Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2015 svo og árin 2016 - 2018 var tekin til síðari umræðu 5. desember s.l. Áætlunin endurspeglar sterka stöðu Eyjafjarðarsveitar og var samhliða áætluninni samþykkt fjárfestingar- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2014 kr. 40,4 millj. og fyrir árin 2016 - 2018 kr. 200 millj.

Fjárhagsáætlun ársins 2015 ber þess merki að launakostnaður vegna nýrra kjarasamninga vex nokkuð á árinu og fer úr 47,1% af tekjum í 50,3%. Til að mæta þeim kostnaði verður beitt aðhaldi í almennum rekstri sveitarfélagsins án þess þó að dregið sé úr þjónustu við íbúana né að beitt sé verulegum gjaldskrárhækkunum. Vegna aukins kostnaðar við sorphirðu verður þó ekki hjá því komist að hækka sorphirðugjald um 7%.
Gjaldskrá leikskóla, mötuneytis og skólavistunar er bundin vísitölu og breytist 1. ágúst ár hvert.

Stærstu verkefnin á tímabilinu eru lagning ljósleiðara í allt sveitarfélagið og einnig er unnið að skipulagningu og hönnun á hjóla- og göngustíg milli Hrafnagilshverfis og Akureyrar.

Ekki er gert ráð fyrir neinum nýjum lántökum á áætlunartímabilinu en lán verð greidd niður á árinu 2015 um kr. 28,3 millj. og á árunum 2016 - 2018 um 58,7 millj. og eru langtímaskuldir áætlaðar 118 millj. í lok árs 2018 eða um 24% af áætluðum tekjum.

Nokkrar lykiltölur úr fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2015 í þús. kr.:

  • Tekjur kr. 842.930
  • Gjöld án fjármagnsliða kr. 784.957
  • Fjármunatekjur og gjöld kr. (6.819)
  • Rekstrarniðurstaða kr. 51.153
  • Veltufé frá rekstri kr. 80.958
  • Fjárfestingarhreyfingar kr. 27.370
  • Afborganir lána kr. 28.353
  • Hækkun á handbæru fé kr. 25.235