Karlakórinn Heimir í Laugarborg


Karlakórinn Heimir í Skagafirði minnist Örlygsstaðabardaga
Þrettándaverk Karlakórsins Heimis "Upp skalt á kjöl klífa" verður flutt í Tónlistarhúsinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit fimmtudagskvöldið 11. febrúar kl 20.30. Sjá auglýsingu.

Hér er raunar um meira en tónleika að ræða því hér er á ferðinni samþætt dagskrá texta, tóna og hljóðmyndar sem byggir á frásögn Sturlungu af einum dramatískasta atburði 13. aldar á landinu - Örlygsstaðabardaga í Skagafirði. Flutningurinn hefur þegar vakið lukku í Miðgarði í Skagafirði, menningarhúsinu með útsýni yfir vígvöllinn forna og í stórborgunum Hvammstanga og Reykjavík.


Jón Sigurðsson, formaður kórsins, segir um tildrög þessa efnisvals að mikill áhugi hafi verið á Sturlungu í Skagafirði og víðar. Menningartengd ferðaþjónusta hafi eflst og ferðabændum í Skagafirði sögusviðið og sagnaefnið nákomið. Kórnum hafi því þótt sjálfsagt að leggja sitt að mörkum.
Agnar H. Gunnarsson á Miklabæ tók saman söguna í samvinnu við Stefán R. Gíslason, kórstjóra, sem valið hefur tónlist og ljóð sem hæfa efninu. Meðal annars eru flutt 2 lög sem Stefán samdi sérstaklega af þessu tilefni, annars vegar við fræg lokaorð Þóris Jökuls, Upp skalt á kjöl klífa, og við kvæði Jóa í Stapa um flótta Tuma um Miðsitjuskarð.

Skagfirðingar eru sko aldeilis ekki einir á sviðinu. Kórinn leitaði liðsinnis séra Hannesar Arnar Blandon, prófasts Eyfirðinga, sem er annar leiklesara, enda var Sighvatur höfðingi á Grund ein aðalpersóna átakanna. Móti Hannesi les textahöfundurinn,  Agnar H. Gunnarsson á Miklabæ. Einsöngvari er Óskar Pétursson stórtenór frá Álftagerði, sem er vel við hæfi, - maðurinn orðinn hálfur Eyfirðingur og útfararstjóri að auki, en mannfall varð nokkuð í bardaganum eins og kunnugt er.
Sjá frekar á http://www.heimir.is