Innanfélagsmót Hjólreiðafélags Akureyrar miðvikudaginn 9. júní, ræsing kl. 18:30 frá Leirunesti

Fréttir

Hjólreiðafélag Akureyrar ætlar að halda lítið innanfélagsmót í Götuhjólreiðum miðvikudaginn 9. júní næstkomandi þar sem keppendur hjóla Eyjarfjarðarhring réttsælis. Í boði er að hjóla bæði einn og tvo hringi. 

Ræst verður frá Leirunesti kl. 18:30 út á þjóðveg 1 og beygt þaðan til hægri inn Eyjafjarðarbraut eystri, hægri beygja tekin við Laugaland og svo aftur við Hrafnagil. Endamark á Eyjafjarðarbraut vestri á milli Skautahallar og Leirunestis. Þeir sem fara tvo hringi halda áfram í gegnum endamark og taka hægri beygju við gatnamót á Norðurlandsvegi.

Til að tryggja öryggi keppenda munum við stýra umferð á Leiruvegi á meðan keppendur fara af stað og þegar fólk leggur af stað í seinni hring munum við tryggja þeim örugga för í gegnum gatnamót Drottningarbrautar, Eyjarfjarðarbrautar Vestri og Norðurlandsvegar.

Endamark verður á milli skautahallar og Leirunestis, en ekki er gert ráð fyrir að það hafi truflandi áhrif á bílaumferð. Starfsmaður verður á gatnamótum við Miðhúsabraut til að tryggja að ekki sé hætta á að bílar sem koma þaðan keyri í veg fyrir hjólreiðafólk.

Starfsfólk Hjólreiðafélagsins verður í gulum sýnileikavestum og sett verða upp skilti á nokkra vel valda staði sem kynna vegfarendum að Hjólamót sé í gangi.

Reiknað er með að allir keppendur séu komnir í mark innan við tveimur tímum frá ræsingu.