Fundur um skriðuföll

Eins og kunnugt er féllu margar aurskriður í innanverðri Eyjafjarðarsveit í des. á síðasta ári auk þess sem stífla efri Djúpadalsvirkjunar brast og olli miklu flóði til viðbótar við gríðarlega vatnavexti sem orðið höfðu vegna mikillar úrkomu og snjóbráðnunar. Um þessa atburði, hugsanlegar ástæður, afleiðingar og viðbrögð var fjallað á almennum fundi í Sólgarði miðvikudaginn 7. þ. m.
Á fundinn mættu um 30 manns auk fyrirlesaranna sem voru formaður Almannavarnanefndar Eyjafjarðar, Björn Jósef Arnviðarson, sýslumaður, og Ólafur Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, sem er starfsmaður nefndarinnar. Ólafur gerði grein fyrir hlutverki almannavarnanefnda eins og það er skilgreint í lögum og lýsti aðkomu nefndarinnar að þeim atburðum sem urðu í Eyjafjarðarsveit í des. þegar skriðurnar féllu. Halldór Pétursson, jarðfræðingur hjá Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands, kynnti skýrslu, sem hann vann fyrir stjórn Ofanflóðasjóðs og er ítarleg úttekt á vettvangi umræddra atburða þar sem m. a. er fjallað um landslag og aðstæður í Eyjafjarðardal, skriðusvæðið við Grænuhlíð, fyrri skriðuföll, veðurfar í aðdraganda skriðufallanna og aðrar skriður á Eyjafjarðarsvæðinu. Esther Hlíðar Jensen, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands, gerði m. a. grein fyrir áhrifum veðurs á hættu á skriðuföllum, aðkomu Veðurstofunnar að vöktun ákveðinna svæða þegar hætta er talin á skriðuföllum, sem til þessa hefur reyndar einungis miðast við snjóflóðahættu, og fl. Fundarmenn virtust almennt ánægðir með þær upplýsingar sem fram komu og þóttu erindi Halldórs og Estherar skýr og upplýsandi og spunnust miklar umræður í kjölfar þeirra. Þó kom fram sú gagnrýni að margt af því sem þau nefndu í erindum sínum hefði mátt koma fram fyrr og upplýsingagjöf frá stjórnvöldum hefði þurft að vera meiri eftir að skriðurnar féllu og augljóst hættuástand var ríkjandi.