Korn - fréttabréf frá sveitarstjórn

Fjárhagur

Ársreikningur ársins 2015 hefur verið lagður fyrir sveitastjórn. Rekstrartekjur námu kr. 893,5 milljónum og rekstrargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði námu kr. 813,1 milljónum.  Rekstrarniðurstaða var jákvæð um kr. 39,2 milljónir og veltufé frá rekstri  er kr. 71,2 milljónir. Skuldir við lánastofnanir eru kr. 169,7 milljónir og handbært fé nam 106,9 milljónum.  Skuldahlutfall Eyjafjarðarsveitar er um 32,6% en samkvæmt reglum um fjárhagsleg viðmið má þetta hlutfall vera allt að 150% af reglulegum tekjum sveitarfélags. Ársreikningurinn endurspeglar sterka fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins.

Ljósleiðari

Ljósleiðaraverkefninu miðar vel og er áætlað að verkefninu ljúki á þessu ári, framlag sveitarfélagsins nemur kr. 60 milljónum.

Hjóla og göngustígur

Skipulagsvinnu vegna hjóla- og göngustígs líkur á þessu ári.  Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir kr. 5 milljónum á þessu ári til undirbúnings og hönnunnar.

Framkvæmdaáætlun

Helstu liðir framkvæmdaáætlunnar 2016 er áðurnefndur stígur kr. 5 milljónir. Hönnun og framkvæmdir á nýrri leikskólalóð og fl. í Krummakoti kr. 5,5 milljónir.  Í sumar verður ráðist í viðhaldsmalbikun í elsta hluta Hrafnagilshverfis og er áætlaður kostnaður verkefnisins í heild um kr. 4,6 milljónir, aðrir liðir eru mun lægri.  Fjárfestingar og markaðviðhald nema alls kr. 32,5 milljóna auk ljósleiðarans kr. 15 milljónir.

Byggingaframkvæmdir

Fyrir áramót voru auglýstar til sölu lóðir í Bakkatröð í Hrafnagilshverfi á lækkuðu verði með þeim kvöðum að hús yrðu kláruð að utan innan tveggja ára. Hægt var að verða við óskum allra sem óskuðu eftir lóðum. Sex lóðir hafa verið seldar og eru framkvæmdir hafnar á nokkrum þeirra.

Vinnuskóli

Sveitastjórn hefur tekið þá stefnumarkandi ákvörðun að hækka laun í vinnuskóla um 50%. Vonast er til að sú ákvörðun  leiði til þess að viðhorf til vinnuskólans verði jákvæðara meðal foreldra og barna. Launþegarnir munu fá umsögn um frammistöðu sína sem gæti orðið fyrsti liður í ferilskrá þeirra.

Aðalskipulag

Ákvörðun hefur verið tekin um að endurskoða aðalskipulag sveitarfélagsins og er skorað á íbúa sveitarfélagsins að taka virkan þátt í því verkefni þegar það fer af stað. Haldnir verða kynningar- og samráðsfundir.

Landakaup

Sveitarstjórn hefur samþykkt að kaupa spildu úr landi Grísará neðan vegar. Með því er horft til framtíðar fyrir frekari uppbyggingu í sveitarfélaginu en með þessu skapast aukin tækifæri til að skipuleggja frekari byggð í Hrafnagilshverfi.

Heilsueflandi samfélag

Eyjafjarðarsveit og Embætti landlæknis gerðu nýlega með sér samstarfssamning um þátttöku Eyjafjarðarsveitar í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Verkefnið miðar að því að þróa samfélagslegan ramma utan um markvissa og heildræna heilsueflingu allra aldurshópa. Með undirritun samningsins bætist Eyjafjarðarsveit í hóp þeirra sveitarfélaga sem skuldbinda sig til þess að efla lýðheilsu og lífsgæði íbúa sinna á markvissan hátt. Þau eru nú sjö talsins og ná til ríflega helmings íbúa landsins.

Fjarskipti

Eftir að fjarskiptasamband rofnaði á stóru svæði í vor, þegar ljósleiðari fór í sundur í Eyjafjarðará, hefur sveitarfélagið gert athugasemdir við ástand mála gagnvart viðeigandi aðilum. Vonir standa til að hægt verði að bæta úr því sem aflaga fór á næstu vikum og koma í veg fyrir að línurof endurtaki sig.

Byggðalína

Fulltrúar Landsnets hafa skoðað þann möguleika að ný byggðalína liggi í jörðu um gömlu þverbrautina yfir Leirurnar. Engin ákvörðun liggur fyrir um það, en við teljum vaxandi líkur á því að línan verði lögð í jörð, fremur en á möstrum yfir Eyjafjörð.

Norðurorka

Framkvæmdaleyfi hefur verið gefið út til Norðurorku til að bora nýja holu eftir heitu vatni við Botn. Þörf er á nýrri holu til að leysa af hólmi þær eldri. Búnaður hefur þegar verið fluttur á verkstað og er búist við að framkvæmdir standi fram eftir sumri. Ef viðunandi árangur næst ekki er horft til Sigtúna sem hugsanlegs valkosts. Athygli Norðurorku hefur verið  vakin á því að hitaveitulögnin frá Laugalandi til Akureyrar þarfnast málunar.

Rarik

RARIK hyggst í sumar halda áfram endurnýjun dreifikerfisins í Eyjafirði með því að leggja 12,5 km háspennujarðstreng frá Brúnum að Fellshlíð. Verkefnið er hluti af heildarendurnýjun á dreifikerfi RARIK þar sem um 200 km af kerfinu eru endurnýjuð á ári hverju.  Áætlað er að endurnýjun í Eyjafjarðarsveit verði kláruð í 2-4 áföngum og verði lokið á árið 2020 eða 2021.

Vegagerð

Það sem er á döfinni í Eyjafjarðarsveit er að ljúka við Hólaveginn (826).  Eftir er að keyra efra burðarlagi í veginn, klæða og ganga frá utan vegar. Verklok 15. júlí 2016 skv. verksamningi.
Endubygging heimreiðar á Hlíðarfellsvegi (8348) styrking og ræsi. Að öðru leyti er um hefðbundið viðhald og þjónustu á öðrum vegum

 

Vísast mætti tiltaka fleiri tíðindi, en það verður látið bíða betri tíma.

Með kveðju,

Jón Stefánsson

Oddviti Eyjafjarðarsveitar