Deiliskipulag Hrafnagilshverfis

Fréttir
Deiliskipulagssvæði
Deiliskipulagssvæði

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti sl. vetur að hefja vinnu við gerð heildstæðs deiliskipulags fyrir Hrafnagilshverfi. Markmið deiliskipulagsins er að marka stefnu um áframhaldandi uppbyggingu Hrafnagilshvefis á komandi áratugum. Drög skipulagslýsingar hafa verið kynntar og er á þessu stigi máls verðmætt að fá fram athugasemdir sem snúa að umfangi verkefnisins, þ.e. hvort æskilegt sé að líta til þátta sem ekki koma fram í drögum að skipulagslýsingu.

Efnistök skipulagsvinnunar eru m.a.:
• skilgreina heildræna stefnu um uppbyggingu innan þéttbýlismarka Hrafnagilshverfis
• hvar eigi að byggja íbúðarhúsnæði, atvinnuhúsnæði og verslunarhúsnæði
• hvernig húsnæði á að byggja
• hvernig götumynd er æskilegt að ná fram
• hvernig er best að ráðstafa svæði sem losnar við flutning Eyjafjarðarbrautar út fyrir þéttbýli
• hvar á að byggja upp skóla, leikskóla
• hvar eiga að vera opin svæði til almennra nota
• hvernig á að tengja Hrafnagilshverfi við þjóðveg
• hvernig á að tengja svæði innan hverfisins innbyrðis

Unnin hafa verið drög að skipulagslýsingu þar sem skipulagsverkefnis sem fyrir höndum er er skilgreint. Kynningarfundur vegna skipulagslýsingarinnar var haldinn í mötuneyti grunnskólans miðvikudaginn 24. júní 2020 og var hann vel sóttur. Í kjölfar fundarins gefst almenningi kostur á að koma ábendingum eða athugasemdum varðandi skipulagslýsinguna á framfæri. Á þessu stigi máls er einkum verðmætt að fá fram athugasemdir sem snúa að umfangi verkefnisins, þ.e. hvort æskilegt sé að líta til þátta sem ekki koma fram í drögum að skipulagslýsingu.

Skipulagsnefnd mun fjalla um drög að skipulagslýsingu og fram komnar ábendingar á fyrsta fundi eftir sumarfrí og í framhaldinu má gera ráð fyrir að skipulagslýsingunni verði vísað í lögformlegt kynningarferli.

Þegar kynning skipulagslýsingar verður yfirstaðin verður hafist handa við að vinna tillögu að deiliskipulagi. Vonir standa til að geta kynnt skipulagstillögu á vinnslustigi fyrir almenningi snemma vetrar, en þess ber þó að geta að skipulagsvinnan er háð mörgum þáttum og framvinda slíkrar vinnu er alltaf háð einhverri óvissu. Þess má vænta að kynning skipulagstillögu á vinnslustigi fari fram með almennum kynningarfundi, auglýsingu í fjölmiðlum og á heimasíðu sveitarfélagsins.


Frekari upplýsingar um málið er að finna í drögum að skipulagslýsingu sem finna má hér

og í kynningu sem flutt var á fundi sem finna má hér.

Þá má nálgast vinnukort af svæðinu hér sem hægt er að nýta til að teikna inná fyrir eigin athugasemdir.


Ábendingar og athugasemdir vegna draga að skipulagslýsingu má senda í tölvupósti á sbe@sbe.is merkt „Deiliskipulag Hrafnagilshverfis“ og skulu þær hafa borist fyrir mánudaginn 3. ágúst. Einnig er hægt að hafa samband við skipulags- og byggingarfulltrúa símleiðis 696-5767 ef frekari upplýsingar vantar.