Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar 2018 og fyrir árin 2019 -2021

Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2018 og árin 2019 - 2021 var tekin til síðari umræðu og samþykkt samhljóða í sveitarstjórn 7. desember sl.

Áætlunin endurspeglar sterka stöðu og ábyrgan rekstur Eyjafjarðarsveitar og gerir sveitarfélaginu kleift að leggja í fjárfestinga- og viðhaldsverkefni án lántöku.

Niðurstöðutölur úr fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2018 í þús. kr.
Tekjur kr. 1.005.681
Gjöld án fjármagnsliða kr. 941.419
Fjármunatekjur og gjöld kr. ( 9.343 )
Rekstrarniðurstaða kr. 54.918
Veltufé frá rekstri kr. 93.394
Fjárfestingahreyfingar kr. 134.750
Afborganir lána kr. 16.727
Lækkun á handbæru fé kr. ( 58.083 )
Ekki er gert ráð fyrir nýjum lántökum.

Á áætlunartímabilinu 2019 - 2021 er ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á almennum rekstrargjöldum. Fjárfesting og markað viðhald á tímabilinu er áætlað kr. 241 millj. og ekki gert ráð fyrir neinum nýjum lántökum. Langtímaskuldir verða greiddar niður um kr. 51,5 millj. og eru þær áætlaðar í árslok 2021 kr. 78,6 millj.

Helstu verkefni ársins 2018 eru:
Hjóla- og göngustígur
Á árinu 2017 hefur verið unnið við uppbyggingu hjóla- og göngustígs milli Hrafnagilshverfis og Akureyrar. Gert er ráð fyrir að stígurinn verði tilbúinn i byrjun sumars 2018. Verkefnið er unnið af Eyjafjarðarsveit með stuðningi Vegagerðarinnar.

Ljósleiðari
Á árinu 2018 verður lokið við lagningu ljósleiðara um allt sveitarfélagið og geta þá öll heimili í sveitinni tengst ljóðleiðara eða ljósneti.

Fræðslumál
Unnið verður að verkefninu „Nútímavæðing Hrafnagilsskóla“ sem felst í því að kaupa tölvubúnað fyrir kennara og nemendur svo og að innleiða nýja kennsluhætti með aðstoð tölvutækninnar. Áfram er gert ráð fyrir því að nemendum verði lögð til námsgögn í skólanum án endurgjalds.
Þá verður unnið að lagfæringum á lóð og leiktækjum Hrafnagilsskóla og Krummakots.

Uppbygging Hrafnagilshverfis
Við Bakkatröð í Hrafnagilshverfi eru nú í byggingu 19 íbúðir sem væntanlega verða allar tilbúnar á árinu 2018. Eyjafjarðarsveit hefur undirritað viljayfirlýsing um kaup á einni íbúð í hverfinu. Sumarið 2018 verður sá hluti Bakkatraðar sem er í uppbyggingu núna malbikaður og gengið verður frá gangstéttum.