Bók að gjöf fyrir eldri borgara Eyjafjarðarsveitar

Fréttir
Halldóra Magnúsdóttir, með gjöfina 60+ Hreyfing
Halldóra Magnúsdóttir, með gjöfina 60+ Hreyfing

Á morgun fá eldriborgarar bók að gjöf frá Eyjafjarðarsveit og verður eintaki dreift á öll heimili þar sem 67 ára eða eldri búa. Bókin, Hreyfing 60+, er skrifuð af íþróttafræðingnum Fannari Karvel og er gjöfinni ætlað að stuðla að góðri hreyfingu og lýðheilsu fyrir hópinn. Það er Lýðheilsunefnd Eyjafjarðarsveitar sem stendur að þessu flotta framtaki.

 

Bréf frá formanni Lýheilsunefndar:

Heilsa á tímum samkomubanns

Nú þegar samkomur í okkar sveit, sem og öðrum hafa verið felldar niður og almennt samkomubann gildir í samfélaginu, er nauðsynlegt að finna nýjar leiðir til þess að sinna heilsu sinni. Með tækninni hefur margt verið leyst til bráðabirgða. Símtöl eða jafnvel “vefspjall” getur haldið við samskiptum við þá sem ekki er hægt að hitta í eigin persónu á þessum fordæmalausu tímum. Félagsleg og andleg heilsa getur lent á undanhaldi og þá er mikilvægt að hafa í huga að sinna henni eins og best verður á kosið. Að rækta góð tengsl við sína nánustu er sjaldan eins mikilvægt og nú.

Líkamleg heilsa á undir högg að sækja þegar samkomur eru engar og ekki margt að sækja utan heimilisins. Hreyfing er þó mikilvægur þáttur í að viðhalda góðri heilsu og viljum við í Lýðheilsunefnd Eyjafjarðarsveitar hvetja íbúa til þess að stunda hreyfingu. Gönguferðir í fallegri náttúru eru ekki síður gefandi fyrir andlegu hliðina og fátt betra en ferskt loft í bland við hæfilega ákafa hreyfingu í fallegu umhverfi. Um leið hvetjum fólk til þess að fara eftir fyrirmælum sóttvarnalæknis og almannavarna varðandi hreinlæti, fjölda og nálægð.

Að lokinni göngu eða annarri hreyfingu er gott að huga að liðleika og styrk. Styrktar- og teygjuæfingar eru mjög mikilvægar fyrir vöðva, liði og bein svo eitthvað sé nefnt. Slíkar æfingar má gera með lítilli fyrirhöfn nánast hvar sem er innan veggja heimilisins. Þær þurfa ekki að vera margar og ekki að taka langan tíma en geta skipt sköpum fyrir líkamlega vellíðan.

Íþróttafræðingurinn Fannar Karvel hefur tekið saman meðfylgjandi handbók um hreyfingu þar sem hann setur upp aðgengilegt og skemmtilegt æfingakerfi. Góðar leiðbeingar í máli og myndum fylgja hverri æfingu og eins og nafn bókarinnar gefur til kynna eru æfingarnar sérsniðnar að aldurhópnum 60 ára og eldri. Það er von okkar að leibeiningarnar í þessari bók geti nýst til þess að leggja rækt við líkamlega heilsu þegar þarf að finna nýjar leiðir til að sinna hreyfingu. Fyrir þá sem vanir eru að gera styrktar- og teygjuæfingar heimavið er þessi bók vonandi ánægjuleg viðbót.

 

Með kærum kveðjum
Fyrir hönd Lýðheilsunefndar Eyjafjarðarsveitar
Halldóra Magnúsdóttir, formaður