Fréttayfirlit

Íbúafundur um raforku- og hitaveitumál

Íbúafundur um raforku- og hitaveitumál í Eyjafjarðarsveit verður haldinn fimmtudaginn 9. apríl í Funaborg á Melgerðismelum og hefst hann kl. 20.00. Framsögumenn verða Helgi Jóhannsson frá Norðurorku og Steingrímur Jónsson frá RARIK. Að loknum erindum verða umræður. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar
01.04.2015

Umsóknarfresturinn rennur út 7. apríl

Fjöldi umsókna hefur borist og ánægjulegt að sjá hversu margir nýjir aðilar hafa sótt um. Við viljum minna á að umsóknarfresturinn rennur út þriðjudaginn 7. apríl. Rafrænt umsóknareyðublað er að finna undir "Umsókn" efst í valstikunni. Niðurstaða valnefndar liggur fyrir þann 6. maí 2015. Öllum umsóknum verður svarað.
27.03.2015

Tilboðsverð á lóðum í blómlegu sveitarfélagi

Í Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit eru til sölu lóðir við Bakkatröð. Í innan við 300m fjarlægð frá Bakkatröð eru grunnskóli, leikskóli, tónlistarskóli, íþróttahús og sundlaug. Eyjafjarðarsveit er blómlegt sveitarfélag þar sem búa rúmlega 1.000 manns bæði í dreifbýli og þéttbýli. Sveitarfélagið er öflugt og veitir íbúum góða þjónustu. Lóðinar sem um ræðir eru annarsvegar raðhúsalóðir og hinsvegar einbýlishúsalóðir. Tilboðið gildir til 30. júní 2015 og upplýsingar eru veittar í síma 463-0600.
25.03.2015

FUNDARBOÐ 461. fundar sveitarstjórnar

461. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar verður haldinn í fundarstofu 2, Skólatröð 9, miðvikudaginn 25. mars 2015 og hefst kl. 15:00
19.03.2015

Húsgagnagerð úr skógarefni

Námskeið í húsgagnagerð úr skógarefni á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands þann 27. mars á Vöglum í Fnjóskadal. Lærðu að afberkja, ydda, setja saman og fullvinna húsgögn úr grisjunarefni.
19.03.2015

Hvetjum íbúa Eyjafjarðarsveitar til að taka þátt í skemmtilegu verkefni

Aðstandendur Handverkshátíðar hvetja íbúa sveitarinnar til að útbúa fuglahræður og velja þeim stað hér í sveitinni sem sést frá veginum. Fuglahræðurnar mega vera óhefðbundnar og efnisval er frjálst. Í byrjun sumars (dagsetningin kynnt síðar) þurfa þær að fara á stjá og hápunkturinn verður á Handverkshátíðinni þar sem einhverjum þeirra verður boðið inn á svæðið og í lok hátíðar verða verðlaun veitt. Þetta uppátæki munu án efa kæta gesti sveitarinnar líkt og póstkassarnir, traktorinn og kýrnar á Hvassafelli gerðu um árið og tryggir okkur vonandi enn fleiri gesti í ár en síðustu ár. Með von um góða þátttöku. Ester Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Handverkshátíðar
19.03.2015

Brjóstakrabbamein – Hjálpin

Þann 24. mars kl. 20.00 verður haldinn fyrirlestur og fræðsla í Funaborg um brjóstakrabbamein. Þar ætlar Dóróthea Jónsdóttir að ræða um reynslu sína af brjóstakrabbameini en árið 2012 gaf hún út bókina "Bleikur barmur – barátta mín við krabbamein" og er bókin nú í notkun hjá brjóstakrabbameinsteymi Landsspítalans. Jóhanna Júlíusdóttir hjúkrunarfræðingur sem starfar hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis ætlar að koma með brjóstavesti og sýna okkur meðal annars hvernig á að þreifa brjóstin. Þetta er þörf og góð fræðsla sem við hvetjum konur til að mæta á og taka með vinkonu því þetta snertir okkur allar. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið í konum á Íslandi eða tæplega þriðjungur tilfella. Árlega greinast um 200 konur með sjúkdóminn hér á landi.
19.03.2015

Jónas Vigfússon hlaut Gullmerki ÍSÍ og Sigurður Eiríksson tók sæti varaformanns

Fimmtudaginn 12. mars fór fram 94. ársþing UMSE. Þingið var haldið í Funaborg á Melgerðismelum, félagsheimili Hestamannafélagsins Funa, en félagið hafði jafnframt umsjón með þinginu. Vel var mætt á þingið og voru þátttakendur alls 45, fulltrúar frá aðildarfélögum og stjórn, gestir og starfsmenn þingsins. Þess má geta að fulltrúar frá 11 af 14 aðildarfélögum voru á þinginu, auk fulltrúa stjórnar og var mætingin um 75% af mögulegum heildarfjölda fulltrúa. Þingið var nú haldið í annað sinn að kvöldi til á virkum degi.
16.03.2015

Árshátíð miðstigs 2015

Árshátíð miðstigs Hrafnagilsskóla verður haldin í Laugarborg, fimmtudaginn 19. mars og hefst kl. 20:00. Boðið verður upp á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar og nemendur í 5., 6. og 7. bekk sýna stytta útgáfu af Kardemommubænum eftir Thorbjörn Egner. Að loknum skemmtiatriðum verður boðið upp á hressingu og síðan verður stiginn dans og mun Elín Halldórsdóttir stjórna honum eins og henni er einni lagið. Skemmtuninni lýkur kl. 22:30.
16.03.2015

Gjöf frá umhverfisnefnd - fjölnota innkaupapokar inn á hvert heimili

Lengi hefur verið vitað um þörf þess að draga úr notkun plasts og er Eyjafjarðarsveit nú komin í hóp þeirra sveitarfélaga sem vill sporna við plastpokanotkun. Þessa dagana eru nemendur 9. bekkjar Hrafnagilsskóla að dreifa fjölnota innkaupapokum inn á öll heimi í sveitinni. Pokarnir eru gjöf umhverfisnefndar Eyjafjarðarsveitar og liður í því að auka vitund fólks um mikilvægi notkunar fjölnota burðapoka í stað plastpoka.
13.03.2015