hvaða barn.
2. Staðfestingu á greiðslu.
3. Reikningsupplýsingar til að leggja styrkinn inn á.Bókasafn Eyjafjarðarsveitar

Bókasafnið verður því miður áfram lokað en fram til 14. janúar er hægt að hafa samband við safnið ef fólk vantar eitthvað að lesa og við finnum eitthvað sem hentar. Bókunum verður síðan komið í póstkassa hjá viðkomandi. Hægt verður að skila með sama hætti, þ.e. bækur settar í póstkassann, bókasafnið látið vita og þær síðan sóttar í kassann.
Í næstu viku verður staðan tekin og þá kemur í ljós hvert framhaldið verður en allar breytingar eru auglýstar strax á heimasíðu sveitarfélagsins og síðan í Sveitapóstinum.
Endilega hafið samband og við finnum út úr þessu saman.
Hægt er að hringja í síma 464-8102 á milli 9:00 og 12:00.Snyrtistofan Sveitasæla (Öngulsstöðum)

Óska öllum viðskiptavinum gleðilegs nýs árs og þakka viðskiptin á árinu sem var að líða. Nýir viðskiptavinir velkomnir.
Hægt að fá allar helstu snyrtimeðferðir, nánari upplýsingar um meðferðir, verð og opnunartíma eru inná Facebook og hægt að senda mér skilaboð þaðan og panta tíma. Gjafabréf í dekur er tilvalin gjöf við öll tækifæri, þú velur ákveðna meðferð eða upphæð að eigin vali. Best er að hringja til að nálgast gjafabréf.
Er með hágæðavörur frá Comfort Zone og Skin Regimen í vinnuvöru og til sölu. 
Tímapantanir í síma 833-7888 milli kl. 9:00-17:00 á daginn. Símsvari eftir opnunartíma.
Elín Halldórsdóttir snyrtifræðingurÁrshátíð unglingastigs Hrafnagilsskóla

Föstudaginn 15. janúar næstkomandi verður árshátíð unglingastigs. Nemendur völdu að setja upp leikritið Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner. Vegna samkomutakmarkana geta þeir ekki haldið sýninguna með hefðbundnum hætti og ætla því að taka hana upp með áhorfendum úr skólanum. Allir nemendur unglingastigs taka þátt í uppfærslunni því auk þess að leika, dansa og syngja á sviði sjá unglingarnir um búninga, förðun, leikmynd, leikskrá og alla tæknivinnu.
Nemendur unglingastigs bjóða til sölu ,,heimaleikhúspakka” sem inniheldur slóð á leikritið, rafræna leikskrá, hugmyndir að góðu heimakvöldi og óvæntan glaðning. Pakkinn kostar 1.000 krónur og pantanir þurfa að berast til Nönnu, nanna@krummi.is, fyrir miðvikudaginn 13. janúar. Ágóðinn verður nýttur fyrir nemendur unglingastigs, t.d. í lyftugjöld í skíðaferð og fleira skemmtilegt.

Við þökkum stuðninginn, nemendur unglingastigs Hrafnagilsskóla.

Getum við bætt efni síðunnar?