Kórónaveiran

Fréttir

Að gefnu tilefni vill sveitarstjóri benda íbúum sveitarfélagsins á að gott er að nálgast allar nýjustu upplýsingar um veiruna á heimasíðu embættis landlæknis www.landlaeknir.is.

Æskilegt er að taka fullt tillit til fólks sem óttast þær aðstæður sem hafa skapast. Þó að mikill meirihluti þeirra sem fá veiruna virðist eingöngu finna væg einkenni ber að bera virðingu fyrir þeim sem eru í frekari áhættuhópum og fjölskyldum þeirra með því að fylgjast vel með og virða tilmæli frá embætti landlæknis.

Þau svæði sem embætti landlæknis hefur skilgreint sem áhættusvæði eru eftirfarandi:

Mikil smitáhætta: Kína, Ítalía, Suður-Kórea og Íran. Einstaklingar sem hafa verið á þessum svæðum eru beðnir um að vera í sóttkví í 14 daga frá dvöl á áhættusvæði. Með dvöl á áhættusvæði er átt við að hafa gist á áhættusvæði.

Lítil smitáhætta: Japan, Singapúr, Hong Kong, Tenerife. Einstaklingar sem eru á þessum svæðum eða hafa verið á þessum svæðum á undanförnum dögum eru beðnir um að gæta ítrasta hreinlætis og huga að sýkingavörnum. Það innifelur meðal annars að þvo hendur oft og vel, hafa klút fyrir andliti við hnerra/hósta eða hnerra/hósta í olnbogabót og nota handspritt. Handþvottur, það að forðast að snerta augu, nef og munn og það að forðast að heilsa með handabandi eru lykilatriði til að forðast smit og fækka smitleiðum.

Stofnanir sveitarfélagsins eru undirbúnar og hafa gripið til þeirra aðgerða sem landlæknir bendir á og koma meðal annars fram hér að ofan. Lögð hefur verið áhersla á að auka vitund starfsfólks á leiðum til að forðast smit og fækka smitleiðum. Einnig hafa upplýsingar verið sendar foreldrum barna í skólunum.

Sveitarstjóri