Auglýsingablaðið

1175. TBL 11. janúar 2023

Auglýsingablað 1175. tbl. 15. árg. 11. janúar 2023.

 


Kaffispjall með oddvita og sveitarstjóra í dag kl. 16:00 í Félagsborg
Íbúum og þeim sem áhuga hafa býðst tækifæri til að koma í kaffispjall með oddvita og sveitarstjóra til að ræða það sem þeim brennur á hjarta, í dag 11. janúar kl. 16:00-17:00 í Félagsborg, Skólatröð 9.
Kjörið tækifæri til að fræðast til dæmis um málefni Smámunasafnsins.



Sveitungar góðir enn styttist í þorrablótið, nefndin er á fullu að undirbúa gríðargott blót.
Er ekki örugglega búið að pússa skóna, strauja fötin og græja pössun fyrir börnin?
Vel hefur tekist með hlaðborð síðustu skipti svo við munum halda því áfram, enginn mun þurfa að burðast með trog að borðhaldi loknu og eiga mis vel lyktandi bíla daginn eftir.
Í næsta pósti munu birtast upplýsingar um miðapantanir og afhendingu!



Árshátíð unglingastigs

Árshátíð unglingastigs verður haldin í Laugarborg föstudaginn 13. janúar nk.
Hún hefst kl. 20:00 og stendur til kl. 23:00. Skólabílar aka heim að balli loknu.
Nemendur í 8., 9. og 10. bekk sýna stytta útgáfu af söngleiknum ,,Grease“ og kennarar á unglingastigi leikstýra. Auk þess að leika, syngja og dansa á sýningunni sjá nemendur um búninga, förðun, leikmynd, leikskrá og alla tæknivinnu.
Verð aðgöngumiða er 800 kr. fyrir nemendur á grunnskólaaldri og 1.500 kr. fyrir þá sem eldri eru. Veitingar á hlaðborði eru innifaldar í miðaverðinu.
Ágóðinn rennur allur til nemenda, bæði í ferðasjóð 10. bekkjar og
til að greiða lyftugjöld í skíðaferð og fleira fyrir nemendur
unglingastigs. Athugið að ekki er posi á staðnum.
Allir eru hjartanlega velkomnir. Nemendur á unglingastigi.


Frá Félagi eldri borgara í Eyjafjarðarsveit
Við minnum á tímana okkar í Íþróttahúsinu en þeir eru á miðvikudögum kl. 10:45-12:00 og á föstudögum kl. 11:15-12:15. Og mæta svo !
Stjórnin.



Menningararfur Eyjafjarðarsveitar

Fundur um „Göngur og réttir“, laugardaginn 14. janúar kl. 10:00 í Félagsborg. Vonumst til að fá sem flesta gangnamenn og -konur til að taka þátt í umræðunum.



Iðunnarkvöld – miðvikudaginn 18. janúar kl. 20:00

Kvenfélagið Iðunn verður með bókakvöld miðvikudaginn 18. janúar kl. 20:00 í fundarherberginu upp á 2. hæð í Laugarborg, dyrnar hægra megin að austan. Bókaormarnir í félaginu segja frá bókum sem þeir hafa lesið að undanförnu, hvort sem það eru skemmtilegar eða síður en svo skemmtilegar bækur!
Kaffi og smá kruðerý á boðstólum.
Nýjar konur velkomnar.
Kvenfélagið Iðunn.



Heil og sæl öll

Það styttist í Bóndadaginn og þorrann og þá er gott að eiga góðan mat á diskinn og í bakkana!
Ég er í fjáröflun fyrir útskriftarferðalag Menntaskólans á Akureyri í júní 2023. Ég er að bjóða til sölu reyktar nautatungur, annars vegar í stykkjatali og svo hins vegar tvær saman í (vacuum) pakka. Stök tunga kostar 1.500 krónur og tvær saman í pakka 3.000 krónur.
Pantanir berist í síma 891 8356 eða í gegnum netfangið jkaritasg@gmail.com og ég keyri sendingarnar til ykkar.
Með kærri þökk fyrir stuðninginn, Járnbrá Karítas (3.F), Rökkurhöfða.


Söfnun fyrir fjölskyldu í sveitinni

Komið þið sæl.
Í upphafi árs fór Sigurbjörn Árni Guðmundsson til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni og gekkst Sigurbjörn, eða Bubbi eins og hann er alltaf kallaður, undir opna hjartaaðgerð þar sem skipt var um lungnaæð.

Bubbi fæddist með hjartagalla og þurfti að fara í flóknar aðgerðir sem lítill drengur. Síðustu vikur hefur hann verið með bakteríusýkingu í blóði sem erfitt hefur verið að uppræta. Hann hefur því dvalið meira og minna á Barnaspítala Hringsins og barnadeild SAk síðan í nóvember.

Þetta eru að vonum mikil umskipti fyrir fjölskylduna og vitað er að langt endurhæfingarferli tekur við eftir að heim er komið.

Við óskum fjölskyldunni alls hins besta og sendum okkar hlýjustu kveðjur. Starfsmannafélag Hrafnagilsskóla ætlar að standa fyrir söfnun fyrir fjölskylduna þar sem vitað er að mikill kostnaður fylgir svona ferli. Við hvetjum sveitunga okkar til að sýna í verki hvers við erum megnug þegar við stöndum saman og allir ættu að geta lagt til eitthvert smáræði.

Við nýtum okkur reikning sem nemendafélag Hrafnagilsskóla á og færum Helgu móður Bubba upphæðina í heilu lagi að söfnun lokinni en söfnuninni lýkur í lok janúar. Þeir sem vilja leggja málefninu lið eru beðnir um að leggja inn á reikninginn 565-14-209, kt. 691018-0320.

Getum við bætt efni síðunnar?