Kerling - einkennisfjall Eyjafjarðarsveitar

Kerling
Kerling

Niðurstaða könnunar, um einkennisfjall Eyjafjarðarsveitar, er Kerling sem hlaut 37 atkvæði af 45 sem bárust skrifstofunni. Önnur fjöll sem nefnd voru til sögunnar voru Staðarbyggðarfjall sem fékk 3 atkvæði, Súlur með 2 atkvæði og 1 atkvæði hvert fengu Sigtúnafjall, Torfufell og Gnúpufell. Myndin af Kerlingu sem fylgir fréttinni er af vefnum Grenndargral.

Mörg skemmtileg svör fylgdu atkvæðum og má sjá nokkur þeirra hér fyrir neðan.

*Okkar fjall er Kerlingin að sjálfsögðu:)
*Auðvitað Kerling,en ekki hvað?
*Bæjarfjallið er á nokkurs vafa Kerlingin
*Sofna undir henni allar nætur og litið upp til hennar alla daga.
*Tignarleg og þegar ég m.a. var í hestaferð á Mývatnsöræfum í góðu skyggni,
þá blasti þetta bæjarfjall mitt við mér hærra en öll þau fjöll sem ég sá til vesturs.
*Ekki spurning:  KERLING
*Hvað annað en Kerlingin !
*Þrjár kynslóðir hér á bæ nefna Kerlingu sem einkennisfjall Eyjafjarðarsveitar!
*Öll fjöllin í sveitinni eru falleg, en okkur hér finnst þetta fjall mest einkennandi
fyrir Eyjafjarðarsveit. Held að það heiti Staðarbyggðarfjall.
*Á mínum bæ höfum við Kerlinguna daglega fyrir augum, tignarlegt fjall sem okkur langar
að tilnefna sem einkennisfjall Eyjafjarðarsveitar.
*Við fjölskyldan í xxx erum einróma sammála um að einkennisfjall Eyjafjarðarsveitar eigi að vera Kerling.
Hún bæri, að okkar mati, það heiti með sæmd enda fádæma glæsilegt fjall.
*Sveitarfjallið er að okkar dómi “ KERLING “ sem er stolt okkar og prýði – 1538 m. á hæð og blasir við
okkur jafnt austan af Hólsfjöllum sem sunnan af Sprengisandi svo eitthvað sé nefnt – veitir okkur skjól
og safnar á herðar sér þeim snjó sem annars myndi setja okkur á kaf í “ vetrarins helkulda hríðum “.
*Fjallið er hæðsta fjall Norðurlands, hátt og tignarlegt og er þar að auki vel þekkt af mörgum
fjallagörpum reyndum sem óreyndum. Margir ganga á fjallið á hverju ári, vor, sumar, haust
og jafnvel yfir vetrartímann. Af toppi fjallsins sést vel til allra átta og langt austur á land. Við
teljum því að fjallið Kerling sómi sér vel sem einkennisfjall sveitarinnar.
*Einkennisfjall Eyjafjarðarsveitar er að sjálfsögðu SÚLUR
*"Með jómfrúna í forgrunni og Þríklakka, Bónda, Stóra-krumma, Litla krumma og Súlur sér til hægri handar."