900 milljónir í styrki til orkuskipta

Fréttir

Frétt frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/03/15/900-milljonir-i-styrki-til-orkuskipta/ 

"Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að auglýstir verðir styrkir til orkuskipta að upphæð 900 milljónir kr. af þeim fjárveitingum sem veittar eru til loftslagsmála í ár. Um er að ræða eina hæstu upphæð sem sjóðurinn hefur úthlutað um árabil.

Styrkirnir eru liður í aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum og orkuskiptum og eru styrkflokkar í samræmi við stefnu stjórnvalda um að styðja við orkuskipti á landsvísu. Áhersla er lögð á vistvæna orkunýtingu, sem og að styðja við orkuskipti í samgöngum um land allt.

Áframhaldandi stuðningur er við uppbyggingu hleðslunets fyrir rafbíla.

„Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum um það hvernig við náum metnaðarfullum markmiðum okkar í loftslagsmálum. Þar eiga orkuskiptin stóran þátt að máli,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Styrkirnir geta að hámarki numið 33% af áætluðum stofnkostnaði.

Styrkir til verkefna:

  • Bætt orkunýting, t.d. búnaður sem minnkar raforkunotkun til beinnar upphitunar í rafkyntum varmaveitum og/eða dregur úr olíunotkun.
  • Verkefni sem minnka olíunotkun í iðnaði, t.d. búnaður sem nýtir vistvæna orku í stað olíu.
  • Líf- eða rafeldsneytisframleiðsla og orkugeymslur.
  • Veittir verða styrkir sem ætlaðir eru fyrir uppsetningu hleðslu- eða áfyllingastöðva til þéttingar nets hleðslustöðva við vegakerfi, fyrir vistvæn ökutæki við gististaði, frístundasvæði, verslanir og fjölsótta ferðamannastaði.
  • Aðgerðir sem nýta vistvæna orku í haftengdri starfsemi og í siglingu til og frá höfn.

Umsóknarfrestur er til 7. maí.

Orkusjóði hefur verið falin umsjón með auglýsingu og umsýslu styrkjanna. Umsóknir skulu sendar gegnum þjónustugátt Orkustofnunar: gattin.os.is."

Nánari upplýsingar:

www.orkusjodur.is

Staða og áskoranir í orkumálum

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Orkustefna