Efnistaka úr Eyjafjarðará

Á undanförnum árum hefur efnistaka úr Eyjafjarðará farið vaxandi og virðist eftirspurn eftir efni úr ánni vera að stóraukist.
Margt bendir til að ýmsir verktakar hyggi á mikla efnistöku um þessar mundir fyrst og fremst vegna mikilla gatna- og byggingarframkvæmda á Akureyri og vegna vegagerðar eins og á Veigastaðavegi og Eyjafjarðarbraut vestri frá Sandhólum að Nesi.

Stjórn Veiðifélags Eyjafjarðarár hefur lagt áherslu á að farið verði eftir gildandi reglum um efnistöku í og við veiðivötn sbr. fyrst og fremst ákvæði laga nr. 61/2006, um lax og silungsveiði. Í lögunum segir að Landbúnaðarstofnun skuli veita leyfi til framkvæmda við ár og vötn og að við leyfisveitinguna skuli liggja fyrir álit viðkomandi veiðifélags þegar það á við  og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Það er síðan hlutverk sveitarstjórnar að gefa út framkvæmdaleyfi að fengnu jákvæðu áliti og umsögnum fyrrgreindra aðila.

Þótt stjórn félagsins leggi á það áherslu að fylgt sé reglum og fyrirmælum hvað efnistökuna varðar er hún henni ekki mótfallin, enda sé sýnt fram á að áhrif hennar séu óveruleg og eftir atvikum, að gripið sé til mótvægisaðgerða vegna þeirra. Stjórnin telur sig þó ekki geta veitt leyfi eða umsögn um efnistöku án þess að fyrir liggi áðurgreind umsögn sérfræðings sem félagið getur haft til hliðsjónar við umfjöllun sína. (Úr greinargerð stjórnar Veiðifélags Eyjafjarðarár frá 7. mars 2007).