Hrúturinn 2020 - Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis býður til málþings í Hofi

Fréttir

Fimmtudagurinn 5. mars - dagskrá í Hofi
 
Hrúturinn er árveknisátak um karla og krabbamein sem Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis (KAON) stendur fyrir. Með þessu bréfi viljum við vekja athygli ykkar á málþinginu sem haldið verður í Menningarhúsinu Hofi fimmtudaginn 5. mars og óska eftir stuðningi sem flestra við átakið. Dagskrá málþingsins í Hofi fimmtudaginn 5. mars er hér í viðhengi. Vinsamlegast prentið út og hengið upp á vinnustað ykkar.

Aur fyrir eista er áheitasöfnun þar sem framlögin renna beint til starfsemi Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Upphafsmenn söfnunarinnar eru starfsmenn Fasteignasölu Akureyrar sem óskuðu eftir því að fá að styrkja félagið um ákveðna upphæð fyrir hvert eista hjá fyrirtækinu og skora þeir á önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama í tilefni af Hrútnum. Nánar hér.

Annað árið í röð hefur JMJ látið sauma sérstaka Hrútaklúta sem seldir eru í verslun JMJ og verða ennfremur til sölu á málþinginu í Hofi 5. mars. Allur ágóði af sölu þeirra rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Þeir sem vilja panta klúta til að gefa starfsmönnum sínum eða nota á annan hátt geta sent tölvupóst á netfangið kaon@krabb.is.

Með þessu bréfi viljum við hvetja fyrirtæki og stofnanir til að líta sér nær, láta gott af sér leiða og vera með í þessu skemmtilega verkefni. Það er hægt að gera með hinum ýmsu leiðum sem finna má á http://www.hruturinn.is. Það er ósk okkar að karlmenn hvetji hvern annan í að fjölmenna á málþingið 5. mars sem er einn stærsti viðburðurinn sem Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis stendur fyrir.

Hrúturinn er táknmynd fyrir karlmann sem á yfirborðinu er hrjúfur og tignarlegur en stutt í mjúku hliðina. Hvað gerir karlmaður sem greinist með lífsógnandi sjúkdóm? Hvernig geta félagarnir stutt við hann? Hver eru helstu einkenni krabbameina í körlum?

Tilfinningar hylur hann,
hefur sjaldan grátið.
Uppi um sinn innri mann
ekki er mikið látið.
(Brynjólfur Ingvarsson)

HRÚTURINN er verkefni sem Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis stendur fyrir í samvinnu við Akureyrarstofu og Krabbameinsfélag Íslands.

Norðurorka og KEA eru okkar helstu styrktaraðilar.