Alþjóðlegur minningardagur fórnarlamba umferðarslysa 18. nóvember – um allt land

Ætlunin er að boða til minningarathafnar við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi klukkan 11 sunnudaginn 18. nóvember 2012 þar sem minnst verður fórnarlamba umferðarslysa og jafnframt heiðraðar þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu. Frá árinu 1993 hefur þriðji sunnudagur í nóvember verið tileinkaður minningu fórnarlamba umferðarslysa. Starfshópur innanríkisráðuneytisins um Áratug aðgerða annast undirbúning þessa verkefnis.

Við teljum mikilvægt að allir landsmenn taki þátt í þessu hvort sem menn eiga heimagengt til þessarar athafnar við Landspítalann eða ekki. Með þessu erindi er farið þess á leit við ykkur að vakin sé athygli á þessu innan sveitarfélagsins þannig að þeir sem vilja geti tekið þátt í athöfninni með táknrænum hætti eða boðað til einhverrar samverustundar að þessu tilefni.

Þess skal getið að við Landspítalann koma m.a. saman fulltrúar þeirra starfstétta sem kallaðar eru til þegar alvarleg umferðarslys eiga sér stað. Einnig verða viðstaddir forseti Íslands, ráðherrar innanríkismála og/eða velferðarmála ásamt fjölmiðlum auk fleiri gesta.

Klukkan 11:15 verður boðað til einnar mínútu þagnar til minningar um fórnarlömb umferðarslysa. Með almennri kynningu, dagana á undan, verður reynt að fá sem flesta landsmenn til að taka þátt í þögninni.