Hreyfistyrkur til eldri borgara, íbúar á aldrinum 6-9 ára fá frítt árskort og námsmenn 50% afslátt af árskorti

Fréttir
Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar
Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar

Eldri borgarar í Eyjafjarðarsveit fá hreyfistyrk gegn kaupum á árskorti í sundlaug og líkamsræktaraðstöðu sveitarfélagsins frá og með 1.janúar 2021 og börn á aldrinum 6-9 ára sem búa í sveitarfélaginu fá frítt árskort.

Er nú unnið að útfærslu hreyfistyrks sem sveitarstjórn ákvað að veita öllum eldri borgurum sem þess óska eftir kaup á árskorti séu þeir íbúar í sveitarfélaginu. Styrkurinn var ákveðinn um leið og ný gjaldskrá var samþykkt með breyttum afsláttakjörum eldri borgara af árskorti íþróttamiðstöðvarinnar.

Námsmenn og eldri borgarar fá nú 50% afslátt af árskorti og geta eldri borgarar í sveitarfélaginu að auki sótt um hreyfistyrk. Útfærsla og upphæð styrksins verður unnin í Lýðheilsunefnd og kynnt í kjölfarið fyrir íbúum.

Námsmenn á öllum aldri geta nú mætt með staðfestingu á námi og fengið árskort á 50% afslætti en á undanförnum árum hafa þau kjör eingöngu verið í boði fyrir 18 og 19 ára einstaklinga. 

Samhliða þessu var ákveðið að styrkja öll börn á aldrinum 6-9 ára sem búa í sveitarfélaginu með því að gefa þeim árskort í sund og koma þannig til móts við ungt fjölskyldufólk. Börn og ungmenni á aldrinum 10-17 ára greiða 2.500kr fyrir árskort sín en frá 10 ára aldri er börnum heimilt að fara í sund án forráðamanna.

Gjaldskrá íþróttamiðstöðvar má finna hér