Ályktun íbúafundar vegna lagningu ljósleiðara í Eyjafjarðarsveit

Opinn íbúafundur var haldinn í Laugarborg þriðjudagskvöldið 26. maí þar sem samningur við Tengir hf. um uppbyggingu ljósleiðaranetsins var kynntur.  Mikil ánægja kom fram varðandi þessa framkæmd.

Á fundinum kom fram að Síminn mun ekki geta boðið upp á dreifingu sjónvarpsefnis í gegnum ljósleiðarann nema að settur verði upp sérstakur endabúnaður. Fundurinn skoraði á Símann að beita sér fyrir því að strax í sumar verði settur upp nauðsynlegur búnaður svo íbúar sveitarfélagsins geti tekið við sjónvarpsefni Símans líkt og frá öðrum dreifingaraðilum sjónvarpsefnis. Sveitarstjórn tekur undir þessa áskorun íbúafundarins og skorar á þá sem málið varðar að bregðast strax við.

Ljósleiðaranetið sem nú hefur verið samþykkt að leggja í sveitarfélaginu verður rekið sem kerfi með opinn aðgang. Kerfið verður opið þjónustuveitendum á jafnræðisgrunni svo þeir geti boðið þjónustu í samkeppni sín á milli og munu þeir njóta sömu viðskiptakjara. Með tilkomu ljósleiðaranetsins í sveitarfélagið skapast öflugar og öruggar fjarskiptasamgöngur sem er ein af forsendum atvinnuuppbyggingar og veitir íbúunum fjölmörg tækifæri í leik og starfi.